Um raforkumál í kjölfar veðuráhlaupsins 10. sept. sl

 Ég sendi baráttukveðjur til allra þeirra á Norður- og Norðausturlandi sem hafa mátt glíma við afleiðingar óveðursins 10.- 13. sept.  sl. , bjarga fé og verðmætum og koma innviðum samfélagsins í gang eftir hamfarirnar.

Þar hafa margir lagt hart að sér og samhugur fólks á slíkum stundum sýndur í verki.   Enn liggja ekki fyrir tölur um tjón og fjárskaða en ljóst að það er mikið. Og nú reynist enn gott að hafa Bjargráðasjóð til að geta brugðist við og átt farveg til að bæta bændum tjón eins og eftir eldgosin.Verum minnug þess að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar vildu leggja Bjargráðasjóð alveg niður 2008.

Raforkan er hluti grunnþjónustu

Ég ætla hér fyrst og fremst að fjalla um raforkumálin. Við, sem hér stöndum á Alþingi og tókum þátt í baráttunni gegn einkavæðingu  og sölu á Rarik og á Orkubúi Vestfjarða getum nú hrósað sigri í að hafa koma í veg fyrir þá skemmdaraðför sem þáverandi stjórnvöld beittur sér fyrir gangvart þessum grunnstoðum samfélagsins.

Að þeirri aðför stóðu einkavæðingarflokkarnir þrír Samfylking, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur. VG vildi verja Rarik.   Ekki er víst að svo hratt og örugglega hefði verið brugðið í viðgerðum, ef Rarik væri nú rekið sem einkafyrirtæki á markaði.

En að því var þá stefnt í samræmi við kröfur ESB um innri markaði Evrópu.  Við urðum því miður að horfa á eftir Landssímanum á þeim tíma  í gin einkavæðingarinnar.

Árni Steinar Jóhannsson og Rarik

 Ég nefni þetta hér,  því það var allsekki sjálfgefið á þeim tíma að Rarik væri nú enn í samfélags eigu.  Það er jafnframt gott að vita af  Árna Steinari Jóhannssyni fyrrverandi alþingismanni VG, vera nú stjórnarformaður Rarik.  Árni Steinar var einmitt þá  á Alþingi og  leiddi baráttu okkar hóps gegn einkavæðingu og sölu Rarik.

Og það er gott að minnast þess að ræðutími var þá ótakmarkaður á Alþingi og Árni Steinar og við fleiri nýttum okkur það óspart. Og á síðustu metrunum tókst að bjarga Rarik.   Þótt mörgum fyndist biðin löng eftir viðgerð í veðuráhlaupinu á dögunum,  voru afar dýrmæt  skjót og markviss viðbrögð af hálfu Rarik,  sem byggðu á öflugum mannskap fyrirtækisins á starfsstöðvum víða um land.  Ég fullyrði að svo myndi ekki hafa verið, ef Rarik væri einkafyrirtæki á almennum markaði.

Rarik með lagnir í jörð

Við endurnýjun dreifikerfis undanfarin ár hjá  Rarik hafa allar nýjar lagnir verið lagðar í  jörð, sem stóreykur afhendingaröryggi.

 Hér þarf þó að bæta í.  Langir kaflar inn til dala s.s. í Skagafirði, Húnavatnssýslum, dölum Borgarfjarðar í  strandbyggðum eins og fyrir Skaga og Vatnsnes, fyrir Strandir í Árneshrepp og víðast á Vestfjörðum  og á Snæfellsnesi svo dæmi séu tekin.Hér þarf að spýta verulega í  og hraða endurnýjun dreifikerfisins og  koma lögnum í jörð og tryggja 3ja fasa rafmagn um öll héruð og alla bæi. 

Landsnet dregur lappirnar

Landsnet liggur hinsvegar eftir með endurnýjun aðallagna eins t.d.  frá Varmahlíð um Sauðárkrók og austur um land frá Húsavík til Kópaskers og áfram til Þórshafnar og Raufarhafnar. Landsnet hefur lagt miklumeiri áherslu á uppbyggingu línumannvirkja til stóriðjuvera en að  treysta raforkuöryggi innan svæða, milli byggðarlaga og innan landshluta.

Hér þarf að verða breyting á í stefnumörkun og forgangsröðun Landsnets.

Krafist jafnréttis í raforku

Veðuráhlaupið  9-11 sept. dregur fram mikilvægi afhendingaröryggis á rafmagni, mikilvægi þess að hraða endurnýjun dreifikerfisins, hringtengingu innan byggðarlaga,  koma upp öflugum varaaflsstöðvum á þéttbýlisstöðunum til að grípa til.

En  síðast og  ekki síst  þarf að jafna dreifikostnað rafmagns óháð búsetu, tryggja 3 fasa rafgman í jörð til allra byggða og bæja á landinu.    (Úr umræðum á Alþingi 18. sept 2012)

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband