Jón Jakob Friðbjörnsson smíðakennari - Minning

Þegar við Ingbjörg tókum við skólastjórn og staðarhaldi á Hólum í Hjaltadal vorið 1981 voru nokkrir máttarstólpar á staðnum er höfðu haldið tryggð við skólann um langa hríð og báru með sér gamlan klassískan skólaanda. Einn af þeim var Jón "smiður".

Jón var fæddur 13. des 1925 og lést 27. des sl. Útför hans var gerð frá Akureyrarkirkju í dag. Jón Jakob Friðbjörnsson

 Jón Jakob Friðbjörnsson hafði ráðist til Hólaskóla 1953 og starfaði við hann allt til ársins 1987 er hann fluttist til Akureyrar. Jón var handavinnukennari og umsjónarmaður skólahúsa á Hólum allt þar til hann lét af störfum og fluttist til Akureyrar.

Smíðar og smíðakennsla voru ein af mikilvægustu kennslugreinum bændaskólanna alla síðustu öld og marga góða smíðisgripi tóku nemendur með sér heim að námi loknu við skólann. Hróður skólanna var oft tengdur því hversu smíðakennslan var góð. Þar naut Hólaskóli Jóns smiðs ríkulega.

Jón var sjálfur listasmiður og bjó sjálfur til mörg smíða- og kennslutæki á smíðastofunni. Ég held að Jón hafi einnig sjálfur smíðað flest húsgögn á heimili hans og Erlu. Hann var afskaplega natinn og metnaðargjarn í smíðakennslunni. Nemendur fóru ekki aðeins heim með veglega og vandaða smíðisgripi heldur einnig góða færni í því að handleika og beita hinum ýmsu smíðatólum ásamt sjálfstrausti til að takast á við fjölbreytt smíðaverkefni þegar heim var komið. Smíðastofan hjá Jóni var einn vinsælasti staður skólans. Hún var ekki aðeins nýtt í hefðbundnum kennslustundum, heldur einnig á kvöldin og um helgar. Gjarnan var Jón til taks og leiðbeindi nemendum sínum.

Jón Friðbjörnsson var listabókbindari og batt inn allar bækur og tímarit fyrir skólann. Hann batt inn bækur fyrir fjölmarga vini sína og bauð einnig upp á kennslu í bókbandi bæði fyrir nemendur, starfsfólk og fólk í sveitinni. Jón hafði léttan húmor og var oft glatt á hjalla í bókbandstímum.

Jón Friðbjörnsson var einstaklega ljúfur og traustur maður og naut óskoraðrar virðingar nemenda og alls samferðafólks. Það vissu allir, að þau verkefni eða ábyrgð sem Jón tók að sér voru í góðum höndum.

Þau hjónin, Jón og Erla, voru bæði vakin og sofin við umsjón sína með dómkirkjunni á staðnum. Jón lét sér mjög annt um allt kirkjustarf. Hann var formaður sóknarnefndar, safnaðarfulltrúi, söng í kirkjukórnum og var umsjónarmaður Hóladómkirkju en Erla var kirkjuvörður og var með leiðsögn um hana.

Ég kalla það mikils virði að Jón starfaði með okkur á fyrstu árum skólastarfsins á Hólum. Hann var ekki aðeins traustur og góður starfsmaður, heldur bar með sér hinn sígilda bændaskólaanda sem fól í sér forsjálni en einnig staðfestu í lífsins ólgusjó.

Við Ingibjörg þökkum Jóni Friðbjörnssyni samferðina, traust og góð kynni og farsælt samstarf. Erlu og fjölskyldunni allri sendum við einlægar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Jóns Jakobs Friðbjörnssonar, smíðakennara á Hólum í Hjaltadal.

Ingibjörg Kolka

og Jón Bjarnason.

 

 


Bloggfærslur 9. janúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband