Gleðileg jól

Gleðileg jól. Gleðileg jól hljómar um götur og torg til sjávar og sveita hvar sem fólk hittist.

Hátíð ljósanna er gengin í garð. Við lútum í gleði litlu, nýfæddu barni og sem lagt var í jötu en það var eigi pláss fyrir móðurina með barnið í gistihúsinu. Börnin eru ljósberar mannkynsins, gjöf til framtíðarinnar hvar sem þau fæðast.

Skær og einlæg barnsaugu sem horfa í lifandi jólaljósin eru glitrandi gimsteinar.

En því miður fá ekki öll börn sitt pláss í gisthúsinu.

Á það minnir fæðing frelsarans okkur á.

Kristni og þjóðkirkja

Nokkur umræða hefur verið um stöðu kristni og kirkjustarfs á Íslandi. Hollt er að hafa stöðugt í huga hvar ræturnar liggja og stoðirnar standa hjá íslensku samfélagi.

Um árið 1000 lá við borgarstyrjöld á Íslandi vegna deilna um trú-, kirkju- og þjóðfélagsskipan.  Lá við að þingheimur berðist á Þingvöllum.

En sem betur fór voru þá einnig til staðar menn sem voru vandanum vaxnir.

Landsmenn höfðu skipað sér í  tvær fylkingar sem skipuðu hvor um sig sáttamenn.

Kristnir menn tilnefndu  Síðu-Hall ( Hall Þorsteinsson á Þvottá) en heiðnir menn kölluðu til  Þorgeir Ljósvetningagoða Þorkelsson. Hallur samdi síðan við Þorgeir um að hann Þorgeir skyldi einn segja upp lög sem allir gætu fellt sig við:

„ En nú þykir mér það ráð , að vér látum og eigi þá ráða, er mest vilja í gegn gangast og miðlum svo mál á milli þeirra, að hvorirtveggja  hafi nokkuð til síns máls og höfum allir ein lög og einn sið.

Það mun vera satt, er við slítum í sundur lögin að vér munum slíta og  friðinn“.

Kvað Þorgeir það lög að menn skyldu taka kristni.

Í stjórnarskrá  Lýðveldisins Íslands er kveðið skýrt á um þjóðkirkjuna og skyldur hins opinbera gagnvart henni:

  Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.

 Ég óska landsmönnum öllum gleðilegra jóla

 


Bloggfærslur 25. desember 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband