Að standa við orð sín og afturkalla umsóknina að ESB

Nýafstaðnar kosningar til Evrópuþingsins sýna svo rækilega hve Ísland á gott að vera utan þess sambands. Íslendingar bíða hinsvegar enn eftir því að ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks efni loforð sín um refjalausa afturköllun umsóknarinnar að Evrópusambandinu

Þrátt fyrir mikla tryggð kjósenda við gömlu flokkana sína í ESB –löndunum unnu efasemdarflokkar og andstæðingar Evrópusamrunans stórsigur.

Evrópusambandið í upplausn

Mér blöskrar hinsvegar tal og orðskýringar margra ESB sinnaðra fréttamanna hér á landi sem leyfa sér að kalla fjórðung frönsku þjóðarinnar öfgasinna, jafnvel fasista hvort sem þeir eru til hægri eða vinstri bara af því að þeir styðja flokka sem hafa sterkar efasemdir um ágæti Evrópusambandsins fyrir Frakka. Sjálfur forsetinn, Hollande sem tapaði stórt viðurkennir að „stjórnsýsla ESB sé orðin fjarlæg og illskiljanleg“.

En íslenskir stjórnmálaskýrendur leyfa sér samt kalla nærri þriðjung Breta útlendingahatara af því að þeir styðja flokk sem vinnur stórsigur í kosningum út á stefnu sína að vilja endurskoða aðild Breta að Evrópusambandinu. Og breski forsætisráðherrann hefur í hótun við Merkel að segja sig úr Sambandinu , ef tiltekinn maður verður forseti eða framkvæmdastjóri Evrópusambandsins. Sér nú hver á hvaða stigi málefnaumræðan og brauðfætur Evrópusambandsins eru !

Eru fullveldissinnar öfgamenn?

Við sem höfum í blóðinu hugsjónir og sýn sjálfstæðisbaráttunnar, Lýðveldisstofnunina eða munum landhelgisbaráttuna, höldum sjálfsvirðingu á erlendum vetvangi  er ætlað að sitja undir því að vera kallaðir óvinir jafnaðar og mannréttinda og erindrekar einstaka sérhagsmuna eins og sjávarútvegs og landbúnaðar og fullveldis .

Ég get rakið dæmi um þennan málflutning í útvarpi, sjónvarpi, blöðum og fréttaskýringaþáttum. Hvað með hugtök sem við mörg hver berum virðingu fyrir eins og föðurlandsvini og ættjarðarást, eru þau orðin skammayrði? Sigur ESB andstæðinga í Evrópu virðist kalla fram heitar og jafnvel „öfgafullar“ kenndir ESB sinna í umræðunni hér á landi

ESB- kosningarnar-  Pólitískur jarðskjálfti fyrir Evrópusamandið

Úrslit kosninganna til Evrópuþingsins eru kölluð pólitískur jarðskjálfti fyrir Evrópusambandið.  Íslendingar þekkja hinsvegar vel ógnir jarðskjálftanna og vita að þeir eru ekki eftirsóknarverðir, og fjarri því að vera neitt gamanmál. Jarðskjálftarnir innan Evrópusambandsins eru hinsvegar af mannavöldum og þar hefjast nú hjaðningavíg og leitin að sökudólgunum. Staðreyndin er sú að þrátt fyrir litla kosningaþátttöku unnu frelsissinnar stórsigur í flestum löndum Evrópusambandsins.

Úrslit kosninganna í Evrópu munu fyrst og fremst hafa áhrif innan einstakra aðildarlanda og þar fara hjólin að snúast.

Pólitískt áhrifaleysi einstakra aðildarlanda ESB

Margar þjóðir heldu að lausn á einstökum tímabundnum vandamálum hjá þeim sjálfum fælist í aðild að Evrópusambandinu. Nú vaknar fólk upp við þann vonda draum að það er hið miðstýrða apparat Evrópusambandsins sjálfs sem er vandinn. Fyrst var það efnahagskreppan í Evrópu þar sem byrðunum, skuldunum, var varpað á almenning í jaðarlöndunum. Það hefur Grikkland fengið sárt að reyna enda unnu Syrisia, andstæðingar miðstýringar ESB þar stórsigur.

Það er hið vaxandi pólitíska áhrifaleysi og vanmáttur einstakra þjóða gagnvart miðstýringu og valdþjöppun ESB sem kallar á hörð viðbrögð almennings - jarðskjálftann.

Meira að segja Frakkar, annað öxulveldi Evrópusambandsins gerir uppreisn gagnvart vegferð ESB, hvað þá með minni ríki sem fjarlægari eru höfuðstöðvunum. Cameron hótar úrsögn Ekki er nú límið mikið.

 Sumarþing og afturköllum umsóknina að ESB

Kosningarnar til Evrópuþingsins undirstrika að við höfum ekkert inn í þennan lokaða klúbb að gera. Við Íslendingar viljum vera sjálfstæð þjóð meðal annarra þjóða og ráða málum okkar sjálf innanlands sem og samningum við aðrar þjóðir á eigin forsendum.

Ísland er því miður áfram umsóknaríki að ESB.

Stjórnarflokkarnir lofuðu afturköllun umsóknarinnar. Það er aldrei heilldrjúgt fyrir stjórnmálaflokka að svíkja kjósendur sína í grundvallarmálum.

 Ég hvet til þess að kallað verði til sumarþings þar sem umsóknin að Evrópusambandinum verði refjalaust afturkölluð eins og stjórnarflokkarnir hafa lofað og þingmenn þeirra voru kosnir til.

 ( Birtist sem grein í Mbl. 2. júní 2014)


Bloggfærslur 3. júní 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband