ESB krafðist fullveldisafsals á fiskveiðiauðlindinni

Það lá fyrir að ESB neitaði að opna á viðræður um sjávarútvegsmál nema að Ísland féllist fyrirfram á að gefa eftir fullveldisréttinn yfir fiskveiðiauðlindinni í samræmi við samþykktir Evrópusambandsins. Um það  segir svo  í skýrslu Hagfræðistofnunar:

 „ Stofnanir Evrópusambandsins hafa vald til þess að setja löggjöf í sjávarútvegsmálum sambandsins í mjög víðtækum mæli. Þá fer Evrópusambandið eitt með valdheimildir yfir varðveislu auðlinda í sameiginlegri fiskveiðistefnu þess. Varðveisla auðlinda nær ekki aðeins til reglna um leyfilegan hámarksafla og tæknilegar verndarráðstafanir heldur einnig til reglna um markaðsmál og skiptingu kvóta milli aðildarríkjanna og fleiri atriða“.

 Til þess að samningaferill gæti hafist í ESB-viðræðunum um hvern  samningskafla, sem eru 33 þurftu báðir aðilar að leggja fram svokallaða rýniskýrslu, þar sem greindur var munur á löggjöf og regluverki aðila í málaflokknum. Í rýniskýrslu Íslands var greint í hverju löggjöf Íslands vék frá regluverki ESB. Í rýniskýrslum sínum fer sambandið yfir íslenska regluverkið og hverjir séu annmarkar þess og  hverju Ísland þyrfti að breyta í sinni löggjöf til að falla að kröfum ESB. Ennfremur skal rýniskýrsla ESB fela í sér tillögur framkvæmdastjórnarinnar til landa ESB hvort Ísland sé hæft til samninga um viðkomandi kafla og ef ekki þá hvaða fyrirmæli skuli gefa um úrbætur svo samningar geti hafist. Í regluverki ESB eru ákvæði um að sé um annmarka á aðlögun löggjafar umsóknarlands að ræða skuli setja opnunarskilyrði fyrir viðkomandi kafla sem skuli mætt áður en samningar um kaflann geta hafist.  

Rýniskýrsla Íslands um sjávarútveg var fyrir löngu tilbúin af Íslands hálfu og rædd, en framkvæmdastjórn Evrópusambandsins þorði ekki að birta sína, Til þess bar of mikið í milli og sérstaklega í grundvallaratriðum. Þar bar hæst  ófrávíkjanleg krafa ESB um að öll yfirstjórn auðlindarinnar færðist til Brussel.-  Einungis væri hægt að semja um undanþágur til takamarkaðs tíma.

Með því að setja þá kröfu fram sem opnunarskilyrði fyrir sjávarútvegskaflann hefðu samningar um hann aldrei getað hafist og staðið óopnaðir til eilífðarnóns nema því aðeins að öllu hefði verið fórnað af Íslands hálfu aðeins til að ná samningum og fá að "kíkja í Pakkann". Það verður að hafa hugfast í þessari umræðu að ESB heldur alfarið um stýrið á þessari vegferð, ræður því hvort samningar um einstaka kafla hefjast og hvort lokið og hver útkoman er. Það er Ísland sem sækir um aðild að ESB en ekki öfugt.

Ég krafðist þess sem ráðherra að rýniskýrslan um sjávarútveg frá ESB kæmi fram og þá birtust formlega kröfur sambandsins um hverju við yrðum að breyta í okkar löggjöf. Jafnframt myndi þá birtast formleg krafa þeirra um afsal okkar á forræði auðlindarinnar. Það stóð aldrei til af minni hálfu að gefa fyrirfram eða á samningsferlinu eftir fullveldisrétt Íslands í sjávarútvegsmálum.

Krafa ESB um yfirráð á fiskveiðiauðlindinni

Samningamönnum ESB var það reyndar fullljóst að kæmi afstaða og kröfur þeirra formlega fram þá væri í raun samningum sjálfhætt.  Hverjum dettur það raunverulega í hug að Ísland myndi nokkurn tíma gefa þann forræðisrétt frá sér?-  Þetta var ýmsum öðrum í ísl. stjórnsýslu líka ljóst og því leiddu þeir athyglina frá sjávarútvegi að öðrum deiluatriðum eins og landbúnaði. Um þetta segir í skýrslu Hagfræðistofnunar:

„Hvað varðar sjávarútvegskaflann er mikilvægt að árétta að þegar viðræðunum var frestað hafði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ekki lagt fram rýniskýrslu sína og Ísland gat því ekki lagt fram formlega samningsafstöðu sína í sjávarútvegi“.

Og síðan er vikið að því að Íslendingar myndu seint hafa samþykkt þá kröfu ESB að „ formlegt forræði yfir auðlindum sjávar, takmarkanir við fjárfestingar og forsvar á alþjóðavettvangi „ færðist til Brussel. Áfram segir í skýrslu Hagfræðistofnunar:

„ Stofnanir Evrópusambandsins hafa vald til þess að setja löggjöf í sjávarútvegsmálum sambandsins í mjög víðtækum mæli. Þá fer Evrópusambandið eitt með valdheimildir yfir varðveislu auðlinda í sameiginlegri fiskveiðistefnu þess. Varðveisla auðlinda nær ekki aðeins til reglna um leyfilegan hámarksafla og tæknilegar verndarráðstafanir heldur einnig til reglna um markaðsmál og skiptingu kvóta milli aðildarríkjanna og fleiri atriða“.

Samningsstaða Íslands sterk í makrílnum

Þá er vikið að deilunum um makríl og þann rétt Íslands sem sjálfstæðs strandríkis að semja um varðveislu og nýtingu deilustofna. Ég gerði mér grein fyrir mikilvæginu, þegar ég skrifaði undir reglugerð 30.des 2011, sem kvað á um tæp 150 þús. tonn af makríl fyrir íslenska fiskiskipaflotann fyrir árið 2012. En það var að mínu mati eðlileg hlutdeild okkar í makríl, öll veidd innan eigin lögsögu,

Jafnframt vissi ég að með þeirri ákvörðun var verið að setja alla eftirgjöf af Íslands hálfu í frost gagnvart ESB næstu árin í sjávarútvegsmálum. Slíkt er reyndar rækilega undirstrikað í skemmtilegri bók fyrrverandi utanríkisráðherra, Ári Drekans en þar er því lýst hve ESB ríkin áttu erfitt með að sætta sig sjálfstæðan rétt Íslands sem fullvalda ríkis að semja um og veiða makríl í sinni eigin lögsögu.

 Sóknarfæri Íslands liggja í sjálfsstæði þess og fullveldi heima sem erlendis.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband