Alþýðuhetja kvödd

Við setningu Heimastjórnarhátíðar alþýðunnar á Ísafirði 21. ágúst 2004 komst Jón Fanndal Þórðarson svo að orði:

 „Við erum hér til að minnast merks áfanga í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar sem skilaði okkur áleiðis til lýðveldis. Næsta stóráfanga verður minnst 1. desember 2018. Ég ætla rétt að vona að alþýða þessa lands fái að vera viðstödd þau hátíðahöld.“

Tilefnið var að leiðtogar ríkisstjórnar á þeim tíma héldu fyrr á árinu afmælishátíð 100 ára heimastjórnar og afhjúpun minnisvarða um fyrsta Íslandsráðherrann, Hannes Hafstein, á Ísafirði. Almenningi var hins vegar meinuð þátttaka en mátti horfa á skrúðgöngu lafaklæddra ganga á rauðum dreglum í minningu atburðarins.

Vestur á Ísafirði var íslenskur alþýðumaður sem taldi sig líka eiga hlut í sigurhátíðinni. Blásið var til Heimastjórnarhátíðar alþýðunnar 21. ágúst. Hátt í þrjú þúsund manns kom saman á Silfurtorginu þessa kvöldstund. Kyndlarnir, stemningin, gleðin og baráttuviljinn lýsti upp torgið. Í ávarpi sínu gerði Jón Fanndal orð Sigurðar Eggerz frá 1. desember 1918 að sínum:

„Það eru ekki aðeins stjórnmálamennirnir er miklu ráða um mál þjóðarinnar, sem skapa hina nýju sögu. Nei það eru allir. Bóndinn sem stendur við orfið og ræktar jörð sína, hann á hlutdeild í þeirri sögu. Daglaunamaðurinn sem veltir steininum úr götunni, hann á hlutdeild í þeirri sögu. Sjómaðurinn sem situr við árkeipinn, hann á þar hlutdeild.“

Og sem formaður félags eldri borgara varði hann málstað skjólstæðinga sinna: „Það er mikil niðurlæging fyrir gamla fólkið á öldrunardeild sjúkrahússins að þurfa að fara með fötin sín í poka til ættingja sinna í þvott,“ en þá átti að krefja vistmennina um 5.500 kr. í sérstakt þvottagjald þegar vasapeningar þeirra voru 11.000 krónur á mánuði. Jón hafði sitt fram.

Þegar ég kynntist Jóni Fanndal rak hann kaffihornið á flugvellinum á Ísafirði. Glaðbeittur, hlýr og reiðubúinn til að spjalla. Hann var einlægur náttúruverndarmaður og fullveldissinni. Jón gekk til liðs við

Vinstrihreyfinguna – grænt framboð og skipaði heiðurssæti listans í

Norðvesturkjördæminu vorið 2007. Jón var öflugur liðsmaður, þrautreyndur baráttujaxl með skýrar hugsjónir og kjarnyrtur.

Hann varð fyrir sárum vonbrigðum þegar flokkurinn sem hann studdi á forsendum hugsjóna brást og sótti um aðild að Evrópusambandinu. Í Morgunblaðsgrein 6. apríl 2011 ítrekar hann hvatningu sína:

„Göngum aldrei í Evrópusambandið og í guðanna bænum verndið auðlindirnar börnum og barnabörnum okkar til handa. Látum þau ekki fæðast inn í orkulaust land!“

Nú þegar við kveðjum þennan eldheita hugsjónamann er mér þakkæti og virðing efst í huga. Kvikur, með leiftur í augum er Jón Fanndal einn þeirra sem með orðum sínum og gjörðum skrifa söguna eins og hann sjálfur komst að orði á Heimastjórnarhátíðinni á Ísafirði.

Ég þakka Jóni fyrir áralanga vináttu, góða leiðsögn og hvatningu. Blessuð sé minning alþýðuhetjunnar Jóns Fanndals Þórðarsonar.

Guð gefi landi voru marga slíka.

Jón Fanndal Þórðarson (mbl. 21.09. 2015):

(Útför Jóns Fanndals Þórðarsonar fór fram í dag frá Grafarvogskirkju að viðstöddu fjólmenni.

(Jón Fanndal Þórðarson fæddist þann 10. febrúar 1933 á Laugalandi við Ísafjarðardjúp. Hann lést á Landspítalanum í Reykjavík þann 7. september.

Foreldrar hans voru hjónin Helga María Jónsdóttir húsfreyja, f. 2. febrúar 1898, d. 8. apríl 1999 og Þórður Halldórsson, f. 22. nóvember 1891, d. 26. maí 1987, bóndi á Laugalandi..... Árið 1951 kynnist Jón eftirlifandi eiginkonu sinni, Margréti Magnúsdóttur frá Ísafirði, f. 17. september 1933. Jón og Margrét eignuðust fimm börn........ 

Jón ólst upp á Laugalandi við almenn sveitastörf en ungur að árum hleypti hann heimdraganum og eftir skólagöngu í Reykjanesskóla, settist hann á skólabekk við Garðyrkjuskóla ríkisins á Reykjum þaðan sem hann lauk prófi í skrúðgarðyrkju. Eftir það lá leið hans til Bandaríkjanna þar sem hann starfaði við garðyrkju í eitt ár. Þegar heim kom starfaði hann hjá Veðurstofu Íslands á Keflavíkurflugvelli. Síðan fluttust þau Jón og Margrét vestur að Djúpi þar sem þau ráku garðyrkjubýlið Laugarás til ársins 1984. Þá fluttu þau til Reykjavíkur þar sem Jón hóf störf hjá Skrúðgörðum Reykjavíkur. Þar starfaði hann í áratug en stofnaði þá eigið garðyrkjufyrirtæki, JF Garðyrkjuþjónustu, sem hann rak þar til þau fluttu vestur á Ísafjörð 1994. Þar stunduðu þau verslunarrekstur um árabil. Jón endaði sinn starfsferil sem vert á Flugbarnum á Ísafjarðarflugvelli og var eftir því tekið þegar Jón gaf 10 krónur fyrir hvert vatnsglas og safnaði þannig fyrir vatnsbrunni í Afríku. Jón sinnti ýmsum félagsstörfum í gegnum tíðina, hann var oddviti Nauteyrarhrepps í 16 ár og kom að mörgum framfaramálum. Hann stofnaði Félag bjartsýnismanna á Vestfjörðum undir kjörorðinu „Hér er ég, hér vil ég vera“ og að hans frumkvæði var haldin Heimastjórnarhátíð Alþýðunnar á Ísafirði.)

Bloggfærslur 21. september 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband