Þriðjudagur, 16. október 2012
" Núbóar " gleðjast yfir tillögum Stjórnlagaráðs
"Ákveðið var að fella út 2. mgr. 72. gr. núgildandi stjórnarskrár sem takmarkar rétt erlendra aðila til að eiga fasteignaréttindi og hlut í atvinnufyrirtækjum á Íslandi".
Hún lætur lítið yfir sér þessi tillaga Stjórnlagaráðs um breytingu á stjórnarskránni sem kosið verður um n.k. laugardag. En lagt er þar til að fella brott úr núgildandi stjórnarskrá síðari málsgrein 72. greinar um stjórnarskrárbundna heimild til að mega takmarka eignarrétt og kaup útlendinga á fasteignum eða hlut í atvinnufyrirtækjum hér á landi:
" Með lögum má takmarka rétt erlendra aðila til að eiga fasteignaréttindi eða hlut í atvinnufyrirtæki hér á landi".
segir í núgildandi stjórnarskrá. Stjórnlagaráð leggur til að þessi setning verði felld brott úr stjórnarskránni.
Í skýringum með tillögum Stjórnlagaráðs segir:
" Ákveðið var að fella út 2. mgr. 72. gr. núgildandi stjórnarskrár sem takmarkar rétt erlendra aðila til að eiga fasteignaréttindi og hlut í atvinnufyrirtækjum á Íslandi. Þessi málsgrein þykir stangast á við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að og heimila Íslendingum hindrunarlaust að eiga fasteignaréttindi og hluti í atvinnufyrirtækjum erlendis. Rætt var í Stjórnlagaráði hvort takmarka ætti rétt bæði Íslendinga og erlendra aðila til að eiga fasteignaréttindi eða hlut í atvinnufyrirtæki hér á landi en horfið var frá því.
Að mínu mati er mjög mikilvægt að halda þessu ákvæði í stjórnarskránni sem öruggri stoð fyrir setningu laga um fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi.
Hinsvegar munu væntanlega allir "Nubóar" og stuðningsmenn þeirra fagna því, ef þessir breytingar ná fram að ganga.
Tekist er einmitt á um það í ESB viðræðunum hvort afnema eigi takmörkun á eignarhaldi og fjárfestingum útlendinga í íslenskum sjávarútvegi hér á landi og beygja sig þar með undir kröfur ESB.
Með því að afnema þetta ákvæði úr stjórnarskrá opnar það verulega fyrir erlenda aðila til að fjárfesta í fasteignaréttindum hér á landi og erfiðara en áður að setja þeim skorður með lögum.
Framhaldssagan um kaup eða leigu kínverjans Núbó á Grímsstöðum á Fjöllum ætti að færa okkur heim sanninn um að frekar ætti að þrengja en rýmka rétt útlendinga til fjárfestinga og uppkaupa á fasteignaréttindum hér á landi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:24 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.