Að horfast í augu við veruleikann

 Síðasta skoðanakönnun um fylgi flokkanna undirstrikar áfram trúnaðarbrestinn sem varð milli ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og þjóðarinnar;  milli forystumanna Samfylkingar og Vinstri grænna við kjósendur sína.

Ekki veit ég til þess að Samfylkingin hafi  enn gert upp innbyrðis hlut sinn í bankahruninu og Hrunstjórninni með Sjálfstæðisflokknum. 

Jóhanna Sigurðardóttir sat jú í sérstöku fjármálaráði ríkisstjórnar Geirs Haarde.

Evrópusambandsumsóknin sem öllu átti að bjarga hangir enn eins og myllusteinn um háls Vinstri grænna og Samfylkingarinnar. Enn reyna þeir báðir að verja inngöngubeiðnina í ESB  þótt nánast allir sjái hversu vonlaust það er.                         

(Vinstri flokkarnir í meiriháttar krísu og Björt framtíð virðist varla skilja erindi sitt í pólitík ( Egill Helgason)

Forysta Vinstri Grænna verður að gera upp við sjálfa sig og kjósendur sína svikin við loforðin og stefnu flokksins þegar hún  samþykkti inngöngubeiðnina í Evrópusambandið.

Hjá forystu VG dugar enginn  kattarþvottur, nema þá helst  "villikattaþvottur"!

Gamall krataleiðtogi, Jón Baldvin Hannibalsson sér að vinstri flokkar muni seint geta sameinast innbyrðis eða sótt fram  meðan ESB umsóknin hangir inni. Hún kljúfi þá jafnvel enn dýpra en  hersetan gerði á sínum tíma. ( Guðföður ESB-umsóknar Íslands lýst ekki lengur á ESB)

Hin vonlausa ESB umsókn er ekki þessi virði, segir Jón Baldvin. Enda var Jón Baldvin aldrei neinn sérlegur aðdáandi Jóhönnu Sigurðardóttur. Og hversvegna skyldi Árni Páll ganga sig upp að hnjám og fórna flokknum fyrir þetta eina mál Jóhönnu, inngöngu í ESB?

 Samfylkingin situr uppi sem eins máls flokkur meðan hún berst fyrir inngöngu í Evrópusambandið.

Vinstri Græn verða hjáróma í hvaða máli sem er meðan þau tala  ekki hreint út í grundvallar stefnumáli sínu : að verja fullveldi þjóðarinnar og standa utan ESB. Ef maður er á móti inngöngu í ESB þá er ekki sótt um. Svo einfalt er það.

Flokksráðsfundir VG geta samþykkt úrsögn úr Nató, gott mál, en samtímis samþykkt að halda áfram göngunni inn í  Evrópusambandið í stað þess að afturkalla umsóknina.

Það er ekki mikill trúverðugleiki þar á ferð, þetta er ekki einu sinni fyndið, heldur sorglegt fyrir okkur vinstrimenn.

Meðan Ísland er umsóknarríki að ESB er það hin opinbera stefna stjórnvalda að komast þar inn.

Ríkisstjórnarflokkarnir báðir lofuðu því fyrir kosningar að hætta við umsóknina, sem þýðir beint að hún verði afturkölluð.

Þegar allt kemur saman ætti það að vera beinn hagur allra flokka á alþingi að umsóknin um inngöngu í Evrópusambandið verði afturkölluð hið snarasta.

 


Bloggfærslur 3. mars 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband