Í minningu látins vinar

Það er nú einu sinni svo að sumt fólk fær sérstakan sess í hug og hjarta samferðamanna sinna. Það átti sérstaklega við um Guðmund Ágústsson eða Gúnda eins og við kölluðum hann daglega.

Ekki man ég hvenær leiðir okkar lágu saman fyrst en líf hans og starf var svo tengt Kaupfélagi Stykkishólms að um tíma fannst manni eins og hann hefði alltaf verið þar. Sérstaklega er nafn hans í mínum huga tengt búðinni sem Kaupfélagið átti en hann sá um og hafði að geyma allt á milli himins og jarðar.

Þessi búð var reyndar sjaldnast kennd við Kaupfélagið heldur gekk undir nafninu „Gúndabúð“. Þar fengust hamrar og naglar, sagir og sandpappír, fóðurbætir og áburður, vasahnífar og leiktæki - svo fátt eitt sé nefnt.

Fyrir jólin fylltist allt af jólaskrauti og leikföngum til gjafa fyrir jólin. Það sem skipti þó mestu var að gleði, gamansemi, greiðvikni og einstök lipurð fyllti andrúmsloftið í þessari ævintýralegu búð hans Gúnda. Alltaf hljóp Guðmundur við fót, enda léttur á sér ávalt með bros á vör. Guðmundur var glettinn, kímnin í góðu lagi og varð sjaldan svarafátt. Eitt sinn kom maður í búðina og vildi kaupa stóran hníf. „Því miður á ég ekki hníf eins og er, en ég á snæri“ svaraði Gúndi með alvörusvip.
Meðan ég bjó í Bjarnarhöfn held ég að hafi eiginlega aldrei komið svo til bæjarins án þess að líta við í „Gúndabúð“ til þess að fá eitt og annað sem vantaði, auk þess að spjalla við Guðmund sjálfan og hann kunni vel að segja frá.

 Ég hef einnig þá trú að viðmót gagnvart börnum segi meira en flest annað um þann innri mann sem hver hefur að geyma. Guðmundur var einstaklega barngóður og ég minnist þess sérstaklega að börnin okkar Ingibjargar dáðu Gúnda og búðina hans og enginn var svo lágur í loftinu að hann fengi ekki sömu athyglina og þeir sem eldri voru og jafnvel gott betur. Og þau minnast hans öll nú með mikilli hlýju.

 Svipaða sögu um hlýtt viðmót má reyndar segja um allt starfsfólk Kaupfélagsins, en ég kynntist því vel persónulega bæði sem viðskiftavinur, stjórnarformaður félagsins í nokkur ár og einnig sem starfandi kaupfélagsstjóri um tíma.

 Eftir að Kaupfélagið hætti starfsemi sinni fór Guðmundur að vinna í olíuafgreiðslunni við innkeyrsluna í bæinn.

Þar í búðinni tók hann á móti öllum með sömu gleði og léttleika sem bauð alla velkomna í bæinn.

 Við sem vorum burtflutt fundum að við vorum komin heim. Þar á bensin - og olíuafgreiðslunni vann Gúndi svo lengi sem starfþrek entist. Guðmundur var vinmargur og með kærleiksríkri framkomu setti hann mark sitt á allt samfélagið þar sem við vorum þiggjendur.
Nú er hún „Gúndabúð“ horfin en eftir standa minningarnar um einstaklega góðan og hlýjan mann. Þær minningar geymum við, samferðafólk Guðmundar og yljum okkur við og þökkum honum samferðina.

Blessuð sé minning Guðmundar Ágústssonar.
Við sendum Dísu og fjölskyldunni allri innilegar samúðarkveðjur.

 (Guðmundur Ágústsson fæddist í Reykjavík 21. júlí 1939. Hann lést á Sjúkrahúsi Stykkishólms þriðjudaginn 8. janúar 2013.Foreldarar hans voru Ágúst Stefánsson og Katrín Guðmundsdóttir. Þau eru bæði látin. Guðmundur kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni, Vigdísi Kristjönu Þórðardóttur, 9. september 1967. Fyrstu 5 búskaparárin bjuggu þau í Reykjavík en árið 1972 fluttu þau til Stykkishólms, þar sem þau bjuggu alla tíð síðan. Sonur þeirra, Hafþór Smári Guðmundsson, fæddist 16. apríl 1968.Útför Guðmundar fór fram  frá Stykkishólmskirkju laugardaginn 19. jan sl. að viðstöddu fjölmenni )


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband