Árni Páll og Evrópusambandið

Í áramótaávarpi sínu minntist Árni Páll Árnason hvergi á umsókn og aðild að Evrópusambandinu, sem hefur þó verið eina mál Samfylkingarinnar í meira en áratug eða allt frá stofnun flokksins.

 Vitnaði hann þess í stað  til 17. júníræðu Haraldar Guðmundssonar frá 1944, gamallar Alþýðuflokkshetju.

Umsókn um aðild að Evrópusambandinu var þó úrslitaskilyrði Samfylkingarinnar í ríkisstjórnarsamstarfi hennar og Sjálfstæðisflokksins og á því sprakk "hrunstjórn" þessara flokka í janúarlok 2009.

Umsókn og aðild að Evrópusambandinu var nánast eina skilyrðið sem Samfylkingin setti fram í ríkisstjórnarmyndun með Vinstri grænum vorið 2009.

Illu heilli laut forysta VG í gras fyrir þessum kröfum Samfylkingar og lamaði þar með allt ríkisstjórnarstarfið og flokkinn til langs tíma.

Fellur Árni Páll í gröf Jóhönnu ?

Það er lífsspursmál fyrir Árni Pál að losna við einsmálsstimpilinn af Samfylkingunni. Ef flokkurinn vill láta taka sig alvarlega í öðrum málum eins og velferðarmálum og verða stjórntækur verður hann að segja skilið við inngöngubeiðnina í ESB.

Innganga Íslands í ESB átti öllu að bjarga í Jóhönnustjórninni. Afturköllun Evrópusambandsumsóknarinnar er því kannski eitt brýnasta mál Samfylkingarinnar þannig að hún losni úr ESB-fjötrunum.

 Árni Páll verður líka að skilja sig frá formannstöktum Jóhönnu Sigurðardóttur, sem valdi alltaf ófrið væri hann í boði. Mátti Árni Páll sjálfur súpa seyðið af þeim stjórnarháttum formannanna í Jóhönnustjórninni er honum var gert að taka pokann sinn sem ráðherra.

Þótt Árni Páll verði í orði að halda fram mikilvægi Evrópusambandsaðildar fyrir Samfylkinguna er nú greinilega slegið á aðrar nótur í áramótaávarpi hans.

Þar dregur hann fram Lýðveldisstofnunina 1944 og mikilvægi sjálfstæðis Íslands og „við getum þannig verið þjóð meðal þjóða“ en ekki hluti af stórríki Evrópusambandsins.

Vantaði bara að hann minntist á sigurinn í landshelgisdeilunni og fullt forræði Íslendinga yfir fiskimiðunum. En aðildarviðræðurnar steyttu einmitt á kröfu ESB um yfirráð á fiskimiðum Íslendinga.

Hjartfólgna heimili þjóðarinnar

Hér kemur athyglisverður kafli úr ávarpi Árna Páls formanns Samfylkingarinnar,

Hjartfólgið heimili:

„Lýðveldisbygging fyrir alla

Á árinu voru 70 ár frá stofnun lýðveldisins. Það hefur alltaf þótt undrum sæta að jafn fámenn þjóð skyldi ná að stofna sjálfstætt og fullvalda ríki.

Kannski má segja að sjálfstæði Íslands hafi þá, rétt eins og nú, verið sigur draumsins yfir veruleikanum.

Forsenda þess hlýtur að vera sú að við náum samstilltu átaki – samtaki – og getum þannig verið þjóð meðal þjóða. Haraldur Guðmundsson, forystumaður Alþýðuflokksins, rakti sýn jafnaðarmanna á lýðveldisstofnuna í ræðu 18. júní 1944 og lagði þá út af hinni sígildu hugmynd jafnaðarmanna um þjóðarheimilið. Hann sagði:

„Nú er það okkar að sýna, að við kunnum að halda svo á málum okkar, að þjóðin verði raunverulega frjáls, að við látum okkur ekki nægja að reisa lýðveldisbygginguna, heldur viljum og getum komið öllu svo vel fyrir innan stokks, að hún verði öllum Íslendingum hjartfólgið heimili“.

 

Framtíð Árna Páls Árnasonar

Kannski tekst Árna Páli að losa Samfylkinguna við einsmálsstimpilinn, ESB-fjötrana með því að sýna því vinsemd að umsókn Íslands að Evrópusambandinu verði afturkölluð refjalaust. 

Þar í liggur framtíð Árna Páls sem leiðtoga Samfylkingarinnar.


Bloggfærslur 19. janúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband