Halldór Kiljan Laxnes og Fullveldið

Hættulegustu óvinir sérhverrar þjóðar eru æfinlega innlendir umboðsmenn sem geingið hafa hinu erlenda kúgunarvaldi á hönd og reka erindi þess innnanlands" sagði Halldór Kiljan Laxxnes í hátíðarræði 1. des 1935"

Í dag fögnum við aldarafmælis fullveldis Íslendinga. Við gleðjumst og sýnum styrk sjálfstæðrar þjóðar í menningu, listum, fjölþættu atvinnulífi, sögu og öflugu þjóðlífi. Til hamingju stolt íslensk þjóð.

En fullveldisbaráttan var og er ekki bara "kabarett" eða sýning á skrautbúnu fólki og hvítum flibbum með glitrandi orðum. Baráttan fyrir fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar er eilíf

Sjálfstæðið er sívirk auðlind( Ragnar Arnalds í samnefndri bók) 
Baráttan fyrir eigin landhelgi og 200 mílna fiskveiðilögsögu kostaði blóð svita og tár en var einn lykillin að sjálfstæði okkar sem þjóðar.

Fullveldið felst m.a. í því að ráða verndun og nýtingu náttúru auðlinda okkar.
Fróðlegt verður að sjá hvernig þess sjálfstæðisfáfanga sem landhelgisbaráttan skilaði okkur verði minnst í dag.

"Umboðsmenn hins erlenda kúgunarvalds" og ESB umsóknin

Þeir sem sóttu um aðild að ESB  2009 voru reiðubúnir að fórna fullveldi okkar og þar með forræðinu yfir fiskveiðiauðlindinni til ESB enda var það það ófrávíkjanleg krafa Sambandsins. Þessu kynntist ég vel sem ráðherra sjávarútvegsmála meðan á ESB umsókninni stóð og hafnaði þessar kröfu ESB alfarið. Takið eftir: 

Núna i skrúðgöngunum í dag munu stjórnmálamenn og aðrir sem að ESB umsókninnni stóðu  berja sér á brjóst, hneykslast á öðrum, skammast sín hvergi og þóst hvergi hafa komið  þar nærri. Halldór Laxnex kann að koma orðum um slíka menn:

" Hættulegustu óvinir sérhverrar þjóðar eru æfinlega innlendir umboðsmenn sem geingið hafa hinu erlenda kúgunarvaldi á hönd og reka erindi þess innnanlands" sagði Halldór Kiljan Laxxnes í hátíðarræði 1. des 1935"

Þessi orð eru jafn sönn í dag. Slíkir menn munu því miður ávalt verða til og  kunna að villa á sér heimildir eins og dæmin sanna.

Umsókn að ESB var aðför að fullveldi þjóðarinnar

Alvarlegasta aðförin að sjálfstæði þjóðarinnar hin síðari ár var hin fyrirvaralausa umsókn um inngöngu  Íslands í ESB, sem send var sumarið 2009. Hefði sú umsókn náð fram að ganga eins og stuðningsmenn hennar  börðust fyrir, værum við nú ekki að fagna 100 ára fullveldi sem sjálfstæð þjóð. Svo tæpt getur þetta fjöregg okkar staðið óbrotið.

 Barátta Breta og hótanir ESB

Barátta Breta til að losna undan yfirráðum ESB valdsins í Brussel og þeir afkostir og hótanir sem þeir mega þola sýna í hnotskurn hvaða erindi við hefðum átt þarna inn.

Við sem stóðum í þessari baráttu gleðjumst þvó okkur tókst að stöðva ESB- umsóknina og  koma í veg fyrir að fullveldið þjóðarinnar yrði framselt til Brüssel. Það er hins vegar  kaldhæðnislegt að horfa á suma þá sömu sem beittu sér hvað harðast í að koma okkur í ESB  ganga nú í fylkingarbrjósti hátiðahalda aldar afmælis fullveldisins. Hvernig verður ESB umsóknarinnar minnst í hátíðarhöldum dagsins? Mér verður hugsað til ræðu Halldórs Laxness

3.Orkupakki ESB - Framsal á fullveldi

Og enn er tekist á um fullveldið: Svokallaður 3. Orkupakki ESB er í prentun sem þingmál ríkisstjórnarinnar til staðfestingar. Hann felur í sér mögulegt framsal á yfirrráðum Íslendinga og  forræði yfir orkuauðlindum okkar og ráðstöfun raforku sem unnin gæti verið.

Það á að horfa til framtíðar, verður minnst á þá baráttu sem er framundan  um orkuauðlindir þjóðarinnar í hátíðarræðum dagsins?

 Landbúnaður, matvæla og fæðu öryggi þjóðarinnar - Hráakjötsmálið

Tekist er á um fullveldisrétt okkar til að taka eigin ákvörðun um matvæla- og fæðu öryggi þjóðarinnr, beita nauðsynlegum verndar aðgerðum til að tryggja lýðheilsu og heilbrigði búfjárkynja okkar, öfluga og holla matvælaframleiðslu. Verður minnst á þessi mál í hátíðar og barátturæðum dagsins?

Ræða Halldórs Laxnes 1. des 1935
Mér verður hugsað til hátíðarræðu Halldórs Laxness af svölum Alþingishussins 1. des 1935.

"Fullveldi íslenska ríkisins, sem var viðurkent 1918, var rökréttur árángur af starfi allra þessara manna. En um leið og vér hugsum til þeirra allra með lotníngu og þakklæti erum vér einnig minnugir hins sögulega lögmáls, að erlendu kúgunarvaldi hefur aldrei tekist að halda þrælatakinu á neinni þjóð nema því aðeins að þetta útlenda kúgunarvald ætti sterka málsvara, leppa eða umboðsmenn innan þjóðarinnar sjálfrar. Þetta hefur svo til geingið hjá oss í sögu fortíðarinnar, einsog hjá öðrum þjóðum sem lotið hafa erlendu kúgunarvaldi, og það mun einnig svo til gánga í nútíð og framtíð:

Hættulegustu óvinir sérhverrar þjóðar eru æfinlega innlendir umboðsmenn sem geingið hafa hinu erlenda kúgunarvaldi á hönd og reka erindi þess innnanlands. Þessir menn eiga sitt lángfeðgatal í sögu þjóðarinnar eingu síður en frelsishetjurnar. Nafn Gissurar Þorvaldssonar er þeirra nafn, ætt þeirra hans ætt"

Nóbelshöfundurinn Halldór Kiljan Laxness er einn af hinum stóru nöfnum í fullveldissókn þjóðarinnar sem við nú höldum hátíðlega.
Ræðan sem hann flutti af svölum Alþingishússins 1. des 1935 á jafn vel við í dag, hvert einasta orð.

Ræða Halldórs Laxnes fylgir hér með sem holl og sígild lesning sjálfstæðrar þjóðar.

Ræða 1. desember 1935 haldin á fullveldisafmælinu

og útvarpað frá svölum Alþíngishússins 

Íslendíngar:

Enn einu sinni er runninn sá dagur sem gefur oss öllum tækifæri til að minnast dýrmætustu hugsjóna íslensks fólks, þeirra hugsjóna sem ekki aðeins á síðastliðnum öldum, heldur alt frá upphafi Íslandsbygðar hafa verið djúprættastar í þjóðerninu, máttarstólpi þess og tilverurök: hugsjón frelsisins, hugsjón sjálfstæðisins.

Í dag komum við öll saman einum huga sem sjálfstæðismenn, ýmist sem hermenn eða kyrlátir aðdáendur þess frelsis sem er hið æðsta takmark fólksins, kvikan í íslensku þjóðerni.

Þessi dagur er ekki helgaður neinum sérstökum flokki né grunnfánum þeirra, hann er ekki helgaður neinum sérhagsmunum neinna ákveðinna hópa sem berjast fyrir ákveðnum ávinníngum sér til handa, eða ákveðnum kennisetníngum, eða ákveðnum hindurvitnum, og þetta er síst af öllu dagur til að hylla nokkra sérstaka útvalda menn, eða sérstök einakaafrek og einkastofnanir sem hversdagslega fagna frelsi og sjálfstæði í tali og atferli einsog þessar hugsjónir og framkvæmd þeirra væru þeirra eigin einkamál".

 DAGUR HINNA MÖRGU

"Í dag er ekki dagur hinna einstöku eða hinna útvöldu, í dag er dagur hinna mörgu, sá dagur sem er helgaður málstað fólksins, þeirrar lífsheildar sem er kölluð íslensk þjóð, að þeim hundrað þúsund manns ekki undanteknum, sem í dag heya stríðið við óblíð öfl náttúrunnar til að skapa lífsverðmætin, ýmist á hinum grimmu höfum umhverfis Ísland, eða í hinum dreifðu bygðum landsins undir vorum norræna skammdegishimni, eða hinum lágu auðmjúku kauptúnum sem standa að fótum gneypra fjalla við gráan, úfinn fjörðinn".

Dagur þjóðernis og frelsis

"Í dag er dagur þessa fólks, — án flokkaskiftíngar og sérhagsmunamála, það er dagur þjóðernisins, dagur hins djúprættasta í íslensku þjóðerni, dagur frelsisins. Enn einu sinni erum vér saman komin hér á þessum degi til að nefna hið helga nafn frelsisins.

Nú er hér hvorki staður né stund til að koma fram með neinar fjarrænar og óhlutkendar skýríngar á frelsishugtakinu, hverju fólkið hefur barist fyrir á undanförnum öldum, og hverju það hlýtur að berjast fyrir enn þann dag í dag undir nafni frelsisbaráttunnar".

Jón Sigurðsson,Jón Arason, Baldvin Einarsson, Fjölnismenn ....

"Ég held að það sé ekki til ein mynd sem skýrir öllu betur frelsisbaráttu íslendínga á síðastliðnum öldum en myndin af Jóni Sigurðssyni hér á Austurvelli. Það er eingin flókin heimspekileg skilgreiníng á óhlutkendu hugtaki, heldur mynd af manni sem líf hans var holdgun þjóðviljans íslenska, vilja íslensks almenníngs til að varpa af sér erlendri yfirdrotnun, oki og hlekkjum. Ævistarf hans var ekki hugsær áróður fyrir óáþreifanlegum kenníngum, heldur barátta fyrir mjög áþreifanlegum umbótum á hversdagskjörum venjulegs fólks, það var barátta gegn verslunaryfirráðum og arðráni erlendra manna og stofnana á íslendíngum, og fyrir hagstæðari verslunarháttum; hann barðist fyrir því að arðurinn af vinnu og verðmætum íslenskrar alþýðu rynni ekki í sjóði erlendra yfirdrottna; hann barðist fyrir því að innlendri stjórn væru gefin forráð til að fara með fjárreiður landsins. Áður en vér höldum leingra, er oss skylt að bera oss einnig í munn nöfn annarra þeirra manna sem fremstir stóðu í baráttu liðinna alda fyrir frelsi voru, oss bera að nefna nafn Jóns Arasonar sem lagði höfuð sitt undir öxina í baráttunni fyrir sjálfstæði Íslands, og frá öldinni sem leið ber oss einnig að minnast bæði Baldvins Einarssonar og Fjölnismanna, sem á öndverðum dögum Jóns Sigurðssonar beittu sér fyrir velferðarmálum þjóðarinnar og vöktu hana til baráttu".

Verjumst leppum og þrælataki erlends kúgunarvalds

"Fullveldi íslenska ríkisins, sem var viðurkent 1918, var rökréttur árángur af starfi allra þessara manna. En um leið og vér hugsum til þeirra allra með lotníngu og þakklæti erum vér einnig minnugir hins sögulega lögmáls, að erlendu kúgunarvaldi hefur aldrei tekist að halda þrælatakinu á neinni þjóð nema því aðeins að þetta útlenda kúgunarvald ætti sterka málsvara, leppa eða umboðsmenn innan þjóðarinnar sjálfrar.

Þetta hefur svo til geingið hjá oss í sögu fortíðarinnar, einsog hjá öðrum þjóðum sem lotið hafa erlendu kúgunarvaldi, og það mun einnig svo til gánga í nútíð og framtíð: Hættulegustu óvinir sérhverrar þjóðar eru æfinlega innlendir umboðsmenn sem geingið hafa hinu erlenda kúgunarvaldi á hönd og reka erindi þess innnanlands. Þessir menn eiga sitt lángfeðgatal í sögu þjóðarinnar eingu síður en frelsishetjurnar. Nafn Gissurar Þorvaldssonar er þeirra nafn, ætt þeirra hans ætt.

Á þessum degi er eðlilegt að vér gerum það upp sem áunnist hefur í frelsisbaráttunni. Vér minnumst þeirra manna sem hefndu Jóns Arasonar. Vér minnumst þjóðernisvakníngar Fjölnismanna, sem var undanfari hinnar farsælu baráttu þjóðarinnar undir forustu Jóns Sigurðssonar. Og loks minnumst vér ársins 1918 þegar Ísland var viðurkent fullvalda ríki".

Unnir sigrar en baráttan heldur áfram

"En þegar vér lítum yfir unna sigra á liðinni tíð, er það þá aðeins til að hvílast í endurminníngum fornra afreka, einsog nú sé öllu náð sem var barist fyrir á undanförnum öldum, einsog nú væri frelsi og sjálfstæði Íslands feingið fyrir fult og alt og í eitt skifti fyrir öll?

Ég efast ekki um að til séu þeir flokkar og sérhagsmunastefnur, sem telji sér best borgið með því að búa til kenníngu um að frelsisbaráttu íslendínga hafi verið lokið fyrir 17 árum, — 1. desember 1918.

Hinum sem hugsa í meiri einlægni, öllum þeim hinum mörgu sem heill almenníngs, heill hins venjulega manns, er hið eina einkamál, gefur 1. desember 1935 sérstakt tilefni til að spyrja, — spyrja sjálfa sig og nágranna sína í sveit og kaupstað: Hvað líður frelsisbaráttu hinnar íslensku þjóðar, fólksins, almenníngs, hins venjulega manns, þín, mín? Er henni lokið? Eða heldur hún áfram?

Það er satt, íslenska ríkið er sjálfstætt, — því hefur að minsta kosti verið lýst yfir um allan heim. En íslenska fólkið, hinir hundrað þúsund menn og konur, sem skapa lífsverðmætin í landinu, þeir sem í dag heya stríðið við óblíð öfl náttúrunnar á vorum grimmu norðlægu höfum, eða í hinum dreifðu, kuldalegu bygðum landsins, — hvert er þeirra svar þegar þeir spyrja sjálfa sig í dag hversu lángt sé komið frelsisbaráttu vorri: Er ég frjáls maður í þessu landi? Ert þú frjáls maður í þessu landi? Er þjóðin orðin frjáls, þótt ríkið sé að nafninu til sjálfstætt?"

Fólkið verði frjálst

"Nú er ekki óhugsandi að einhverjir séu til sem hafa búið sér til kenníngu um það, að frjálsir menn séu allir þeir sem ekki eru lokaðir inni í tukthúsinu; að frelsið sé falið í því að vera ekki í tukthúsinu. En fólkið er á öðru máli. Kröfur þess til frelsis eru hærri en svo að það geri sig ánægt með það eitt að vera ekki í tukthúsinu. Fólkið er nefnilega líka heimspekíngar á sinn hátt. Það hefur undir niðri ákveðnar hugmyndir um mannlegan virðuleik, um virðuleik þess hlutverks að vera manneskja á jörðinni, og einmitt þessar hugmyndir um að vera maður og geta lifað einsog mönnum sæmi, var, er og verður takmark og eðli allrar frelsisbaráttu.

Frelsisþrá fólksins er þrá þess til að lifa samkvæmt þeim hugmyndum sem það gerir sér um að mannlegum verum sæmi að lifa, þannig að heilbrigðar óskir þess, lífskröfur og lífshræríngar geti feingið fulla útrás í því samfélagi, þar sem það lifir. Að því sé leyft að starfa í landi sínu að því sem hverjum hentar best, og þó þannig að starf þess sé ekki unnið fyrir gýg, heldur meðal til að veita því þær nægtir til líkama og sálar sem eru óhjákvæmilegar til þess að persónuleiki mannsins fái að njóta sín.

Frjálsir menn eru þeir einir sem lifa í alsnægtum, starfa skynsamlega, farsælu starfi í þágu sína og félagsheildar sinnar, en hafa þó fult næði til að ástunda gjafir andans, og geta komið börnum sínum til fylsta þroska. Þannig lifa frjálsir menn. Þannig lifir frjáls þjóð. Það er þetta, að lifa eins og mönnum sæmir, sem fólkið á við þegar það rís gegn kúguninni og berst fyrir frelsi sínu".

Frelsi til að lifa eins og mönnum sæmir 

"Í dag er dagur hinna mörgu, en ekki hinna fáu, dagur fólksins, sá dagur sem er tileinkaður málstað fólksins, frelsisins til að lifa eins og mönnum sæmir.

Það er í dag sem sjómaðurinn á að svara þessari spurníngu: Ert þú frjáls maður? Er skynsamlegt hlutfall milli baráttu þinnar við þetta dutlúngafulla haf, milli lífsbaráttu þinnar yfirleitt, og þess hlutar sem þú berð úr býtum til þess að veita fjölskyldu þinni og sjálfum þér þá aðbúð sem mönnum sæmir? Taka þau á móti þér með áhyggjulausu frjálsu yfirbragði í rúmgóðum húsakynnum, björtum og hlýum, þegar þú kemur heim eftir að hafa lagt fram starfskrafta þína í þágu samfélagsins? Eruð þið frjáls að því að uppfylla allar kröfur ykkar til lífsins?"

 

Komið börnum til þroska

"Getur þú komið börnunum þínum til fylsta þroska einsog frjáls maður, þannig að alt hið sérstaka sem í þeim býr fái skilyrði að eflast og mentast, hvert í sína átt? Og hefur þú sjálfur hið nauðsynlega næði auk starfs þíns, til að leggja stund á gjafir andans, einsog þú þráðir svo oft þegar þú varst úngur? Eða hefur kanski grimmur ógnahrammur lagt hald á hlutinn þinn undir eins og þú hafðir sótt hann í gin hafsins? Kemurðu kanski heim í lélegan kofa eða kjallara til konu þinnar mæddrar, og barna þinna, sem eru því mjög fjarri að njóta hins fylsta þroska? Kanski þú hafir ekki einusinni frelsi til að hita sæmilega upp hjá þér í vetrarkuldanum! Og þá líklega lítið næði til að njóta þeirrar ánægju af gjöfum andans sem þig dreymdi oft þegar þú varst úngur, vegna áhyggju og kvíða fyrir komandi dögum um hvernig þú eigir að klæða hópinn þinn, hvernig þú eigir að standa í skilum með húsaleiguna, eða með hvaða aðferðum þú eigir að létta á skuldinni þinni, ef þú skyldir vera einn af þeim sem ekki hefur verið leyft að stunda atvinnu í vetur, kanski lifirðu í atvinnuleysi sem er jafnvel ennþá óskynsamlegra en hinn versti þrældómur? En þú ert þó vonandi ekki einn af þeim sem getið var um í Alþýðublaðinu í fyrradag og sagt að gætu ekki einusinni uppfylt þá frumstæðustu og lægstu lífskröfu, kröfuna um nóg viðurværi, — þú ert vonandi ekki einn þeirra manna, sem hafa ekki einu sinni verið matvinnúngar yfir hásumarið, einn þeirra sem hafa ekki einusinni frelsi til að borða kjöt?"

Upp til dala - út til stranda 

"Upp til dalanna, lángt upp til landsins bakvið þessi hvítu fjöll, situr bóndinn og fólk hans í dag við útvarpið sitt og bíður eftir örvunarorði á þessum degi frelsisins, sem einnig er dagur hans. Einnig hann á að gera upp við sjálfan sig í dag svarið við þessari spurníngu: Bóndi, hvar er komið frelsisbaráttu þinni? Ert þú frjáls maður? Lifir þú í nægtum sem samsvara því erfiði sem þú hefur lagt á þig í sumar leið, því erfiði sem þú leggur á þig í vetur? Er húsið þitt, búið þitt og jörðin þín í því ástandi að það samræmist þeim kröfum sem þú gerir þér um frjálsra manna líf, — ekki manna sem hafa það eitt að fagnaðarefni að vera utan tukthússins, heldur frjálsra manna í orðsins fylsta skilníngi? Eða ber þú kanski kvíðboga fyrir að þú munir missa þetta alt þegar minst varir? Hefur þú kanski glæpst til að fullnægja frelsisþrá þinni, þrá til veglegra og virðulegra lífs, með því  að snúa þér til lokkandi lánsstofnunar svo þú gætir bygt, og hefur þú komist að þeirri niðurstöðu að þessi lánsstofnun var erkióvinur þinn, sem beið eftir tækifæri til að standa yfir þér með reidda svipu kúgarans til þess að hegna þér einsog glæpamanni fyrir það að þú vildir lifa einsog frjáls maður í húsi?

Var það þá glæpur lífs þíns að vilja lifa einsog mönnum sæmir, að þú vildir reyna að veita þér og þínum nokkrar þær unaðsbætur í lífinu sem gerðu hlut þinn sýnu veglegri en melrakkans í greninu, — var það þá glæpur þinn?"

 Ertu orðinn þræll lánastofnana ?

"Ertu kanski fyrir bragðið orðinn þræll fjandsamlegra lánstofnana, þessara lánstofnana sem eru svo fjarri því að vera stofnanir bænda og vinnandi lýðs á Íslandi, að þær vaka yfir hverri hreyfíngu þinni til þess að draga til sín arðinn af striti þínu jafnóðum, en hóta að öðrum kosti að reka þig frá húsi og heimili og gera þig og börn þín að rótlausum umrenníngum og betlurum á eyrinni?

Hefur þrá þinni til að verða frjáls maður verið refsað svo, að nú er komið fyrir þér áþekkast nestislitlum óbótamanni á flótta í óbygðum, — fjórtán til sextán tíma daglegur þrældómur þinn hefur verið verðlaunaður aðeins með hækkandi matarskuldum í versluninni og óframúrsjáanlegum vaxtaþrældómi þar sem hús þitt, jörð þín og bú er að meira eða minna leyti veðsett því bánkavaldi sem er alt annað en vald þitt, sem er vald höfuðóvinar þíns, fjármálaauðmagnsins, í staðinn fyrir að vera þitt eigið vald, þinn eiginn bánki, ríkisbánki verkamanna og vinnandi bænda, þitt eigið verkfæri til að afla þér frelsis.

Þú hefur helsti seint orðið sjálfstæðismaður — þú hefur séð um seinan að bánkavaldið, fjármálaauðmagnið, er ekki bánkavald verkalýðs og vinnandi bænda, heldur framandi vald sem þér er fjandsamlegt, sem mun halda áfram að vera höfuðóvinur hins vinnandi fólks til sjávar og sveita meðan þeir hafa ekki gert það að sínu valdi, meðan ekki er hrein alþýðustjórn í landinu, meðan bánkarnir eru ekki, um leið og framleiðslugögnin öll, yfirlýst eign verkalýðs og vinnandi bænda.

Þetta er sjálfstæðismál íslensku þjóðarinnar.

Það eru áhugamál hins framandi fjármálaauðmagns sem í svipinn setja íslensku fólki stólinn fyrir dyrnar og halda því undir svipu kúgarans í dag og hljóta að skipa sjálfri landstjórninni fyrir verkum, alveg einsog það var framandi vald sem lagði stjórnlagafrumvarpið fræga fyrir þjóðfund íslendínga árið 1851, þar sem farið var fram á að svifta landið sjálfsforræði og gera innanlandsmálefni þess að íhlutunarefni erlendra yfirdrotna, — og það var þá sem íslensk þjóðfylkíng sigraði í fyrsta sinn; þegar Trampe greifi ætlaði að beita þjóðfundinn gerræði, þá stóðu fundarmenn á fætur allir sem einn maður undir forustu Jóns Sigurðssonar og hrópuðu í einu hljóði: Vér mótmælum allir.

Það er satt, góðir íslendíngar, vér erum að nafninu til sjálfstætt ríki, en ef einhver hefur sagt yður að frelsisbaráttu þjóðarinnar sé lokið, þá er það ekki satt, fjarri fer því. Þótt það sé kanski ekki fyllilega rétt að segja, að nú fyrst sé hún að hefjast, þá er hitt sönnu nær að nú stendur frelsisbarátta íslensku þjóðarinnar sem hæst: íslenski maður, íslenska kona, taktu baráttuna upp í dag, haltu þennan dag sjálfstæðis og frelsis heilagan með því að sameinast þjóðfylkíngunni, samfylkíngu allra þeirra afla sem hafa eitthvert brot af málstað fólksins á stefnuskrá sinni, fylkíngu allra andlega og líkamlega vinnandi manna af öllum flokkum gegn hinu erlenda og innlenda kúgunarvaldi í mynd bánkaauðvaldsins, fjármálaauðmagnsins, þessum ægilegasta fjanda hins lifandi og stríðandi mannkyns á jörðinni, sem einnig á þessum dögum leitast við að leggja hramminn yfir land vort, á hvert einasta lifandi brjóst.

Íslendíngar, menn og konur af öllum flokkum! Í dag erum vér allir sjálfstæðismenn, í dag komum vér allir saman einum huga til að minnast frelsisins, til að nefna frelsisins heilaga nafn. Í dag ríkir aðeins einn málstaður í hugum vorum, málstaður fólksins, án tillits til allra flokkadrátta og sérhagsmuna.

Þjóðfylkíng, alþýðufylkíng, samfylkíng, — það er ekki nafnið sem skiftir máli, heldur einíngin um málstað fólksins gegn þeim öflum sem vilja meina fólkinu það frelsi til að lifa einsog mönnum sæmir, sem frá upphafi hefur verið æðsta og dýrmætasta takmark íslensk þjóðernis".

Það er ekkert við því að segja að flokkar haldi uppi ýmsum fánum til að leggja áherslu á sérkenni sín, einn haldi uppi fána hinna svonefndu íslensku lita, annar haldi uppi fána með örvunum þrem, þriðji með hamrinum og sigðinni. Það er aðeins á einum púnkti sem þessir fánar geta orðið hættulegir, og það er ef þeir í augum liðsmanna sinna fara að tákna eitthvað annað en baráttuna fyrir frelsi fólksins, frelsinu til að lifa einsog mönnum sæmir, — ef fánaberarnir ætla vegna aðdáunar á flokkseinkennum sínum að gleyma því sem öllum fánum er ofar, málstað hins lifandi, stríðandi fólks, hins vinnandi fólks til sjávar og sveita, málstað þess gegn kúgunarvaldinu í hverri mynd sem það birtist. Látum alla flokka slíta talinu um fegurð sinna ágætu fána eina stund fyrir kröfunni um eina órofna fylkíngu gegn þeim öflum og umboðsmönnum þeirra, sem vilja nú hneppa íslenska menn og íslenskar konur í nýa ánauð. Þjóðfylkíng, alþýðufylkíng, samfylkíng, — það er ekki nafnið sem skiftir máli, heldur einíngin um málstað fólksins gegn þeim öflum sem vilja meina fólkinu það frelsi til að lifa einsog mönnum sæmir, sem frá upphafi hefur verið æðsta og dýrmætasta takmark íslensk þjóðernis". ( leturbreytingar og millifyrirsagnir JB)

Birtist í Dagleið á fjöllum, 1937

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband