"Þorskurinn lepur strauma"

Boggublogg : Þorskastríð    Breytinga er ekki að vænta um stjórn fiskveiða eða  aðgerða gegn samþjöppun í sjávarútvegi, eða

fiskeldi  næstu þrjú árin samkv. frétt á Vísi 24.ágúst sl: 

"Matvælaráðuneytið gerir ráð fyrir að það taki þrjú ár að koma með fullbúin frumvörp til Alþingis um breytingar á stjórn fiskveiða og um fiskeldi". 

Síðan kemur kosningaár !.

Öll þau gögn sem til þarf eru nú þegar fyrir hendi í ráðuneytinu það ég best veit.

Pólitískt mál 

Breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, umgjörð  veiða og vinnslu, gjaldheimta og annað er varða meðferð og nýtingu sjávarauðlindarinnar er pólitískt mál. 

Það þýðir að það þarf líka pólitiskan vilja, stefnu og þor til þess að breyta þeirri löggjöf.

Fiskveiðilöggjöfin er skýr

 1. gr.
 Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar.

Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.

Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum".

 Sátt um að gera ekki neitt ? 

"Matvælaráðuneytið gerir ráð fyrir að það taki þrjú ár að koma með fullbúin frumvörp til Alþingis um breytingar á stjórn fiskveiða og um fiskeldi. 

Matvælaráðherra skipaði fjóra starfshópa sl. vor meðal annars til að skoða með hvaða hætti mætti endurskoða fiskveiðilöggjöfina.

Það var gert því fullreynt þótti að hægt væri að ná einhverri sátt um breytingar á löggjöfinni". ( visir 24. 08)

Þekkt leikrit

Ég minnist þess sem sjávarútvegsráðherra 2009- 2013 að sama var uppi á teningnum. 

Eftir stórsigur Vinstri Grænna vorið 2009 með nærri 22 % atkvæða vildi ég fylgja eftir stefnu flokksins í sjávarútvegsmálum.

Sigur VG þá fólst í að hrinda í framkvæmd loforðum um grundvallar breytingar m.a. á stjórn fiskveiða

  Nákvæmlega sama gerðist þá og eins og nú:

Formenn ríkisstjórnarflokkanna Vg og Samfylkingar  höfðu vorið 2009 skrifað upp á samkomulag við LÍÚ nú SFS um  að engar breytingar yrðu gerðar á fiskveiðistjórn næstu árin.

Átti það að gilda meðan "stöðugleikasamningur " væri í gildi og svo kölluð "Guðbjartsnefnd"  væri að störfum.( Ö.J. Rauði þráðurinn)

Þessi stöðugleika samningur var aldrei samþykktur í ríkisstjórn,

Enda vorum við kosin til þess að breyta en ekki að tryggja að allt færi í sama spillingarfarið á ný.

Ég sem sjávarútvegsráðherra skrifaði ekki uppá þau loforð við LÍÚ

"Guðbjartsnefndin" var mjög fjölmenn og átti að "ná sáttum" um stjórn fiskveiða.

Auðvitað náði hún engum sáttum enda er þetta pólitískt mál.

Nefndin hinsvegar tafði helstu breytingar sem ætlunin var að ráðast í eins og  flokkarnir höfðu lofað fyrir kosningar.

Sama virðist uppi á teningnum nú.

Sjávarútvegsráðherra hefur nú skipað fjölmenna nefnd með undirhópum sem á að ná "sátt" um fiskveiðistjórnunarkerfið.

Nefndin virðist gefa sér 3 ár

Formenn ríkisstjórnarflokkanna hafa örugglega lagt þær línur fyrir ráðherrann. 

Enda margar sömu persónur og leikendur við ríkisstjórnarborðið nú og á þingi 2009 

Með nefndinni í ráðuneytinu  starfar m.a. fyrrverandi framkvæmdastjóri LÍÚ svo allt er nú í öruggum höndum.

"Stöðugleiki" og "samþjöppun"  sem ekki má rugga.

"Stöðugleika" sem felst í því að útgerðin, nýting fiskveiðiauðlindarinnar safnast á æ færri hendur.

  Handhafar "kvótans" sölsa undir sig nýjar lendur í auðlindum landsins. 

Einstaklingar raka saman auð sem aldrei fyrr,  upphæðir sem við venjulegt fólk berum ekkert skynbragð á. 

Í nafni "stöðugleikans" verður sú græðgisvæðing og samþjöppun að fá að halda ótrauð áfram.

Og því er rétta að skipa stóra nefnd.

Fyrsta verk núverandi sjávarútvegsráðherra var einmitt að setja fleiri fisktegundir i "kvótkerfið".

Aðgerð sem gekk þvert á gömlu grunnstefnu VG í fiskveiðistjórn eins og einn þingmaður flokksins benti á og hann gat ekki stutt.

"Þá er ég svo þankalaus"

Um þessa "pólitísku drauma"  dettur mér í hug vísa  Sigurðar Breiðfjörð:

" Þegar ég ráfa og hengi haus 

þið haldið það skáldadrauma

En þá er ég svo þankalaus

sem þorskur er lepur strauma"

 Boggublogg : Þorskastríð


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband