Gefum ekki eftir okkar hlut í makrílveiðunum

Miklu skiptir að  halda vel á okkar hlut í heildarveiði á makríl. Nú þegar veiðiheimildir í makríl hafa verið auknar er eðlilegt að hlutdeild Íslands í veiðinni hækki og fylgi þeim breytingum.

Falsaðar veiðitölur ESB - margfalda má með 1,7-3,6

Nýjustu rannsóknir sýna að veiðitölur ESB ríkjanna eru stórlega falsaðar og má margfalda skráðan afla þeirra með 1,7- 3,6. Himinn og haf milli gagna og stofnmats

 Er það væntanlega skýring á að ESB hefur hvorki viljað leyfa fullt eftirlit með löndunum í höfnum sambandsins né taka þáttt í sameiginlegum rannsóknum um útbreiðslu og magn stofnsins.

 Hér eru gríðarmiklir hagsmunir í húfi og skiptir máli að íslensk stjórnvöld standi vel í lappirnar og verji stöðu og rétt Íslendinga í makrílveiðunum.

Mikið og vaxandi magn makríls í íslenskri lögsögu.

Aldrei hefur mælst meira magn af makríl í íslenskri lögsögu en í ár eða liðlega 1.5 milljón tonna. Er það fjórða árið í röð sem makríllinn mælist yfir milljón tonn í lögsögunni. Heildarvístala makríls á því svæði sem rannsakað var í sumar reyndist um 8.8 milljónir tonna, þar af um 17% innan íslensku lögsögunnar. Er það álíka magn og mældist inna færeysku lögsögunnar. Þótt svæðið sem var rannsakað í sumar sé stærra en undanfarin ár er fjarri því að mælingarnar hafi náð yfir allt útbreiðslusvæði makríls . Niðurstöður rannsóknanna sýna að makrílstofninn er í örum vexti og útbreiðslusvæði hans stækkar og göngurnar færast vestar.

Makríllinn fer eins og „ryksuga“ í nýjum beitilöndum

Makríllinn er ekki í neinni kurteisisheimsókn við Íslandstrendur, heldur er hann að leggja undir sig nýjar beitilendur: „Stofn eins og makríll, sem fer vítt og breitt og étur mikið getur unnið svæðisbundinn skaða ef hann fer yfir viðkvæmt svæði á viðkvæmum tímum. Makríllinn er mjög þurftafrekur, hefur hröð efnaskipti og fitnar hratt á skömmum tíma í fæðugöngunni“,segir forstjóri Hafrannsóknastofnunar í viðtali við mbl. 30. ágúst sl. Talið er að makríllinn auki þyngd sína um meira en 40% meðan hann er hér við land. Það er gríðarleg þyngdaraukning. Menn geta sér til um að hann þurfi að éta 2-3 milljónir tonna af sjávarfangi. „ það er augljóst að þegar kominn er nýr gestur sem tekur til sín 2-3 milljónir tonna af lífmassa þá minnkar framleiðslugeta annarra fiskstofna ef fæðunám skarast.“ Það getur leitt til staðbundinna áhrif á vöxt t.d. seiða þorsks og loðnu.

Ég sá þá það í Hólmavíkurhöfn í fyrrasumar að makríllinn hafði smalað sandsíli og seiðum inn í höfnina, króað þau af og síðna hirt upp eins og gríðarstór ryksuga. Allt þetta er mikilvægt að hafa í huga þegar rætt er um makrílveiðar og hlut Íslendinga í þeim.

Ekki má bogna undan hótunum

Ráðgjöf fyrir heildarveiði í makríl á næsta ári hefur verið aukin um 65% frá síðasta ári eða úr 542 þús. tonnum í 895 þús. tonn. Í raun er sú tala meðaltals heildarveiði í makríl síðustu þriggja ára. Þar með er viðurkennd sú staðreynd sem við Íslendingar höfum haldið fram að makrílstofninn sé og hafi verið í mjög örum vexti í mörg ár og allt tal um ofveiði og ósjálfbærar veiðar verið rökleysan ein. 

 Þetta þýðir jafnframt að hótanir ESB um viðskiftaþvinganir og refsiaðgerðir vegna offveiði á makríl styðjast ekki við neinar raunverulegar forsendur aðrar en yfirgang og drottnunargirni framkvæmdastjórnar ESB. Ég kynntist því sem ráðherra að ESB hefur í raun haft lítinn áhuga á að rannsaka magn eða útbreiðslu makríls heldur að fá að deila og drottna í makrílveiðum á Norður- Atlantshafi.

Að deila og drottna

Samkvæmt fréttum virðast ísl. stjórnvöld reiðubúin að þiggja úr hnefa ESB aðeins 11,9% af hlutdeild í heildarveiði í makríl. En það er einum 4-5% lægri hlutdeild en við nú þegar höfum. Jafngildir þetta því að verið sé að gefa frá sér um 50- 60 þús. tonn af makríl til ESB og Noregs.

Mín skoðun er reyndar sú að ekki eigi að ganga til slíkra nauðasamninga og nú er talað um í makríl. Og alls ekki má bogna fyrir ríkjasambandi sem í krafti stærðar og óskammfeilni heldur uppi hótunum um beitingu valds eins og ESB hefur gert gangvart Íslendingum og Færeyingum. Færeyingar hafa þó enn haldið haus í deilunum við ESB um fiskveiðimálin, enda mikið í húfi, yfir 95% af útflutningstekjum þeirra.

Ég sem ráðherra taldi hæfilega hlutdeild okkar vera milli 16 og 17% af heildarveiði úr makrílstofninum. Tók ég þar mið af þáverandi magni og útbreiðslu makríls í íslenskri lögsögu. Lætur nærri að makrílveiði Íslendinga hafi gefið samtals um 100 milljarða króna í útflutningstekjur sl. 4-5 ár. Munar um minna.

Halda fast í okkar hlut

„Ísland hefur á undanförnum árum áskilið sér rétt til að lágmarki 16 -17% af heildarveiði makríls en það er byggt á rétti strandþjóðar, magni makríls í íslenskri lögsögu og gríðarlegu fæðunámi hans hér við land.

 Yfirstandandi samningaviðræður eru í skugga hótana Evrópusambandsins og hafa beina tengingu við aðildarviðræður Íslands sem ekki hefur verið slitið. Heimssýn telur að samningagerð og eftirgjöf undir hótunum Evrópusambandsins um viðskiptabann sé Íslandi sem fullvalda þjóð ekki samboðin“.(Ályktun Heimsýnar 23.okt. sl)

Hér er mikið alvörumál og skiptir miklu að standa vörð um rétt og hagsmuni Íslands í makrílveiðunum.

(Birtist sem grein í mbl. 25.okt.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband