Þriðjudagur, 23. september 2008
Davíð talar frá Íslandi - Geir frá Wall Street í New York !
Davíð kallar þá fyrirlitlega lýðskrumara ( les Þorstein Pálsson, Vilhjálm Egilsson og aðrir "krataleiðtogar". jb) sem stinga höfðinu í sandinn og kenna öðrum um, hrópa á evru og vilja halda hlífiskildi yfir bröskurunum.
Davíð viðurkennir að mikil mistök hafi verið gerð hér innan lands í stjórn efnahags- og peningamála og hér þurfi að taka til hendi og hann sendir þeim tóninn sem nú taka stöðu gegn íslensku krónunni.
Vissulega er Davíð að fella dóm yfir gríðarlegum mistökum í eigin efnahagsstjórn undanfarinna ára. En hvort sem maður er sammála Davíð eða ekki skilur þjóðin hvað hann segir. Og Davíð flýr ekki af vettvangi.
Geir og Ingibjörg heilluð í New York
Þessu er hinsvegar öfugt farið með Geir sem ásamt Ingibjörgu sinni tiplar nú um á brask torgum New York borgar. Eins og í vímu er Geir heillaður af handagangi og hrópum víxlaranna á Wall Street og í gegnum íslenska sjónvarpið biður hann almenning að sýna fjárglæframönnum miskunn og taka á sig byrðar þeirra. Geir heimtar einkavæðingu Íbúðalánasjóðs og vill afhenda hann fjárfestingabönkunum. Af víxlaratorginu hnýtir Geir eðlilega í Vinstri græna sem tali fyrir úreltum gildum eins og heiðarleika og góðu viðskiptasiðferði og opinberum Íbúðalánasjóði. VG vilji aðskilja brasksjóði og viðskiptabanka fólksins þannig að almenningur beri sem minnsta ábyrgð á gjörðum braskaranna í fjárfestingasjóðunum.
Vinstri græn standa vaktina á Íslandi
Einmitt vegna þess að viðskiptabankar og fjárfestingalánasjóðir voru aðskildir í Bandaríkjum gat alríkisstjórnin gripið í taumana og þjóðnýtt starfsemina. Hér á landi er hinsvegar viðskiptabönkum og fasteignalánasjóðum krullað saman með samrekstri krosseignatengslum og því erfiðara um vik fyrir ríkisvaldið að grípa inn ef illa fer nema þá að taka ábyrgð á öllu heila klabbinu. En það er það sem Geir greinilega vill: Almenningur skal taka ábyrgð á bröskurunum.
(Eru annars ekki næg verkefni fyrir formenn stjórnarflokkanna á Íslandi þessa dagana.?)
Meðf. er úrdráttur úr viðtali við Geir í gærkvöld frá New York
Enginn fjárfestingabanki er nú starfandi á Wall Street eftir að samþykkt var að breyta þeim tveimur sem eftir voru í viðskiptabanka. Geir H. Haarde, forsætisráðherra, segir þetta sýna að aðskilnaður starfsemi viðskiptabanka og fjárfestingabanka sé óskynsamlegur og geti leitt til mikils ófarnaðar. Fyrir örfáum vikum voru 5 fjárfestingabankar á Wall Strett en nú er enginn eftir. Lehmann Brothers varð gjaldþrota, JP Morgan keypti Bear Sterns, Bank of America keypti Merril Lynch og í gærkvöld samþykkti bandaríski Seðlabankinn beiðni þeirra tveggja sem eftir voru, Goldman Sachs og Morgan Stanley, að fá að breytast í hefðbundna viðskiptabanka. Það þýðir að þeir geta nú tekið við innlánum og fá aukna vernd Seðlabankans. Allt frá upphafi fjórða áratugs síðustu aldar og til aldamóta var bannað í Bandaríkjunum að sami banki væri viðskiptabanki og fjárfestingabanki en hér á landi er það heimilt. Geir H. Haarde, forsætisráðherra: Já, þetta eru mjög athylgisverðar fréttir vegna þess að áratugum saman hefur fjárfestingabanka- og viðskiptabankastarfsemi hér í Bandaríkjunum verið aðskilin en nú hafa menn lært þá lexíu af þessum miklu hamförum hér á fjármálamörkuðunum að það líkan sé óskynsamlegt og hafi leitt til mikils ófarnaðar eins og við höfum séð hér að undanförnu vegna þess að fjárfestingabankarnir hafi ekki haft neinn viðskiptalegan grunn til að standa á eins og gerist þegar um er að ræða innistæðubankana. Ég tel að þetta sé mjög til umhugsunar fyrir okkur heima vegna þess að þar hafa verið þær raddir að við ættum að gera áskilnað um að þessari starfsemi væri skipt upp heima og ég held að þeir sem hafa haldið því fram ættu að hugsa sitt mál aðeins betur. Þeir einu sem lagt hafa til að breyta lögum um aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingabankastarfsemi eru Ögmundur Jónasson og Steingrímur J. Sigfússon, þingmenn Vinstri-grænna. Þeir lögðu þetta til 2002 en það var ekki afgreitt. Lang stærsti fjárfestingabankinn hér á landi er Straumur. Straumur hefur reyndar viðskiptabankaleyfi en nýtir það ekki. Stærstu eigendur að Straumi eru þeir sömu og eiga stærstan hlut í Landsbankanum, Samson, félag Björgólfsfeðga. Undanfarið hafa verið uppi vangaveltur um hugsanlega sameiningu Straums og Landsbankans, forráðamenn bankanna hafa ekki gefið neitt slíkt til kynna. |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:38 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.