Föstudagur, 30. janúar 2015
Makríll fyrir 22 milljarða
Verðmæti útfluttra makríl afurða voru 22 milljarðar árið 2014. Síðastliðin 5 ár hefur verðmætið verið um 20- 25 milljarðar á ári. Makríll fyrir 22 milljarða
Tekjur af makrílveiðum og atvinnan sem þær veiðar sköpuðu á árunum eftir hrun skiptu höfuðmáli í endurreisn efnahags og atvinnulífs Íslendinga á þessum árum og gerir enn.
Evrópusambandið vill deila og drottna í makrílnum
Mikilvægt er að halda þessum staðreyndum vel á lofti í umræðunni um samskipti við Evrópusambandið.
Þar á bæ var því algjörlega hafnað fyrst í stað að hér væri nokkur makríll. Og auk þess að sá makríll sem veiddist væri í raun eign ESB landa og Noregs.
Ákvörðun mín sem ráðherra að hlutur Íslendinga í heildarveiði makríls ætti að vera um 16-17 % skipti sköpum fyrir efnahag og atvinnu Íslendinga á þessum árum. Jafnframt var kveðið á um fullvinnslu á makríl til manneldis.
Vissulega hafði þetta í för með sér að Evrópusambandið neitaði að opna á samninga um sjávarútvegskaflann í aðildarferlinu, nema við gæfum fyrst eftir makrílinn.
Enda ef við gengjum í Evrsópusambandið mundi það fara með samninga og stjórnun veiða úr deilistofnum fyrir aðildarlöndin.
Á þessu m.a. strönduð aðildarviðræðurnar við ESB, því að ég sem ráðherra neitaði að gefa þann rétt Íslendinga eftir. Vissulega sýndi ESB sitt rétta eðli og hótaði viðskiptastríði og ESB- sinnar hér á landi skulfu í hnjánum.
Förum sjálfir með samningsréttinn í deilistofnum
Ég sem ráðherra þessa málaflokks var ábyrgur fyrir samningum um sjávarútveg við ESB. Mér hinsvegar var fullkomlega gert ljóst að aðildarsamningar gætu ekki haldið áfram nema Íslendingar gæfu fyrst eftir samningsrétt og stjórnun veiða úr deilistofnum eins og makríl til framkvæmdastjórnar ESB.
Þessi krafa ESB er og verður ófrávíkjanleg. Alþingi hefur ekki gefið heimild til að láta forræðið af hendi og mun vonandi aldrei gera.
Þess vegna er það með ólíkindum að heyra ýmsa forystumenn í atvinnulífi Íslendinga ganga um í einskonar blindum ástarbríma til Evrópusambandsins og vera reiðubúnir að gefa þennan frumburðarrétt þjóðar frá sér.
Sjávarútvegsráðherra standi í lappirnar
Sjávarútvegsráðherra þarf að standa vel í lappirnar og verja rétt Íslendinga til veiða á makríl. Heildarveiði þjóðanna á makríl á síðstliðnu ári nam um 1.4 milljónum tonna. Eðlilegur hlutur okkar í veiði á næsta ári ætti því að vera um 16,5 % af því eða 200 þús. til 220 þús tonn.
Vonandi hefur sjávarútvegsráðherra kjark til þess.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:04 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.