Stórfelld einkavæðing almannaþjónustu

Fjármálaráðherra boðar stórfellda einkavæðingu almannaþjónustu.

Niðurskurður á opinberum störfum og þjónustu mun fyrst bitna á þeim sem fjarstir standa ráðuneytunum sjálfum og verkkaupum þeirra.

Aukinn kostnaður grunnþjónustunnar  mun færður yfir á almenning. Liggur í orðanna hljóðan 

Skyldu verða skorin niður laun þeirra og sporslur sem gegna nefndarstörfum, stjórnum  eða aðkeypta lögfræðiþjónustu og ráðgjöf  ráðuneyta sem ég man sem ráðherra höfðu mikla tilhneigingu til þess að hlaða utan á sig?.

Maður veltir því fyrir sér hvort ekki standi nær að hækka meir skatta á ofurgróða og arðgreiðslur einstakra fyrirtækja og einstaklinga með hæstu tekjur frekar en ráðast á almannaþjónustuna, öðru nafni " Hægræðingar tal" og uppsagnir almenns starfsfólks.

Spurning hvort öll þessi miklu útgjöld til hervæðingar landsins og háværa vopnaskaks séu í samræmi við forgangsröðun,  stjórnarskrá og vilja friðelskandi þjóðar.

Botnlausir sjóðir ESB kveina af hungri.

Sjálfssagt er að spara og sýna aðhald. 

Ekki var nefnt í máli ráðherra hvort ætti að afsala fleiri  feitum ríkiseignum á altari stóreignamanna og vildarvina.

Það var athyglisvert og vægast sagt mjög sérstakt ef ríkisfjármálin og stefna í ríkisfjármálum hafi ekki á hrif á verðbólgu og vaxtastig í landinu og þar með kjör almennings og atvínnulífs: 

 "Það er ekki hlut­verk rík­is­fjár­mál­anna að vinna bug á verðbólg­unni. Það er hlut­verk Seðlabank­ans. Og rík­is­fjár­mál­in eru ekki að þvæl­ast fyr­ir Seðlabank­an­um í því hlut­verki.“

 Öðru vísi mér áður brá hér á árum áður þegar ég sat á Alþingi eða í ríkisstjórn.

Þá vissum við að þingið og ríkisstjórnin bar ábyrgð á ríkisfjármálum þar með  sínum hlut í verðbólgu og vaxtastigi og kjörum almennings í landinu. Hvort sem okkur líkaði betur eða ver. 

Annað væri hrein veruleikafirring  

 


mbl.is „Dálítið langsótt“ af Ásgeiri að vísa ábyrgð annað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríki - og sveitarfélög kynda verðbólguna

Stórfelldar hækkanir á þjónustu sveitarfélaga og ríkis kynda nú elda verðbólgunar
Þrátt fyrir nýgerða kjarasamninga og loforð um að við öll eigum að vinna saman er hækkun þjónustu hleypt beint út í verðlagið og gott betur.
Leikskólagjöld- fasteignagjöld- orkugjöld - strætógjöld- skólamáltiðir- eftirlitsgjöld .
Allt eins og engin sé morgundagurinn
Þrátt fyrir styrkingu krónunnar lækkar verð lítið á móti. Innflytjendur virðast hirða gengismuninn
Nýr framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins ,                 ( stóratvinnurekenda ) á verk fyrir höndum að hirta umbjóðendur sína fyrir ábyrgðarleysi og oftöku arðs úr rekstri sem almenningur borgar
Það er úr vöndu að ráða þegar hækkun þjónustugjalda ríkis-og sveitarfélaga leiða verðbólguna. ( Rúv greinir frá:)

"Flest hækka gjaldskrár í takt við verðlag – nema Seltjarnarnesbær meira

Átta stærstu sveitarfélög landsins hækka gjaldskrá grunnskólaþjónustu, í einstaka tilfellum um tugi prósenta. Framkvæmdastjóri Heimilis og skóla óttast að foreldrar segi upp mataráskrift eða taki börn sín af frístundaheimilum.

Valgerður Gréta Guðmundsdóttir Gröndal

24. ágúst 2023 kl. 09:36, uppfært kl. 11:01Börn að leik að sumri til á skólalóð Lauganesskóla

Það er umtalsverður munur á gjaldskrám sveitarfélaga fyrir síðdegishressingu, dagvistun og mat í skólum.

RÚV – Ragnar Visage

Þrátt fyrir að hafa verið hvött til þess að stilla gjaldskrárhækkunum í hóf hafa öll stærstu sveitarfélög landsins hækkað gjaldskrár sínar á milli ára. 152% munur er á lægsta og hæsta gjaldi sveitarfélaga fyrir síðdegishressingu. Verðbólga mældist 7,6% í júlí.

Í upphafi skólaárs kannaði fréttastofa gjaldskrár sveitarfélaganna og bar saman við upplýsingar úr könnun verðlagseftirlits ASÍ frá því í fyrra. Könnuð voru gjöld fyrir skóladagvistun, síðdegishressingu og skólamat.

Gjöld fyrir frístundaheimili og skólamáltíðir hafa hækkað umtalsvert á milli ára. Á Seltjarnarnesi hækkar skólamaturinn um 45% og í Reykjanesbæ um 18%. Gjaldskrárhækkunin fyrir skólamat og dvöl í frístundaheimili er þó í flestum tilfellum um átta til tíu prósent. Misjafnt er hversu mikið síðdegishressing hækkar í verði, allt frá tæpum þremur prósentum í Reykjavík upp í 68% í Hafnarfirði. Mest nam hækkunin 9,8% á gjöldum fyrir frístundaheimili.

Munur á milli einstakra sveitarfélaga er einnig umtalsverður. Á hæsta og lægsta verði skólamáltíða munaði 71% þar sem munurinn er mestur. 152% munur var á verði síðdegishressingar. 108% munur var á hæsta og lægsta gjaldi fyrir frístund.

Líkt og í fyrra greiða foreldrar í Seltjarnarnesbæ mest fyrir grunnskólaþjónustu en lægsta verðið fyrir skólamáltíðir er í Mosfellsbæ. Lægsta verð fyrir frístund er í Hafnarfirði.

Lýðheilsumál frekar en þjónusta

Arnar Ævarsson, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla, segir þessar niðurstöður fyrst og fremst vera vonbrigði og lýsir yfir áhyggjum af þessari þróun. Þessar verðhækkanir koma til með að hafa mest áhrif á þau sem minna mega sín, öryrkja, útlendinga og þau sem hafa minnst bakland. Afleiðingarnar geti verið mjög alvarlegar. Hægt sé að reikna með því að foreldrar sjái sér ekki annað fært en að segja upp mataráskriftum eða draga börn sín úr frístund.

Arnar tekur einnig fram að streita, kvíði og sektarkennd yfir því að geta ekki veitt börnum sínum það sama og önnur börn fá hellist yfir foreldra, áhyggjur sem enda svo í fangi barnanna.

Sveitarfélögum er tamt að tala um þetta sem þjónustu, segir Arnar. Hann telur brýnt að breyta orðræðunni og tala frekar um lýðheilsu. Það sé mikilvægt lýðheilsumál að börn fái næringarríkan mat í skólum. Gæði skólamáltíða eru misjöfn, sum hætta í mataráskrift vegna versnandi gæða og önnur mættu vera með betra nesti með sér, segir Arnar. Það er hagur samfélagsins alls að börnin fái góða næringu í skólanum.

„Til lengri tíma litið er hætt við því að léleg næring muni síðar bitna á heilsu einstaklinganna. Þá er þetta kostnaður sem kemur niður annars staðar í kerfinu“, segir Arnar sem bætir því að Íslendingar ættu að horfa til Finna sem hafa verið leiðandi í lýðheilsumálum. Allt frá árinu 1948 hafa Finnar boðið skólabörnum upp á skólamáltíðir án endurgjalds. Næringarríkar og vel samsettar máltíðir stuðla að heilbrigðum vexti og þroska nemendanna auk þess að vera félagslegt jöfnunartæki, segir hann. "

Flest hækka gjaldskrár í takt við verðlag – nema Seltjarnarnesbær meira - RÚV.is

Sameina Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík ?

"Fyrst og síðast á að sameina Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. 

Þeir eru í göngufæri beggja vegna sömu mýrarinnar".

Sagði Laugvetningurinn Guðmundur Birkir Þorkelsson f.v.kennari og skólameistari Framhaldsskólans á Húsavík um  yfirlýsingu ráðherra að sameina Hólaskóla á Hólum í Hjaltadal og Háskóla Íslands við Suðurgötuna í Reykjavík

Ráðherra háskólamála gaf út yfirlýsingu nú um síðustu helgina að hún stefndi að því sameina Háskólann á Hólum og Háskóla  Íslands og kallaði hún til rektora skólanna til þess að skrifa undir viljayfirlýsingu þess efnis.

Voru þau áform m.a.rökstudd "til þes að ná fram "hagræðingu" í háskólastarfi landsins".

Með þessari yfirlýsingu ráðherra stillir hann skólastjórnendum á Hólum upp við vegg með hótun um sameiningu eða leggja undir  fjarlæga stofnun.

En um leið er skotið sér undan að taka alvarlega á málum og efla Hólaskóla og Hólastað.

Nú er rekstur Hólaskóla eins og lítill dropi í hafi útgjalda Háskóla Íslands, en liggur vel við höggi

Hrossarækt-  Reiðmennska  - Íslenski hesturinn-  Náttúru og menningartengd ferðaþjónusta og Fiskeldi -

Saga og helgi Hólastaðar verður ekki flutt á Melana við Hagatorg í Reykjavík

Hinsvegar hefur tekist að marka Hólum ákveðna sérstöðu í þróun námsbrauta sem ekki hafa verið kenndar annarsstaðar á landinu.

Og sem hafa reyndar áunnið sér virðingu og stöðu út um allan heim.

Í raun hefur Hólaskóli lyft grettistaki í þróun öflugs náms  og námsbrauta fyrir þessar atvinnugreinar sem hafa vaxið ævintýralega á síðustu árum.

Ef horft er til hagræðingar einnar saman í háskólanámi og fjárhagslegs ávinnings er e.t.v. rétt að athuga fyrst með sameiningu H.Í.og H.R.

Þar gæti verið eftir einhverju að slægjast sem mætti spara og nota þá fjármuni ef afgangs eru til þess að efla tækni og háskólamenntun á landsbyggðinni.

Nú er ég ekkert að leggja það beint til að sameina H.Í og H.R. en heiðarlega sagt hlýtur það að standa ráðherra nær.

Í námi og námsbrautum við Hólaskóla felast mikil verðmeti og stuðningur við ört vaxandi atvinnugreinar: 

 Hestamennsku, horssarækt, ferðaþjónustu og fiskeldi. 

Ráðherra bretti upp ermar fyrir Hóla

Að sjálfsögðu þarf að endurbæta húsakost heima á Hólum sem hefur verið vanræktur, styrkja skólann, námið og Hólastað í verki til þess að leiða áfram þróun og tækni í þessum mikilvægu atvinnugreinum. 

Við Hólaunnendur treystum á ráðherra að nálgast viðfangsefni sitt á þeim forsendum Heima á Hólum

Velkomin Heim Að Hólum 


Er það hlutverk Háskóla Íslands að niðurlægja Hóla

Frétt Morgunblaðsins í dag um að leggja eigi Hólaskóla niður og færa hreyturnar undir Háskóla Íslands í Reykjavík er furðuleg og óskiljanleg.  mbl.isHorfa til sameiningar HÍ og Háskólans á Hólum

 Ja "miklir menn erum við Hrólfur minn".

Samstarf við H.Í hefur verið mikið og gott á undanförnum árum á hinu faglega sviði og báðir haft hag af.

En best hefur farið á að hver skóli fari með sína eigin stjórn  og á heimavelli.

  Ég var skólastjóri á Hólum í 20 ár og alltaf komu upp hugmyndir um utanfrá að leggja skólann niður og færa hann undir aðrar stofnanir.

Yfirleitt kom slíkt frá einstaklingum og ráðherrum sem þekktu ekkert  til,  báru litla virðingu fyrir sögu og menningu þjóðarinnar, höfða varla komið Heim að Hólum nema í mýflugumynd.

En sem betur fer voru til sterkt fólk  og framsýnir aðilar sem stóðu með Hólum í Hjaltadal og tryggðu veg  staðarins og virðingu  sem  og  öflugs menntaseturs sem öll þjóðin gat verið stolt af.

Við gátum öll með stolti litið Heim að Hólum

Það er dapurlegt ef þetta verður minnisvarði ríkisstjórnar Katrinar Jakopsdóttur að leggja Hóla í Hjaltadal  niður sem menntasetur og færa hreyturnar á mölina undir Háskóla Íslands í Reykjavík sem hingað til  hefur átt nóg með sig sjálfan.

Þessar hugmyndir ber að afturtkalla þegar í stað og standa að baki Hólastaðar og Hólaskóla - Háskólans á Hólum af fullum metnaði


mbl.is Horfa til sameiningar HÍ og Háskólans á Hólum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heim að Hólum - Hólahátíð 12- 13 ágúst

338728482_204626828933645_1185560546114536938_n (1)365421135_989443759066345_6643043992515249532_n (1) „Náttúran hefur gætt Hólastað fegurra og endingarbetra byggingarefni  en unnt er að panta frá öðrum löndum. Nefnilega hinum yfirmáta fagra rauða sandsteini sem þar finnst gnótt af í næsta nágrenni og múr sá er uppbyggður af sem staðið hefur kringum kirkjuna árum saman.

Það virðist ósannlegt að fyrirmuna kirkjunni að verða uppbyggð á þann máta sem Herrann sjálfur sýnist hafa ætlast til…“(.Magnús Gíslason amtmaður 21. sept. 1756.) 

Fyrsta steinkirkja landsins

Hóladómkirkja, er lifandi minnisvarði um fornan glæsileik og veldi Hóla í Hjaltadal. Núverandi kirkja er ein sú hin minnsta er staðið hefur á Hólum frá stofnun biskupsstóls árið 1106. Hinar  fyrri kirkjur voru hátimbraðar byggingar er annað hvort fuku eða brunnu.

Sú kirkja sem nú stendur er aftur á móti fyrsta steinkirkja landsins og líklega eina byggingin hérlendis sem var reist í þegnskyldvinnu. „Þótti víst mörgum betra að þéna að Brimarhólmi en standa í steinhöggi í Hólatúni“ .

Byggingasaga kirkjunnar er í raun stórmerkileg og verður gerð nákvæm skil á Hólahátíð.   Hin rauða steinkirkja hefur staðið af sér endurtekin harðindi, hörmungar og niðurlægingu er riðu yfir Norðurland og Ísland allt.

Hún stendur sem skjólshús yfir dýrmæta helgigripi allt frá kaþólskri tíð og minna á stórbrotna menningu á Hólastað. Þeir munir eru þó aðeins brot af því staðurinn eitt sinn átti, en kirkjan var rænd af dönskum hermönnum eftir aftöku Jóns Arasonar 1550.

Þegar litið er yfir sögu Hólakirkju virðist þó sem hagræðing, skammsýni og aurasálgæsla hafi verið hættulegasti óvinur Hólastaðar fremur en harðindi og skepnufellar.

Lok biskupsstóls á Hólum 1801

Hannes Pétursson lýsir atburðarrásinni í bók sinni „Rauða myrkur“:  „Þá höfðu lengi gnúð á harðindi með hungurdauða og pestum ; að norðan komu ísar og bruni, aska og eldur að sunnan. Svarf þetta allt svo nærri jarðeignum og landsetum stólsins  að tekjur hans urðu valtar og stundum mjög rýrar. Setrið á Hólum sem átti sér þrjár miklar rætur eins og hið aldna tré norrænnar goðsögu , lafði nú uppi og mornaði og þornaði, uns konungur vor sá að baðmurinn var merktur dauðanum. 

Þá lét hann gera tvö bréf , hið fyrra 14. júní 1799 og dæmdi þar prentverkið af norðlendingum, bráðum 300 ára gamalt og hið síðara 2. október 1801, er afnam biskupsdóm og latínu skóla á Hólum. Ári síðar voru allar stólsjarðir í Skagafjarðarsýslu,um 200 talsins með hjáleigum seldar á uppboðsþingum. Sömu leið fór jarðargóss stólsins í öðrum sýslum stiftisins;

„Hóladómkirkja sjálf  átti sér eftir sölu jarðarinnar 1802 engin réttindi, hún gleymdist á uppboðsþingum.  Stefán Þórarinsson amtmaður á Möðruvöllum sem þá keypti Hóla átti hana ekki né heldur söfnuðurinn. Kirkjan stóð í Hólagarði öllum réttindum og hlunnindum rúin, eigendalaus, eignalaus og fjárhaldsmannslaus.“

Jarðarmatsnefnd konungs mat máliðs svo:„ Þyrfti Hólakirkja sérlega mikillar aðgjörðar við, þá skyldi brjóta hana niður með því að hún lægi illa og væri of stór handa svo lítilli sókn og reisa aðra kirkju mátulega á Kálfsstöðum“.

 Hólar í einkaeign

Þessi umsögn mun hafa leitt til þess að konungur hafi af ráðnum hug ekki viljað leggja það á nokkurn, hvorki söfnuð né jarðareiganda að bera eignarábyrgð á kirkjunni.  Kirkjan á Hólum átti sig sjálf.

Nýir eigendur á Hólum létu vera sitt fyrsta verk að rífa mörg hús staðarins og selja timbrið, og þar á meðal hina 500 ára gömlu Auðunarstofu.

Hefðu þeir án efa rifið kirkjuna einnig ef hún hefði verið úr timbri og í þeirra eigu. Gekk svo  til ársins 1824 er Benedikt Vigfússon frá Garði í Kelduhverfi kaupir Hóla. Hann var kvæntur Þorbjörgu Jónsdóttur Konráðssonar frá Mælifelli. Bæði vel auðug. 

Hér tók sá við Hólum sem reisti staðinn úr rústum og húsaði allan upp að nýju. Hann  varð skjótt einn af auðugustu mönnum landsins. Dómkirkjan á Hólum naut atorku Benedikts sem endurbætti hana og lagfærði sem sína eign, en hún var þá mjög að fótum komin, án viðhalds í hartnær hálfa öld.

Með Bendikt Vigfússyni er  þögguð niður umræðan um að rífa Hólakirkju. En Bendikt vissi sem var að hann var ekki eilífur og framtíð dómkirkjunnar var ekki frekar örugg eftir hans dag en var þegar hann kom heim að Hólum.

 Vörn Hólakirkju- Bænarskrá Benedikts

Árið 1862 sendi Benedikt bænarskrá til Alþingis um fjárframlag til Hólakirkju. Bendir hann á að Hóladómkirkja sé einskonar sjálfseignarstofnun en séreignir hennar hafi verið seldar undan henni án endurgjalds. Vill hann að Alþingi og kóngurinn greiði henni bætur og tryggi rekstur kirkjunnar og viðhald um ókomin ár.Málið fékk mikla umræðu á Alþingi. Milliþinganefnd undir forystu Arnljóts Ólafssonar skilaði áliti er þing kom saman árið 1865.Tekur nefndin undir óskir Bendikts og leggur til að veitt verði fé til kirkjunnar og staða hennar tryggð til framtíðar. En hvorki Alþingi né kirkjuyfirvöld voru reiðubúin að taka á sig eigendaábyrgð kirkjunnar né heldur töldu sér það heimilt án undangengins dóms. Höfða þyrfti dómsmál til að fá úr því skorið hver ætti Hóladómkirkju. Þar til yrði að líta svo á að kirkjan ætti sig sjálf en eigandi Hóla hlyti að bera ábyrgð á henni. Benedikt hefði sýnt það að hann hefði vel efni á að standa undir rekstri hennar og viðhaldi og væri eðlilegast að svo yrði áfram. Benedikt deyr 1868.

Hólar í höndum  Norðlendinga

Það varð Hólakirkju til bjargar að Skagafjarðarsýsla kaupir Hóla 1881 og stofna þar öflugan Búnaðarskóla, nýjan Hólaskóla . Norðlendingar sameinuðust  síðan um rekstur hans.  Aftur eru Hólar komnir í þjóðbraut. Þeir öxluðu einnig ábyrgð á dómkirkjunni. Viðhald kirkjunnar var órjúfanlegur þáttur í rekstri skóla og staðar. Hélst svo einnig eftir að Hólar urðu eign ríkisins.  Sérstaða Hóladómkirkju að eiga sig sjálf hefur verið virt.

Reksturinn og viðhald er á ábyrgð ríkisins en falin í hendur sérstakrar Hólanefndar: vígslubiskups, rektors Hólaskóla, prófasts Skagfirðinga og formanns sóknarnefndar.

Þegar turninn var reistur við hlið dómkirkjunnar árið 1950 á 400 ára ártíð Jóns Arasonar og sona hans var einmitt áréttað með gjafabréfi að klukkuturninn væri gefinn Hóladómkirkju.Sama var svo einnig þegar Auðunnarstofa hin nýja  var byggð. Þá afhenti bygginganefnd  Stofunnar Hóladómkirkju húsið til eignar og varðveislu. 

Var það gert meðvitað því eignarleg staða Hóladómkirkju er sú að hún á sig sjálf.  Sú staða bjargaði kirkjunni frá niðurrifi í gegnum mörg erfið ár og fer best á því að sú verði staða hennar áfram.

Endurreisn Hóla 1981

Það hafa ávallt skipst á skin og skúrir í sögu Hóla. Um 1980 var svo komið að formlegt skólahald hafði lagst af og framtíðin óviss. Háværar raddir, líkt og 200 árum áður töldu að leggja bæri staðinn niður.

Þá risu Norðlendingar aftur stað sínum til varnar en svo vildi til að í ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen sátu  atkvæðamiklir norðlenskir ráðherrar eins og  Pálmi Jónsson á Akri landbúnaðarráðherra og Ragnar Arnalds fjármálaráðherra. Steingrímur Hermannson  þá samgönguráðherra, en faðir hans Hermann Jónasson var Skagfirðingur

Ég hygg að það ásamt öflugum einstaklingum heimafyrir undir forystu Gísla Pálssonar á Hofi í Vatnsdal  hafi ráðið úrslitum um að sú ríkisstjórn tók þá ákvörðun árið 1980 að endurreisa Hóla.

Það var þá sem var kallaður heim til Hóla og átti því láni að fagna að stýra þeirri endurreisn ásamt mörgu öðru góðu fólki.

Mér er mjög minnisstæð sú orðræða sem ég mætti á þeim tíma, að hin gömlu og veglegu skólahús staðarins væri  svo úr sér gengin að óvíst væri hvort borgaði sig að gera þau upp.

Ég vildi að skólahúsið yrði gert upp og það varð. Staðurinn hefur nú verið húsaður upp að nýju, skólahúsið stendur tignarlegt og engum dettur nú í hug að láta það grotna niður, sem þó lá fyrir um 1980.

Hóladómkirkja- biskupssetur - skóli

Forvígismenn Hólaskóla og Hólastaður litu ávallt á hann sem eina heild með skóla, kirkju – vísindi og menningu. Því hlutu endurbætur á Hóladómkirkju að verða liður í átakinu svo og flutningur vígslubiskupsembættisins heim að Hólum.

Þetta hefur nú hvorutveggja gengið eftir. Þar með hafa verið endurreistar þær stoðir, ræturnar sem Hólar hvíldu á um aldir, en voru höggnar af með konungsbréfunum 1798 og 1802. Hólar í Hjaltadal eru  í dag eitt öflugusta menntasetur á landsbyggðinni   

Við tökum öll undir orð vinar míns Gunnars Eyjólfssonar leikara, sem vann hug og hjörtu Skagfirðinga er hann lék Jón Arason biskup heima á Hólum þjóðhátíðarárið 1974:

„Ég skal segja þér það Jón, þegar ég kem hér að aðalhliðinu Heim að Hólum grípur mig sterk tilfinning:

„Drag skó þína af fótum þér því moldin sem sem þú gengur á er heilög jörð“.

Velkomin heim að Hólum.

 (  tekið saman á 250 ára afmæli Hóladómkirkju.J.B.)

Jón Bjarnason


Sorgleg ákvörðun í utanríkismálum

Að loka sendiráði Íslands í Moskvu og vísa sendiherra þeirra hér úr landi er afar óábyrg aðgerð  og stuðlar ekki að friði í samstarfi þjóða.

 Samstarf og samtal lykill að friði

Hlutverk Íslands sem eyríkis í miðju stóru Norður- Atlantshafi er að halda tengslum og virku samtali við öll önnur ríki og þjóðir sem deila mörkum þessa hafsvæðis og að heimskautavæðum  Norðurskautsins.

Með því að slíta á nánast öll diplomatisk samskipti og samtal við Rússland sem ræður  meginhluta Norðurskautsins eru íslensk stjórnvöld að hlaupast undan ábyrgð hvað þessa gríðarlegu hagsmuni varðar til framtíðar.

Persónur sem nú fara með stjórn Rússlands verða ekki eilífar og þeim ráða Íslendingar ekki.

En traust til íslenskra stjórnvalda og ábyrgð hefur laskast í Norðurslóða samstarfi og á alþjóðavísu ef þessi ákvörðun gengur fram.  

Sannarlega eru hörmungarnar og ógnarstríðið í Úkraínu hryllilegt og ber að fordæma en það ástand  mun einhverntíma taka enda með einhverjum hætti.

Að axla ábyrgð í alþjóðasamstarfi

Íslendingar deila fiskistofnum, lífríki hafsins og verndun þess með öðrum þjóðum þar á meðal Rússum og bera þar mikla ábyrgð gagnvart heiminum öllum. 

Ísland hefur haft vissa forystu í samtali og samvinnu þjóða á Norðurslóðum m.a. í umhverfismálum og það verkefni og sú vinna verður nú mikilvægari en nokkru sinni fyrr til framtíðar. 

Það samtal, samstarf og forystuhlutverk verður hjóm eitt ef slitið er á virk tengsl við langstærsta land og þjóð Norðurslóða sem Rússland er.

Metnaður frjáls og fullvalda Íslands

Það ætti að vera metnaður íslensku þjóðarinnar að halda virkum leiðum opnum við sem flest önnur ríki og geta tekið þátt í og haft áhrif á umræðuna og ákvarðanir til góðs beint í krafti síns eigin fullveldis  en ekki í gegnum aðrar þjóðir eða láta herveldi segja sér fyrir verkum í alþjóðasamstarfi.

Á að fara áratugi og aldir aftur í tímann og fela sendiherrum annarra ríkja að fara með hagsmuni Íslands og Íslendinga í Rússlandi og á Norðurslóðum?

Vonandi verða þessi áform afturkölluð 

 

 

 


Verkalýðsfélag Kaldrananeshrepps 1949

merki kaldrananeshreppsKjarasamningur milli Verkalýðsfélags Kaldrananeshrepps í Strandasýslu og atvinnurekenda í Kaldrananeshreppi, undirritað á Drangsnesi 23. júlí 1949 er um margt athyglisverður.

Þar er kveðið á um tímakaup karla í dagvinnu, eftirvinnu og næturvinnu við hin ýmsu störf, flokkuð eftir líkamlegu erfiði og ábyrgð, uppskipun, útskipun og aðra almenna skilgreinda vinnu .
Sömuleiðis er kveðið á um kaup kvenna við almenna vinnu, dagvinnu, eftirvinnu og næturvinnu.
 Það kaup er almennt nokkru lægra en karla

Jafnréttisákvæði - Sömu laun fyrir sömu vinnu
Hinsvegar stendur þetta afdráttarlausa jafnréttisákvæði í 3.gr 

“ Vinni kona við útskipun eða aðra þá vinnu sem venja er til að karlmenn einir vinni, skal greiða þeim sama kaup og karlmönnum”.

Þrátt fyrir  kerfisbundinn kynjaðan launamun karla og kvenna var í þessum kjarasamningi kveðið skýrt á um sömu laun fyrir sömu vinnu.
Ákvæðið vísaði aðeins í aðra áttina en vísaði samt ákveðið veginn.
 Kjarabarátta síðari ára hefur einmitt miðað að því hefja upp kaup og kjör starfa sem hafa verið skilgreind sem “kvennastörf”, svo sem umönnun barna, aldraðra, sjúkra og samfélagsleg hjúkrun og velferðarstörf.  
Merkilegt nokk var kennarastarf hlutfallslega vel launað fyrir hálfri öld eða svo. 

Við framhaldsskóla og sérskóla fylgdu kennarastarfinu jafnvel íbúðir og ýmis hlunnindi. Sama var um lækna, hjúkrunarfólk  og presta  t.d    

En kjölfestan í þessum störfum var einmitt undirstaða jöfnuðar og  velferðar í byggðarlögum vítt og breitt um landið.

Í mörgum þessum störfum virðist launajöfnunin hafa farið niður á við,- úr karlaviðmiðun í kvenviðmið og jöfnuðurinn farið í öfuga átt, andstætt hugsjónum kjarasamningsins í Kaldrananeshreppi 1949.

 Unglingar 12 til 16 ára aðilar að kjarasamningi
Víkjum aftur að kjarasamningi Verkalýðsfélags Kaldrananeshrepps.  
Þegar komið er að kaupi drengja og stúlkna á aldrinum 14 til 16 ára er engin greinarmunur gerður á kynjum.
Dagvinna, eftirvinna og næturvinna tilgreind skilmerkilega.
Sama er með börn og unglinga á aldrinum 12 til 14 ára.  
Þau eru einnig aðilar að þessum samningi.
Þá var gert ráð fyrir að öll sem vettlingi gæti valdið ynnu, þegar svo bar undir.  
Og til að létta á framfærslu heimilanna og kenna ungu fólki að taka þátt með fullorðnum og læra að vinna. “ Vinnan göfgar jú manninn".

Matar- og kaffitímar skýrir
10. grein segir:
 "Dagvinna reiknast frá kl. 7 að morgni til kl.6 að kveldi.
Eftirvinna frá kl. 6 að kveldi til kl. 10 að kveldi

Næturvinna frá klukkan 10 að kveldi til kl.7 að morgni.
Á matartíma skal ekki reikna kaup, en kaffitími greiðist með fullu kaupi.
 Matar og kaffitímar skulu teknir reglulega og ákveðist  þannig:
 Kaffi kl. 9- 9,30 árdegis.
Matur kl. 12 – 1. Kaffi kl. 3,30- 4 síðdegis.
Matur kl. 7 – 8 síðdegis. Kaffi kl. 10- 10,30 að kveldi, kaffi kl. 3- 3,30 að nóttu . Kaffi kl. 6,30- 7 að morgni.
Sé unnið í matar og kaffitímum skal sú vinna greiðast með 100% álagi".
12. gr.
"Sé unnið 2 klukkustundir fyrir eða eftir kaffitíma  skal greiðast fullur kaffitími.
 Þó má enginn verkamaður eða kona taka sama kaffitímann nema hjá einum atvinnurekanda"

"Háttvísi verkstjóra jafnt á vinnustöð sem utan"

17. gr. "Atvinnurekendur skuldbinda sig til að láta verkstjóra sína gæta fyllstu varúðar og aðgætni við alla vinnu að svo miklu leyti  sem valdsvið þeirra nær".

18. gr."Atvinnurekendur skuldbinda sig til að hafa ekki í þjónustu sinni verkstjóra sem ekki geta tamið sér sæmilega háttvísi í orði og umgengni við verkafólk, jafnt á vinnustað sem utan". (leturbr. jb).
19. gr
"Slasist verkamaður eða kona við vinnu eða til og frá vinnustað skal hann eða hún halda fullu kaupi eigi skemur en 6 virka daga. 
Vinnuveitandi kostar flutning hins slasaða til heimilis eða sjúkrahúss ef læknir telur flutning nauðsynlegan".

 "Full dýrtíðaruppbót"
20. gr.
"Á allt kaup samkvæmt samningi þessum skal koma full dýrtíðaruppbót samkvæmt vísitölu Hagstofunnar næsta mánuð á undan".
23. gr.
"Kaup- og kjarasamningur þessi gildir  frá 15. júlí  1949 og áfram þar til annarhvor aðili segir honum upp með eins mánaðar fyrirvara." 

Undir kjarasaminginn rita.F.h. atvinnurekenda Jón P. Jónsson, Kristján Einarsson og Guðmundur Þ. Sigurgeirsson. F.h. Verkalýðsfélagsins, Torfi Guðmundsson, Elías Jónsson, Helgi Sigurgeirsson, Skúli Bjarnason og Jóhannes Jónsson.

Verkalýðsfélag Kaldrananeshrepps var stofnað 17. júní 1934. Föðurbræður mínir þeir Halldór og Jóhannes Jónssynir frá Asparvík eins og reyndar aðrir Strandamenn báru ríka réttlætiskennd í brjósti og beittu sér með öðrum í kjara baráttunni. Verkalýðsfélagið hefur nú sameinast Verkalýðsfélagi Vestfirðinga.

"Höfum við gengið til góðs"

 Annað hvort eiga allir samningar sem gerðir eru að vera "dýrtíðartryggðir" eða engir. Þar verður að ríkja jöfnuður á báðar hliðar en ekki bara á annan veginn sem nú er.

Sannarlega hefur margt gott gerst í kjaramálum síðan Verkalýðsfélag Kaldrananeshrepps samdi 1949.

Engu að síður veltir maður fyrir sér hvað hefur áunnist og hvað hefur tapast  frá þeim tíma er þessir framsýnu samningamenn sömdu um kaup og kjör á Drangsnesi 23. júlí 1949. 

 

 


" Hópíþrótt" sem Nató kann

Mogginn er alvöruþrunginn og gamansamur þessa dagana. Fulltrúum hans var boðið á "íþróttaæfingu hjá Nató" :

"Hópíþrótt sem NATO kann"

Freigáturnar Mecklenburg-Vorpommern (F218) og HDMS Hvidbjørnen (F360) sjást hér taka …
Freigáturnar Mecklenburg-Vorpommern (F218) og HDMS Hvidbjørnen (F360) sjást hér taka sér stöðu fyrir aftan freigátuna HDMS Niels Juel (F363) undan ströndum Færeyja. Að baki þeim sést færeyska strandgæsluskipið Brimil. Morgunblaðinu var nýverið boðið að fylgjast með kafbátaleitaræfingu þessara skipa og nutu þau aðstoðar úr lofti. Morgunblaðið/Árni Sæberg

"Kaf­báta­leit er hópíþrótt

þar sem mörg ólík vopna­kerfi og her­sveit­ir Atlants­hafs­banda­lags­ins (NATO) vinna sam­an sem ein sterk heild. Til að hægt sé að elta uppi kaf­bát und­ir yf­ir­borðinu þarf allt að ganga sem skyldi og koma skip, bát­ar, þyrl­ur og flug­vél­ar að verk­efn­inu. Og þessa íþrótt kann NATO afar vel. Þetta sagði Stephen G. Mack, undiraðmíráll í banda­ríska sjó­hern­um, í sam­tali við Morg­un­blaðið, um síðastliðna helgi.

„Og ég myndi segja að NATO væri mjög sterk­ur leikmaður í þess­ari íþrótt. Leik­ur­inn er mjög margþætt­ur og því er afar mik­il­vægt að þjálfa vel og reglu­lega. leturbr. JB

Ef horft er um öxl þá höf­um við með tím­an­um náð góðum tök­um á kaf­báta­hernaði og það sést á æf­ing­um sem þess­ari......“ 

Lofsvert er að geta brugðið fyrir komiskum, leikrænum tilburðum íþróttafréttamanns þegar talað er um að ná góðum árangri í "kafbátarhernaði"

Gott er til að vita að Natóskipin geti leikið sér og keppt innbyrðis í íþróttinni, "kafbátahernaður" og láti þar við sitja


Að gæta orða sinna - Ákall um frið

Við viljum lifa !

Aukin spenna í lífi ungs fólks, já fólki á öllum aldri er  yfirþyrmandi og hrein ógn fyrir samtíðina. 

Stór hluti ungs fólks á Íslandi er sagður þjást af andlegri vanlíðan og kvíða fyrir morgundeginum og framtíðinni.   

Fjöldi unglinga er sagður bera vopn á sér daglega af ótta og kvíða. Voðaverk og aukin fíkniefnaneysla fylgir með og ráðamenn vilja "skera upp herör".

Ekki er gott að lifa í draumaheimi en ekki má heldur hræða úr okkur líftóruna.

"Hamfarahlýnun" er hrópað á torgum  eins og enginn sé morgundagurinn og við látin ganga með djúpa sektarkennd til hvílu á hverju kvöldi!

Er það veganesti fyrir ungt fólk sem óþreyjufullt vill takast á við framtíðina?

Heimsendir er í nánd eru hróp stjórnvalda. 

Stríðsfréttir sem dynja á þjóðinni, fréttir sem við vitum ekkert hvort eru sannar eða ósannar.

-Það fyrsta sem fer í stríði er sannleikurinn-

Hryllilegar lýsingar af hrottaskap og aftökum, grimmd sem er svo rækilega stimpluð inn í veruleika okkar:

"þar sem enginn má undan líta"

Kjarnorkuvopnaðir kafbátar  erlendra stríðsvelda eru kallaðir inn í íslenskar hafnir  til þess að við:

"getum uppfyllt skyldur okkar" í stríðsrekstri "stórvelda" verið með í stríðinu", faðmað stríðsherrana. "Við erum sko með í slagnum".

"Stórvelda" sem eru í vitfirrtu kapphlaupi um völd, yfirráð og auðlindir heimsins og skirrast einskis.

Í fréttum bylur á okkur áróður um að erlend  hryðjuverkasamtök séu að kortleggja sæstrengi til Íslands til þess að klippa þá í sundur á morgun? 

"RÚSSARNIR KOMA"!  var flenni fyrirsögn í Mogganum á dögunum. Ég fyllist sorg yfir gífuryrðum marga ráðamanna.

Kvikmyndir jafnvel með íslenskum leikurum, fyrirmyndum ungs fólks keppast við að hella út sem mestu blóði eða valdbeitingu og  hryllingi, það "selst" best. 

Hver verður munurinn á raunveruleika og óraunveruleika í dagsímynd fólks undir þessum upphrópunum

 Svik og laumuspil og fáránleg auðsöfnun og græðgi nokkurra einstaklinga slítur íslensku þjóðina í fylkingar og myndar þjóðfélagsspennu. Enginn segir eða gerir neitt við því.

Athyglin er dregin að öldruðu fólki sem sagt er að teppi afgreiðslu hraða heilbrigðiskerfisins. "Fráflæðisvandi"

 Svartir gljáandi Audi bílar og leyniskyttur

Næstu daga  verður höfuðborg hins "hlutlausa og friðarsinnaða Íslands  fyllt af hermönnum og leyniskyttum  á götuhornum og húsþökum svo enginn óvitlaus hættir sér út úr húsi.

Almennir borgarar vita ekki hvaðan á þá stendur veðrið.

Dýrustu bílar heims aka um tómar götur Reykjavíkur. 

Flottustu hersýningar á "Torgi hins himneska friðar"  komast ekki í hálfkvist við  gljáandi svörtu Audi bíla "Evrópskra hershöfðingja" á tæmdum götum höfuðborgarinnar Reykjavíkur   "friðarríkisins" Íslands á næstu dögum. 

"Það er svo mikilvægt að vera með á sýningunni" 

Höfuðtilgangur sýningarinnar á "Torginu" er að fá dæmda eina tiltekna þjóð til eilífrar útskúfunar segja pólitíkusar.   

Hvernig sjá þau, sem þetta hrópa í dag  framtíðina með slíka hugmyndafræði að leiðarljósi?.

Fáránleikanum er hreinlega troðið inn um dyrnar hjá fólki sem taldi sig vera óhult.

Fáir íslenskir stjórnmálamenn tala fyrir friði eða beita sér fyrir friði í heiminum. Þeir eru þó til

Byssur og vopnaðar sveitir kallaðar yfir sig og kjarnorkuvopnaðir kafbátar og morðtól lofsungin og hrópað hátt: "Við erum með í hersýningunni".

 -Vonandi erum "við" það langt frá vígvellinum að synir okkar og dætur verði ekki kallaðir út á völlinn - og þess vegna óhætt að vera með gífuryrði!.

Stríðið í Ukraínu er hryllingur, harmleikur  og verður ekki leyst eða bundinn friður  með auknu blóði ungra sona eða dætra. 

Í villtustu deilum kalda stríðsins talaði enginn um að refsa bæri heilum þjóðum með eilífri útskúfun. 

Í seinni heimsstyrjöld datt engum í hug að fordæma alla þýsku þjóðina, almenning fyrir hernað og hryðjuverkin undir forystu Nasista.

Ekki einu sinni eftir blóðugustu átök Heimsstyrjaldarinnar við Stalingrad eða Volgograd, orustu sem stóð frá ág. 1942 til febr. 1943 þar sem sókn herja Hitlers var stöðvuð

- er kannski enn verið að hefna ósigursins þar.

Engum datt í hug að fordæma alla bandarísku þjóðina, fyrir innrásina  og voðaverkin í Vietnam, innrásina og grimmdina  í  Írak eða í Libyu.  Þótt hryðjuverk stjórnvalda í Bandaríkjunum og herstjórninnar þar væru fordæmd.

Veist er að Færeyingum fyrir að verja fiskveiðar sínar og fiskútflutning, undirstöður atvinnulífs þeirra og efnhagslegs fullveldis.

Og þess krafist af Færeyingum  að þeir slíti öllu samstarfi við Rússland, helsta samstarfslands þeirra í fiskveiðistjórnun og útflutningi,- meini þeim að koma í Færeyskar hafnir. 

Þegar framkvæmdastjórn  ESB setti hafnbann og innflutningsbann  á Færeyinga 2012 og 2013 þá sneru Færeyingar auknum viðskiftum til Rússlands

  Voru það ekki stjórnvöld í Danmörku og Evrópusambandinu sem bönnuðu Færeyskum skipum að koma til hafnar á " meginlandinu" m.a. til Danmerkur út af makríl og síld  og steypa þar með efnahag Færeysku þjóðarinnar og kúga af þeim fiskimiðin sín. 

"Að sjálfsögðu verðum við að fylgja lögum og reglum (ESB) en það er mikilvægt að við getum sagt Færeyingum að við erum andvíg þessum aðgerðum", segir Helle Thorning Schmidt forsætisráðherra Dana" þegar Danir lokuðu dönskum höfnum fyrir Færeyingum 2013 vegna fiskveiða þeirra. 

Voru það ekki stjórnendur ESB sem höfðu samþykkt viðskiptabann og löndunarbann á Ísland með fiskafurðir vegna deilna um makríl við Ísland 2011 til 2013

Það var ekki almenningur þessara landa sem bar fram hótanirnar

Með því ætluðu stjórnvöld þar á bæ að kúga Íslendinga og refsa  til hlýðni og undirgefni og ná auðlinum þeirra. 

Voru það ekki stjórnvöld í Bretlandi og allri Vestur - Evrópu sem skáru á öll viðskifta og fjármálatengsl við Ísland 2008, lokuðu landið af og hindruðu öll vörukaup til landsins og vildu svelta Íslendinga til hlýðni og undirgefni vegna Icesave og gjaldþrota íslensku bankanna.

Minnast menn ekki að lyfjabirgðir landsins voru gjörsamlega á þrotum  t.d.?

Meira að segja önnur Norðurlönd sátu með hendur í skauti og horfðu aðgerðalaus á.

Og hverjir komu okkur til bjargar og rufu þann "hryðjuverka múr", jú stjórnvöld í Færeyjum, Póllandi og  Rússlandi. 

Við sem vorum við stjórnvölinn þá hér á landi  vissum að þetta var ekki sviðsett leikrit  af þeirra hálfu,  heldur grimmasta, helköld alvara forystu þessara ríkja til þess að kúga okkur sem þjóð ,- ekki almenningur þeirra.

Að ekki sé minnst á landhelgisstríðin og fullveldisbaráttu Íslendinga fyrir fiskimiðum sínum

Það er sorglegt að heyra sumt forystufólk  íslenskra   stjórnvalda nú formæla heilli þjóð og hella olíu  og sprengiefni á ófiðarbál hryllilegra stríðsátaka. 

Nú á að tylla sér á tá og hrópa yfir "Torgið": "Dæmum þá", "sprengjum þá" sýnum hver er sterkastur !

Gæfusöm íslensk stjórnvöld ættu að beita sér af alefli í friðarviðræðum og hrópa hátt og kalla á vopnahlé og frið. 

Limósínurnar og Audibílarnir og leyniskytturnar gætu farið til sín heima.

Ákall um frið en ekki blóð

Kannski myndu þau hróp og þau áköll íslenskra stjórnvalda kalla fram auknar líkur á friði, sjálfsánægju og öryggi ungs fólks líka hér á Íslandi sem nú finnst sér vera ógnað og þurfi að bera á sér vopn til þess að verjast náunganum.

Sælir eru friðflytjendur  

 

 

 


Sumardagurinn fyrsti í Asparvík 1949

asparvík  Gleðilegt sumar

Veturinn 1948-49 hafði verið óvenju harður, kuldar og mikill snjór. Húnaflóinn var þakinn ís að stórum hluta. Það hafði staðið til að ljúka farskólanum í Kaldrananeshreppi fyrir sumardaginn fyrsta. Skólinn var þá til skiptis á þremur bæjum í sveitinni: Kaldrananesi, í Bjarnarfirði og Asparvík. Síðustu vikurnar í apríl var hann í Asparvík og húsið var fullt af börnum. Þau komu bæði úr Bjarnarfirði og af Bölum allt norður að Kleifum og dvöldu í Asparvík í einskonar heimavist. Helgi Jóhannsson frá Dunkárbakka í Dölum var kennari skólans. Séra Andrés Ólafsson nýráðinn prestur á Hólmavík var prófdómarinn. Og nú rétt fyrir sumardaginn fyrsta var séra Andrés mættur til þess að prófa nemendurna í vorprófum. Síðasta vetrardag skall á með norðan stórhríð, fárviðri með hörku frosti. Vindurinn stóð beint inn Húnaflóann og við þessar aðstæður var engum fært út úr bænum í Asparvík.

Minnist ég þess að útihurðinni var læst svo enginn slyppi óvart út í hríðina. Fjárhúsin og fjósið voru bara nokkra tugi metra frá bænum, samt var strengd lína til að fylgja svo hægt væri að fara þar á milli. Rokið og hríðin var svo mikil að ekki sá handaskil. Kindunum var hleypt út á hverjum degi niður í fjöru þegar gaf. Oft voru mokaðar niður snjóhengjurnar niður í fjöruna ef þurfti. Kindunum hafði nú ekki gefið út í nokkra daga. Það var siður að morgni sumardagsins fyrsta að vera með nýbakaðar lummur og heitt kakó fyrir alla á heimilinu. Reyndar var venjan sú að ungu mennirnir á bænum báru veitingar til stúlknanna í rúmið en það var þó ekki hægt þennan dag vegna fjöldans. Var það dálítill handleggur að baka fyrir svo margt fólk, en mamma mín Laufey, amma Guðrún og Heiða systir voru vanar að taka til hendinni og voru ekki í nokkrum vandræðum að reiða fram veislu. Heimilið með utanaðkomandi skólabörnum hefur þá talið um 25-30 manns. 

Mitt í því sem við gæðum okkur á lummum og kakói um morguninn – úti geysar öskubylurinn – kemur faðir minn fannbarinn inn úr húsunum. Var hann heldur sorgmæddur og þungur á brún. Tvær ær sýndu þá doðaeinkenni og ekkert meðal tiltækt til þess að bjarga þeim með. Hafði hann þá orðið að taka það eina til bragðs að lóga þeim. Ég man hvað faðir minn var sorgbitinn og við þegar hann sagði þær hefðu báðar verið með tveim lömbum. Önnur ærin hét Mjallhvít en hin Brúska. Ég man enn þann dag í dag hvernig þær litu út; þær voru kollóttar líkt og flestar Asparvíkurær, mjallhvítar á lagðinn með féskúf á nefi og loðinn brúsk í krúnunni.

Það var ávallt þungbært að missa vetrarfóðraðar ær. En á hinn bóginn var marga munna að metta á heimilinu þar sem heill farskóli sat veðurtepptur. Því var það svo að á kvöldi sumardagsins fyrsta var nýtt ærkjöt á borðum fyrir allan þennan stóra hóp. Heiða systir mín sem þá var 15 ára sagði síðar að sér hefði ekki liðið vel þegar hún var að matreiða kjötið um kvöldið fyrir allt fólkið. En svona var lífið.

Sumardagurinn fyrsti var einn mesti hátíðisdagur til sveita á þessum árum. Það þótti því sjálfsagt að hafa helgistund, bæn og sálmasöng á þessum degi. Séra Andrés var alveg einstakur guðsmaður og öðlingur af bestu gerð og um kvöldið kallaði hann allt heimilisfólk saman í stóru stofunni í nýja húsinu í Asparvík. Þar sátum við öll meðan stormurinn barði gluggana. Ekkert var til sparað til þess að gera stundina sem hátíðlegasta.

Stofuskápurinn hennar mömmu var notaður sem altari sem Halldór föðurbróðir á Drangsnesi hafði smíðað. Síðan var þríarma ljósastjaki frá Soffíu systur mömmu settur á altarið með logandi kertum. Allur hópurinn nær þrjátíu manns stóð þétt saman í stofunni í Asparvík og söng fullum hálsi sálminn Friðriks Friðrikssonar:

„Dýrlegt kemur sumar með sól og blóm, senn fer allt að vakna með lofsöngsróm, vængjaþytur heyrist í himingeim, hýrnar yfir landi af þeim fuglasveim“.

„Vakna þú sem sefur, því sumarskjótt sigrað kuldann hefur og vetrarnótt“

Og því svo fylgt eftir með sálmi Brynjólfs Jónssonar:

„Komið er sumarið, kærleiki Drottins oss gleður, komum nú fyrir hann lotning og þakkargjörð meður. Látum vor ljóð lofgjörðar fylla þann óð, nú sem öll náttúran kveður.“

Öll erindin sungin fullum hálsi.

Það hrikti í öllu húsinu undan norðan storminum, hríðin úti og sortinn byrgði alla sýn. Söngurinn í stofunni í Asparvík hyllti vorið, blómin og sólina og yfirgnæfði óveðursgnýinn.

Hljómmikil og vorglöð rödd séra Andrésar hljómar enn fyrir eyrum. Þetta var stórfengleg stund.

Sumarkoman lofsungin í mót hörku vetrarins.

Óveðrið stóð í nærri viku eins og hríðarnar gerðu oft á Bölum. Já, vorið 1949 var óhemju kalt og snjór og kuldar fram um 20. júní.

En eftir það kom hlýviðri og sumarið og haustið var gott.

( Birtist að hluta sem grein í bókinni" Myndir og minningar af Ströndum sem Sauðfjársetrið á Ströndum gaf út nú fyrir jólin)

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband