Brotinn betlistafur Jóhönnu og Steingríms til Brussel

Skipaður hefur verið hagræðingarhópur undir forystu Ásmundar Einars Daðasonar alþm. og í honum sitja auk hans,  Vigdís Hauksdóttir alþm., Unnur Brá Konráðsdóttir alþm.og Guðlaugur Þór Þórðarson alþm.,

Hagræðingahópur á gjörbreyttum forsendum?

„Í erindisbréfinu segir að hópurinn skuli fara yfir stóra útgjaldaliði ríkisins s.s. fjölda stöðugilda, skipulag, rekstur, innkaup og skoða hvort gera megi kerfisbreytingar sem leiða til aukinnar framleiðni og betri nýtingar fjármuna“. mbl.: Aðgerðir til hagræðinga hjá stofnunum"

Mér líst vel á það fólk sem hefur verið skipað í þennan hagræðingarhóp. Verður sá hópur  vonandi  gott mótvægi við hagræðingarhóp fyrrverandi ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms sem lagði fram tillögur sínar í vor og fengu viðurnefnið: Samráð gegn landsbyggðinni?  hjá Stefáni Ólafssyni prófessor og álitsgjafa Eyjunnar, og kallar Stefán ekki allt  ömmu sína í þeim efnum.

 Með trúna á Ísland

Ásmundur Einar, Unnur Brá og Vigdís Hauksdóttir hafa öll staðið í eldlínunni  gegn umsókn og aðild að ESB og munu vonandi  leggja aðrar áherslur og  forgansgsröðun í ráðstöfun opinbers fjár og vinnu en fyrri ríkisstjórn Samfylkingar, Vinstri grænna og Bjartar Framtíðar gerði, sem var með aðlögun og innlimun í ESB sem sitt aðalmál. Fjármunir og vinna ráðuneyta, stofnana og stjórnsýslu sem bundin hafa verið í ESB umsókninni geta þá farið í eitthvað þarflegra þegar umsókninni hefur verið ýtt út af borðinu

- Enda hefja „ESB- sambandssinnar“ nú upp harmakvein sín á bloggsíðum, fésbókum  og á  fjölmiðlum sínum- yfir þessari skipan.   

Ég hef þá trú þar til á reynir að þetta fólk sem þarna velst gangi upprétt, trúi á eigið  land og þjóð og sé landsbyggðarsinnað, hafi félagsleg velferðargildi í forgrunni og hagsmuni hins almenna Íslendings, óháð búsetu eða þjóðfélagsstöðu að leiðarljósi.

Ég nefni hér atvinnuvegi landsbyggðarinnar:  sjávarútveg, landbúnaða, matvælavinnslu og menningu og náttúrutengda ferðaþjónustu. Þar liggja ekki hvað síst  sóknarfæri Íslendinga næstu árin í öflun útflutningstekna.

Jöfnun búsetuskilyrða- bætt kjör láglaunafólks

 Ég hef þá trú að þessi hópur geti forgangsraðað fyrir jöfnun á skilyrðum fólks til búsetu og atvinnulífs óháð því hvar það býr á landinu. Ég nefni menntastofnanir á landsbyggðinni, heilbrigðismál og löggæslu. En þessi opinbera grunnþjónusta var skorin  miskunnarlaust niður og þá sérstaklega  á landsbyggðinni af fyrri ríkisstjórn.

Ég mótmælti þessum landsbyggðarfjandsamlegu áherslum fyrri ríkisstjórnar meðan ég átti þar sæti og gat ekki stutt fjárlög t.d. þar sem Rarik og Orkubú Vestfjarða voru krafin um hundruð milljóna arðgreiðslna til ríkisins meðan  stór hluti notenda þessara almenningsveitna um sveitir og kauptún landsins bjuggu við mun hærra raforkuverð en aðrir íbúar, lélegt og úrsérgengið dreifikerfi. Nær væri að mínu mati að  leggja fé til styrkingar innviða þessarar þjónustu á landsbyggðinni. Átti þetta þó þá  að heita félagshyggjustjórn

Rétt forgangsröðun- afturköllun ESB-umsóknar-  og tækifærin kalla

Það verður bæði fróðlegt og forvitnilegt að fylgjast með vinnu, forgangsröðun og tillögum þessa hóps ESB andstæðinga eftir að ESB umsókn Samfylkingar og VG hefur verið drepin og afturkölluð. Þá verður hægt að snúa sér af alvöru að viðfangsefnum þjóðarinnar á rausnsönnum grunni með okkar eigin hagsmuni, fullveldi og velferð að leiðarljósi. Hagræðingahópurinn fær sín tækifæri á nýjum og  breyttum forsendum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband