Ófrávíkjanlegar kröfur Íslendinga gagnvart ESB

 

Nú er unnið að mótun samningsafstöðu Íslands gagnvart ESB í 12. kafla er varðar matvælaöryggi, dýra og plöntuheilbrigði.
Þetta er einn af afdrifaríkustu þáttum okkar Íslendinga í samningum við ESB og því mikilvægt að talað sé skýrt og staðið fast á ófrávíkjanlegum hagsmunum Íslendinga í þessum efnum.

Baráttumál Vinstri grænna
Af hálfu Íslands verður því að setja fram mjög afdráttarlausa kröfu og skilyrði í viðræðunum við ESB, sem tryggi öryggi og verndun íslenskra búfjárkynja og plantna með þeim varanlegu undanþágum sem landið hefur haft skv. EES samningnum og barist var fyrir og staðfest með hinum s.k. matvælalögum árið 2010.
Matvælalögin s.k. sem samþykkt voru á Alþingi 2010 samhljóða og mótatkvæðalaust undirstrika og staðfesta rétt Íslendinga til að beita þessum lagalegu vörnum til verndar viðkvæmum búfjárkynjum landsins, fæðu og matvælaöryggis þjóðarinnar. Þessi ákvæði matvælalaganna voru einmitt sérstakt baráttumál Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs við síðustu alþingiskosningar, sem lauk giftusamlega með samþykkt laga frá Alþingi.

 

Skýrar varnarlínur
Bændasamtök Íslands létu framkvæma mjög vandaða úttekt og greiningu á stöðu íslensks landbúnaðar gagnvart ESB og þeirri áhættu sem tekin væri með umsókn og/ eða aðild að ESB og hvernig bæri að taka á einstaka efnisþáttum í samningaviðræðunum.
Settu þau fram ákveðin grundvallaratriði varðandi þá samninga sem þau kölluðu " varnarlínur" Bændasamtakanna í landbúnaðarmálum, matvæla- og dýraheilbrigðismálum og tollamálum.
Frá upphafi samningaferilsins við ESB lýsti ég því yfir sem ráðherra, að ég gerði „varnarlínur“ Bændasamtakanna að mínum hvað áðurnefnda þætti varðar. Tilkynnti ég það með formlegum hætti í ríkisstjórn á sínum tíma og að á þeim væru grunnsamningskilyrði Íslendingas byggð í þessum málaflokkum.

Ófrávíkjanlegar kröfur í dýraheilbrigðismálum
Nú er komið er að því að leggja fram samningsafstöðu Íslands um 12 . kafla - Matvælaöryggi og dýra og plöntuheilbrigði. Þar verða tilgreindar lágmarkskröfur Íslendinga í þessum viðræðum.

Í ljósi mikilvægis þessa máls fyrir Íslendinga og ofangreindra skilyrða sem liggja fyrir, er það mitt mat að íslensk stjórnvöld verði að setja fram í texta samningsafstöðunnar skýlausa og ófrávíkjanlega kröfu um að Ísland fái haldið varanlega rétti sínum og undanþágum hvað varðar bann við innflutningi á lifandi dýrum og innflutningi á hráum ófrosnum dýraafurðum og bann við innflutningi tiltekinna planta og trjáa en framselji ekki þann rétt til Brussel.

ESB verði krafið svara innan tiltekins tímafrests um afstöðu sambandsins til þessara atriða á grundvelli þess að hér sé um ófrávíkjanleg skilyrði af hálfu Íslands að ræða fyrir áframhaldandi viðræðum um kaflann.

 

Talað tæpitungulaust
Við ætlum ekki að gefa eftir kröfu okkar um bann við innflutningi á lifandi dýra og hráum ófrosnum dýraafurðum og það á að orða það skýrt í þeim texta sem fer frá Íslendingum til ESB hvað þennan málaflokk varðar. Meðan ferlið og aðlögunin er ekki stöðvuð af hálfu Alþingis eða umsóknin borin undir þjóðina, verður Ísland að setja fram með skýrum og afdráttarlausum hætti kröfur sínar, fyrirvara og ófrávíkjanlegu skilyrði í samningaviðræðunum sem ekki verði samið um.

 
(Birtist sem grein í mbl. 27.01.2012


 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband