Að kaupa sér velvild í aðlögun að ESB

ESB er gjafmilt í aðlögunarferlinu. Þegar svokallaðri rýnivinnu er lokið er reynt að leggja mat á hvað það kosti að undirbúa umsóknarríkið fyrir aðild. IPA-styrkir (Instrument for pre-accession assistance) – milljarðar króna, ferðastyrkir og aðlögunarfé -- standa umsóknarríkinu til boða til að breytast í ESB-ríki.

Umræðan er nú um lífeyrissjóðina -- boðsferðir-- vinnuferðir-- í boði þess sem er að kaupa sér velvildina-- ESB kann líka hér til verka.

 Komið við kvikuna

Ummæli Ögmundar Jónassonar a dögunum um að stjórnsýslan og stofnanakerfið íslenska ánetjaðist ESB í gegnum þessa peninga vöktu hörð viðbrögð.  En hver væri annars tilgangurinn með þessum fjármunum? Sveltandi stjórnsýslustofnunum er nokkur vorkunn þót þær ánetjist  en auðvitað eru það stjórnmálamenn sem bera ábyrgðina en ekki embættismenn.
Böggull fylgir þó skammrifi því krafist er að veitt skuli umfangsmikil fríðindi gagnvart þessum aðlögunarstyrkjum. Þingsályktunartillaga og lagafrumvarp þessa efnis liggur nú fyrir Alþingi sem felur í sér að sendiboðum ESB, sem eiga að sannfæra þjóðina um ágæti ESB og undirbúa jarðveginn fyrir aðild, eru boðin ómæld skattfríðindi og persónuleg lögvernd. Vinstrihreyfingin grænt framboð hefur í landsfundarályktunum og flokksráðssamþykktum hafnað móttöku þessara aðlögunarstyrkja.

Verðum að uppfylla kröfur ESB frá fyrsta degi aðildar

Aðildarviðræðurnar við ESB  felast í því að bera saman lög og regluverk Íslands og ESB og skoða hverju Ísland þarf að breyta í sínu kerfi og stjórnsýslu til að falla að regluverki ESB. Fyrir hvern kafla er birt svo kölluð rýniskýrsla.
Að lokinni rýnivinnu ESB metur það hvernig Ísland er í stakk búið til að gangast undir regluverk og innra skipulag ESB á einstökum sviðum. Það er skilyrði af hálfu ESB að Ísland hafi aðlagað sig að öllu regluverki og kröfum ESB áður en hægt er að ljúka „samningum“. Ísland þarf að geta sýnt fram á að það geti starfað sem fullgildur aðili frá fyrsta degi aðildar. Þess vegna erum við í aðlögunarferli að ESB en ekki í samningaviðræðum.

Vissulega tekur aðildin ekki gildi fyrr en Ísland og ríki ESB hafa samþykkt aðildarsamning. Áður en að þeim lokadegi kemur þarf Ísland hins vegar að hafa aðlagað sig að ESB með fullnægjandi hætti að mati ESB
-ríkjanna.

 Umsókn í ESB á krossgötum- framhaldið er hrein aðlögun
Þegar framkvæmdastjórn ESB hefur lokið að rýna í hvern kafla sem hinu svokallaða samningaferli er skipt upp í, en þeir eru 35, gerir hún tillögu til ESB-landanna 27 annað hvort um að Íslendingar séu hæfir til að hefja samninga um kaflann eða þá að okkur er sagt að svo sé ekki og send heim og lesa skilyrði ESB betur
. Það gerðist varðandi kafla 22 um byggðastefnu og kafla 11 um landbúnað og dreifbýlisþróun. Geta má þess að (gagn)rýniskýrsla ESB um kafla 13 um sjávarútvegsmál hefur ekki enn litið dagsins ljós, sem væntanlega er vegna óleystar makríldeilu og  innbyrðis ágreinings ESB-landanna um regluverk til næstu framtíðar fyrir þessa lífæð okkar, sjávarútveginn.

Kröfur ESB liggja nú fyrir

Nú er rýnivinnu ESB að mestu lokið þ.e.a.s. samanburði á lagaverki ESB og Íslands, auk tillagna framkvæmdastjórnarinnar til ráðs ESB um hvernig skuli höndla Ísland í einstökum málum. Þrjú ár verða liðin í vor frá því umsóknin var send og orðið ljóst hvað í boði er. „Samningar“ sem sumir kalla svo geta þá hafist.

„Samningar“ er þó rangnefni því í raun snúast þeir fyrst og fremst um aðlögun okkar að regluverki ESB, hvernig skuli haga röðun og tímasetningu fyrir hvert þrep í aðlöguninni sem verður að hafa átt sér stað áður en viðkomandi kafla af þeim 33 sem um ræðir er lokað.

Hér má minna á að í reynd er það ESB sem tekur ákvörðun um opnun, efnismeðferð og lokun hvers kafla fyrir sig. Allt tal um samningagerð og jafnræði milli aðila við hana er afbjögun. Ekki síst þegar það er meginstefna Íslands að ljúka samningagerð hvað sem það kostar til þess eins að geta borið samninginn undir þjóðaratkvæði.

Eins og ítarlega er rakið hér að framan þá er umsókn Íslands að ESB þessa stundina á afdrifaríkum krossgötum. Enn er hægt að snúa við frá því foraði sem við sjáum að við höfum leiðst út í. Að minnsta kosti er hægt að spyrja þjóðina hvort hún vill fara í þá óafturkræfu aðlögun og miklu óvissu sem fram undan er.

(Úr grein í mbl. 4.febr,: Þjóðaratkvæði um ESB samhliða forsetakosningum )


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband