Sýnum sjálfstæði í utanríkismálum

Aukin samskipti  og friðsamlegt samstarf  færir þjóðir nær hverri annarri.
Þannig skapast farvegur og tækifæri til að koma sjónarmiðum á framfæri og hafa áhrif á þróun mála eins og í mannréttindum.

Íslendingar hafa jafnan verið andvígir viðskipaþvingunum og -bönnum á aðrar þjóðir í pólitískum tilgangi. Viðskiptafrelsi var hluti af sjálfstæðisbaráttu Íslendinga óháð því hver átti í hlut.

 Almennar viðskiptaþvinganir til að beygja stjórnvöld einstakra ríkja ná sjaldnast yfirlýstum tilgangi sínum og bitna helst á almenningi viðkomandi landa.

Áratuga viðskiptabann Bandaríkjanna á Kúbu er dæmi um slíkt.

Gagnkvæm samskipti við Rússland og aðrar Austur -Evrópuþjóðir hafa verið Íslendingum afar mikilvæg áratugum saman. Við minnumst þorskastríðanna  og viðskiptabanns Breta og annarra núverandi ESB-þjóða á Íslendinga á þeim árum. Engu að síður eru þær áfram okkar helstu samstarfsþjóðir. Lögin sem Evrópusambandið setti til þess að geta beitt Íslendinga viðskiptaþvingunum vegna makrílveiða standa enn.

Landhelgisbarátta Íslendinga var fullveldismál

Að ná fullu forræði yfir fiskimiðunum kringum landið var hluti af sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Hún kostaði vopnuð átök á hafinu og viðskiptastríð af hálfu öflugra stórvelda sem nú eru í forystu Evrópusambandsins. Þá áttum við hauk í horni í stuðningi fyrrum Sovétríkjanna.

 Í bankahruninu 2008 áttum við hauk í horni i Rússum þegar öflug ríki  beittu okkur hryðjuverkalögum og einangrunartilburðum í samskiptum. Viðskiptabann og takmörkun á samskiptum er sjaldnast leið til að stuðla að friði, miklu fremur hið gagnstæða.

Höldum góðu viðskiptasambandi við önnur lönd 

 Almennar viðskiptaþvinganir eru  stórpólitísk aðgerð.  Utanríkisráðherra Íslands verður  að hafa  skýrt umboð fyrirfram, taki hann þátt í slíku  og  jafnframt gera sér grein fyrir ábyrgð og mögulegum afleiðingum  þess. Tilgangurinn þarf að vera skýr og forsendurnar fyrir því að þessi þjóð en ekki önnur sé beitt aðgerðum af þeim toga. Utanríkisstefna Íslands verður að vera sjálfum sér samkvæm.

Stuðningur við refsiaðgerðir Evrópusambandsins gegn Rússum eru mistök og  virðast byggja á sögulegri vanþekkingu og leiðiteymni við ESB.

Sjálfsagt er að fordæma Rússa fyrir yfirgang þeirra en við þurfum jafnframt að huga að því hvernig framganga Íslands kemur málstaðnum best að liði.

Hinu gamla kalda stríði stórveldanna er lokið og Íslendingar eiga ekki að taka þátt í að endurvekja baráttuaðferðir þess.

Í krafti eigin sjálfstæðis og mannúðarstarfs hefur Ísland  mest áhrif á alþjóðavettvangi en ekki dingla með í bandalagi herveldanna.

Mannréttindi og sjálfsákvörðunaréttur þjóða

Við eigum að bera virðingu fyrir og styðja  mannréttindi og sjálfstæðisbaráttu þjóða og þjóðarbrota hvar sem er í heiminum, hvort sem það er í Tíbet, á Balkanskaga, í Úkraínu eða löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs.  Þar eigum við að láta rödd okkar heyrast.

 Stærsta vandamál heimsins  núna er hið hryllilega stríðsástand fyrir botni Miðjarðarhafs og flótti íbúanna frá þeim hörmungum sem  dynja á almenningi. Þar bera Evrópulöndin mikla ábyrgð sem þau verða að axla. 

 Verum friðflytjendur á alþjóðavettvangi

 Með auknum friðsamlegum samskiptum, festu og virðingu fyrir öðrum þjóðum stuðlum við sem sjálfstæð þjóð best að friði  og bættum mannréttindum í heiminum.

Við Íslendingar eigum að vera friðflytjendur á alþjóðavettvangi og bjóðast í krafti eigin sjálfstæðis og hlutleysis til að miðla málum og koma á samtali milli stríðandi þjóða og þjóðfélagshópa. 

 ( Birtist sem grein í Morgunblaðinu 8.ágúst sl.)

 


Bloggfærslur 10. ágúst 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband