Magnús Jónsson
Magnús Jóns­son

Í mars á síðasta ári birt­ist grein í vís­inda­rit­inu NATURE um sam­spil tog­veiða og los­un­ar á kolt­ví­sýr­ingi úr hafs­botn­in­um. Lengi hef­ur verið rætt um hátt sót­spor tog­veiða en þá er ávallt átt við los­un á kolt­ví­sýr­ingi vegna mik­ill­ar olíu­brennslu sem á sér stað við tog­veiðar. En í fyrr­nefndri grein var önn­ur hlið á sót­spori tog­veiða skoðuð í um­fangs­mik­illi rann­sókn sem unn­in var af 26 vís­inda­mönn­um víðsveg­ar að úr heim­in­um. 

Los­un á við flugið

Hafa verður í huga að hafs­botn­inn er stærsta kol­efn­is­forðabúr heims­ins. Með því að róta upp efsta lagi hans er verið að leysa úr læðingi mörg þúsund ára gam­alt kol­efni og auka þannig kolt­ví­sýr­ing í haf­inu. Sam­kvæmt niður­stöðum fyrr­nefndr­ar rann­sókn­ar er þarna um að ræða los­un á kolt­ví­sýr­ingi sem er álíka mik­il og frá allri flug­um­ferð heims­ins eða um 2% af heild­ar­los­un mann­kyns­ins. Íslend­ing­ar eru meðal tíu fremstu fisk­veiðiþjóða heims­ins og hér eru veiðar stundaðar með stór­virk­ari botn­dregn­um veiðarfær­um en víðast ann­ars staðar. Þar er um að ræða veiðar með fiskitrolli, drag­nót, humartrolli og rækjutrolli svo helstu troll­teg­und­ir séu nefnd­ar. Þótt Kín­verj­ar, Rúss­ar, Spán­verj­ar og fleiri þjóðir séu þarna fremst­ar í flokki í heim­in­um erum við áreiðan­lega stór­tæk­ari á þessu sviði en flest­ar þjóðir sem stunda tog­veiðar sé mið tekið af fólks­fjölda. 

Súrn­un, sót­spor og sködduð búsvæði

Sam­kvæmt fyrr­nefndri rann­sókn hef­ur þessi kol­efn­is­los­un með tog­veiðum margs kon­ar áhrif. Auk þeirr­ar viðbót­ar á heild­ar­los­un kolt­ví­sýr­ings með til­heyr­andi áhrif­um á lofts­lag jarðar valda þess­ar veiðar auk­inni súrn­un hafs­ins og rösk­un eða eyðilegg­ingu ým­issa búsvæða í líf­ríki botns­ins og hafs­ins. Þannig er talið, að líf­massi og afrakst­urs­geta þeirra fiski­miða sem þess­ar veiðar eru stundaðar á, hafi þegar minnkað veru­lega þótt of­veiði sé þar einnig um að kenna. Fyr­ir ligg­ur að tog­veiðar með botntrolli, einkum á humri og rækju, krefjast meiri ol­íu­eyðslu en aðrar veiðar og hafa því eitt mesta sót­spor í fram­leiðslu mat­væla í heim­in­um. Áætlað er að við veiðar á hverju tonni fiskj­ar sem veitt er með trolli losni að jafnaði rúm­lega 50 tonn af CO 2 . Er það um þris­var sinn­um meira en er að meðaltali í veiðum með öðrum veiðarfær­um skv. alþjóðleg­um út­reikn­ing­um.

 Brott­kast og sóun

Sam­kvæmt op­in­ber­um töl­um eru tæp­lega 20 millj­ón­ir tonna fiskj­ar veidd­ar með trolli eða öðrum botn­dregn­um veiðarfær­um í heim­in­um. Inni í þess­ari tölu eru ekki veiðar með flottrolli sem af mörg­um hér á landi er talið vera skaðræðisveiðarfæri vegna mik­ils meðafla af ýms­um toga, m.a. grá­sleppu­ungviði. Í alþjóðleg­um rann­sókn­um á veiðum með trolli og botn­dregn­um veiðarfær­um er talið að ár­legt brott­kast sé ekki minna en 5 millj­ón­ir tonna á heimsvísu. Þannig stuðla veiðar með þess­um veiðarfær­um að veiðum á mikl­um meðafla og mun meiri sóun á verðmæt­um en aðrar veiðiaðferðir. 

Loka­orð

Ljóst er að veiðar með botn­dregn­um veiðarfær­um eiga í vax­andi mæli und­ir högg að sækja víða í heim­in­um. Það er því um­hugs­un­ar­efni fyr­ir okk­ur á Íslandi að þátt­ur tog­veiða hér við land hef­ur farið sí­vax­andi á síðustu ára­tug­um. Ljóst er að hvorki fræðasam­fé­lagið, um­hverf­is­sam­tök né ís­lensk stjórn­völd hafa gefið þessu þann gaum sem vert væri. Og enn merki­legra er að stöðugt er verið að heim­ila aukn­ar veiðar með stór­virkri drag­nót í land­helgi Íslands og það upp í fjör­ur og inn í fjarðar­botna sem áður hafa verið friðuð svæði. En það er önn­ur kol­efn­is­saga.

Eftir Magnús Jónsson

Höf­und­ur er veður­fræðing­ur. (Endurbirt með leyfi höfundar)