Á Búnaðarþingi

Við höfum sem betur fer sjálfstæði og fullveldi til að gera nýjan búvörusamning sjálf og takast á um hann á heimavelli. Það væri útilokað ef Ísland hefði gengið í ESB.

Sem betur fer tókst að stöðva Evrópusambandsumsóknina sem var keyrð áfram í miklu offorsi af formönnum Samfylkingar og Vinstri grænna í síðustu ríkisstjórn. Ef þeim hefði orðið að ósk sinni væri Ísland nú komið inn í Evrópusambandið og ekki verið að semja um matvæla- og fæðuöryggi landsmanna í búvörusamningi milli ríkisvaldsins og bænda.

Slík umræða ef nokkur væri, myndi fara fram í skrifstofubákninu í Brüssel.  

Við getum að sjálfssögðu deilt um nýjan búvörusamning og mér finnst sjálfum alltof mikil Brüssellykt af honum og daður við stefnu og kröfur ESB sem henta enganvegin hér á landi. 

Vert er að minnast þess að þegar núgildandi búvörusamningur var framlengdur í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur  krafðist fjármálaráðherra þess, að hann væri undirritaður með fyrirvara um, að ef gengið yrði í Evrópusambandið á gildistímanum þá mætti endurskoða samninginn eða fella úr gildi í samræmi við kröfur Evrópusambandsins.

Þeir sem nú tala fjálglegast jafnvel frá hjartanu um stuðning við íslenskan landbúnað ættu að minnast þessarar nýliðnu fortíðar. Að vísu hefur hjartað fjögur hólf.

Mér var hugsað til þessa alls meðan ég hlustaði á hástemmdar  ræður á Búnaðarþinginu.

ESB aðildarsinnar gráta

Hörðustu ESB sinnar gráta það enn að hafa ekki komist inn í dýrðina í ESB. Þeir kenna landbúnaðinum um og  finna búvörusamningunum allt til foráttu. Sérstaklega er þeim í nöp við það, að forsjá búvörusamninga skuli enn vera í höndum Íslendinga sjálfra en ekki í Brüssel.

 Mér finnst hinsvegar dapurlegast að sjá í nýgerðum tollasamningum við Evrópusambandið að hagsmunum íslensks landbúnaðar og matvælaframleiðslu er ógnað með stórauknum tollfrjálsum innflutningi á vörum sem við nú framleiðum hér á Íslandi, hollari en í nokkru öðru nágrannalandi.

Finn ég þar lyktina af því sem var að gerast neðanjarðar í aðlögunarsamningunum við Evrópusambandið á sínum tíma.

 Ég sem ráðherra  hafnaði skilyrðislausri tollaeftirgjöf á landbúnaðarvörum frá Evrópusambandinu og fékk lögfest bann á innfluttu hráu ófrosnu kjöti. Í því fólust ekki hvað síst hagsmunir neytenda.

Fram fyrir íslenskan landbúnað 

Í nýjum tollasamningi nú sem á eftir að fara fyrir þingið er verið að láta um of undan þrýstingi ESB- aðildarsinna.

Ég skora á Búnaðarþingsfulltrúa að krefjat þess að ráðherra afturkalli þennan tollsamning við ESB og að búvörusamningurinn verði ekki tekinn til afgreiðslu fyrr en það hefur verið gert.  Baráttukveðjur fyrir íslenskan landbúnað

 


Bloggfærslur 1. mars 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband