Endurminningin merlar æ

Í dag þann 29. september hefði dóttir mín Katrín Kolka, hjúkrunarfræðingur orðið 31 árs, en hún lést úr krabbameini 27. febrúar 2011 aðeins 28 ára gömul.  Þá voru liðin rúm tvö ár frá því hún fyrst greindist með krabbamein í brjósti.

Á degi sem þessum er manni að sjálfsögðu efst í huga þakklæti fyrir að hafa eignast Katrínu og notið samvistar við yndislega dóttur þennan tíma. Augasteinninn hennar og okkar allra, hann Valdimar er ný orðinn 7 ára.

En þessi tvö erfiðu ár veikinda Katrínar leita oft á hugann. Og ekki síst í ljósi umræðunnar sem nú er um stöðu heilbrigðisþjónustunnar. Allt sem ég heyri nú í fjölmiðlum kallast á við mína reynslu af því að fylgja dóttur minni á þessum erfiða vegi og er í samræmi við ýmsar sárar spurningar sem hafa leitað á mig  bæði nú og  þá.  Ég er líka búinn að vera á Alþingi og í ríkisstjórn og þekki því vel umræðuna um heilbrigðismálin þeim megin frá.

Ég man upphafið er Katrín greindist um miðjan desember 2008 eftir að hafa beðið nokkurn tíma eftir röntgenmyndun. Þrátt fyrir að brýnt væri að fara í uppskurð og  fjarlægja brjóstið var starfsemi spítalans í svo miklu lágmarki  vegna sparnaðar um jól og áramót og leyfa hinna fáu sérfræðinga að komið var fram undir lok janúar er skurðaðgerðin var gerð. 

Ég man líka eftir gleðinni um  sumarið þegar gefið var út að aðgerðin hefði heppnast og nú væri hún alfrísk á ný og þyrfti ekki að koma fyrr en eftir ár í eftirlit.

Katrín rétt náði að ljúka hjúkrunarprófinu og njóta stutts sumars því í júní  2010 var ljóst að krabbameinið hafði tekið sig upp á ný og var nú komið í lungun. Og síðar víðar um líkamann.  Ég skildi ekki, og ekki Katrín heldur af hverju það hafði ekki verið talin nein þörf á eftirliti á þessum mánuðum sem liðu frá aðgerðinni og meðferðinni sem fylgdi.

Að greinast veikur að sumri til er ekki nema fyrir frískasta fólk því tveir til þrír mánuðir geta liðið þangað til spítalinn er kominn í fullt starf á ný eftir sumarleyfin.

 Mér var þá ljóst að  spítalinn var  orðinn mjög undirmannaður enda beið dóttur minnar stöðug mannaskipti og óskipulögð viðbrögð við sjúkdómnum sem herjaði bæði með hraða og grimmd. Hver dagur er dýrmætur þegar gengið er með slíkan bráðasjúkdóm og mistök ekki aftur tekin.

 Mér eru minnistæðir dagarnir og næturnar á krabbameinslegudeildinni 11 E  þar sem starfsfólkið lagði fram alla sína hlýju og umhyggju þrátt fyrir mjög erfiðar vinnuaðstæður. Sumt af starfsfólkinu hafði þá þrívegis fengið uppsagnarbréf innan sama árs vegna stöðugrar hagræðingar og niðurskurðar sem aftur kallaði á mikla óvissu og álag.  

 Mér er minnistætt þegar leitað var í dyrum og dyngjum að bestu rúmdýnunni fyrir Katrínu á deildinni en þær voru flestar gamlar, mjög slitnar og signar inn í miðjuna og hún þoldi þær alls ekki. Nýjustu dýnurnar tvær hafði starfsfólkið sjálft haft milligöngu um að útvega og fengið að gjöf frá Íslenskri erfðagreiningu.

Mér er minnistætt þegar eina geislunar eða röntgentækið til að mynda höfuð og heila, áratugagamalt var stöðugt að bila þannig oft varð frá að hverfa og fresta myndatöku.  Katrín var beðin að koma snemma næsta morguns ef tækist að koma tækinu í lag svo hún yrði fyrst ef það síðan bilaði. Þessi ferill allur hefði verið mikið álag fyrir fullfrískt fólk.  

Hvar sem að var komið var undirmönnun, starfsfólk að koma of snemma til vinnu sem hafði veikst. Hjartahlýjan og umhyggjan starfsfólksins var þá ávalt fyrir hendi. Það var hún sem gaf traustið.

Mér finnst það mjög heiðarlegt þegar forstöðumenn og sérfræðingar  Lyflækningadeildar og  Krabbameinsdeildar lýsa því yfir hún sé orðin svo undirmönnuð, sérfræðinga skorti svo og  tækjabúnað og aðstöðu  að komið sé út af brúninni. Það sé ekki lengur hægt að tryggja fullnægjandi  öryggi og þjónustu við sjúklinga krabbameinsdeildarinnar. Þá er staðan orðin meir en graf alvarleg. Mér fannst raunar sú sama staða vera uppi  þegar dóttir mín lá þar veik fyrir tveim árum síðan.  Alla vega er ákaflega erfitt að hugsa til þess að staðan hafi í raun og veru versnað frá þeim tíma.  

 Margt fleira fólk sem hefur svipaða  erfiða reynslu hefur haft samband við mig og sagt sögu sína.

Við heyrum nú af fjöldasöfnunum , áheitahlaupum og framlögum hverskonar til að styrkja tækjakost Landspítalans og sjúkrahúsanna um allt land. 

 Stjórnvöld eru hinsvegar sá aðilinn sem dregur lappirnar í skilningsleysi. Þar ganga dekurverkefni fyrir heilbrigðisþjónustu.  Meir að segja leyfðu forystumenn í síðustu ríkisstjórn sér  að sýna þann hroka að agnúast út í Þjóðkirkjuna og biskup fyrir að beita sér fyrir og hvetja til söfnunar fyrir Landspítalann.

 Það þarf þjóðarsátt, þjóðarátak fyrir heilbgrigðisþjónustuna.

Yfirlýsingar, ákall allra hópa heilbrigðisstarfsfólks um allt land getum við ekki látið sem vind um eyrun þjóta. Það er hrein veruleikafirring og bein kaldhæðni að halda því fram að heilbrigðisþjónustan þoli meiri niðurskurð, hún þolir ekki einu sinn óbreytt ástand.   

Það er ekki heldur svo að Íslendingar séu bjargarlausir, síður en svo. Það hefur verið, árgæska til sjávar og sveita síðustu fjögur ár og meiri tekjur af ferðaþjónustu en nokkru sinni, svo dæmi sé tekið.  Það er aðeins forgangsröðun í ráðstöfun tekna ríkisins og þjóðarinnar sem er röng. Henni verður að breyta.

Ég mun leggja mitt af mörkum  í umræðunni til að standa að baki heilbrigðisþjónustunnar hvort heldur er á Landspítalanum eða á sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum um allt land.

 Með niðurskurðinum á heilbrigðisstofnunum  landsbyggðarinnar eykst álagið á Landsspítalann.

 Það er komið að örlagastundu fyrir heilbrigðisþjónustu landsmanna. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband