Ólöf Nordal

Ólöf Nordal alþingismaður og fyrrverandi ráðherra er látin. Mann slær hljóðan þegar einstaklingur í blóma lífsins fellur frá. Hún varð að lúta í lægra haldi fyrir illvígum sjúkdómi eftir hetjulega baráttu.

Ólöf Nordal var afar hlý og hreinskiptin persóna sem geislaði af öryggi og þrá til að berjast fyrir hugðarefnum sínum og styðja við góð málefni. Þetta get ég sjálfur staðfest persónulega eftir góð kynni bæði í samstarfi á þingi og hjá henni sem ráðherra:

Við gengum þrjú, Sigrún Júlíusdóttir prófessor frá Háskóla Íslands og séra Vigfús Bjarni Albertsson sjúkrahúsprestur Landspítalans á fund Ólafar sem ráðherra. Það var í ársbyrjun 2015. 

Við óskuðum eftir stuðningi ráðuneytisins við að hrinda
í framkvæmd rannsókn og úttekt á stöðu barna sem missa foreldri sitt. 

 Koma þyrfti betur til móts við þarfir þessara barna fyrir öryggi í sorg og til þess að viðhalda fjölskyldutengslum og treysta sjálfsmynd þeirra:

 "Þetta mál vil ég styðja. Látið mig vita hvað þið þurfið mikla peninga til að hrinda verkefninu úr vör og eins hvernig ráðuneytið og ég sem ráðherra get stutt og hlúð að þessu mikilvæga máli". Svarið var afdráttarlaust.

Og rannsóknin og úttektin fór á fulla ferð undir forystu Sigrúnar Júlíusdóttur frá Rannsóknastofnun í barna- og
fjölskylduvernd hjá H.Í, ásamt fagfólki frá Krabbameinsfélaginu, Landspítalanum og Innanríkis- og Velferðarráðuneytunum.

 Einn liður í vinnunni var ráðstefna sem áðurnefndir aðilar undir forystu Innanríkisráðuneytisins stóð að 12. október síðastliðinn. 

Ólöf Nordal hafði lagt ríka áherslu á að fá að setja ráðstefnuna sjálf, en vegna skyndilegra veikinda varð hún að fela öðrum að flytja ávarpið.

( Á vef Innanríkisr. :Fjölmenni á ráðstefnu um réttarstöðu og velferð barna við andlát foreldris)

Í samskiptum okkar Ólafar kom það skýrt fram, hve henni var annt um velferð barna og ekki hvað síst nauðsyn þess að huga að þörfum þeirra og réttarstöðu við foreldramissi.

Verkefnið sem Ólöf Nordal studdi og hvatti af alhug er á fullum skriði. Nú þegar hafa komið út skýrslur og úttektir á afmörkuðum þáttum þess. Hafinn er undirbúningur að endurskoðun verklagsreglna og lagabreytingum sem lúta að þörfum og réttarstöðu barna sem missa foreldri sitt.

Rannsóknirnar sýna að opna þarf enn betur umræðuna um stöðu, þarfir og sjálfstæðan rétt þessara barna. T.d.eiga fjölskyldubönd og tengsl á hættu að trosna ef þau eru ekki ræktuð og sett í fastar, öruggar skorður frá upphafi sem er fylgt. En þau upprunatengsl eru mjög mikilvæg fyrir þroska barnsins og vellíðan. 

Börn þurfa sterka málssvara með næmni, hlýju og gott hjartalag. Þar var Ólöf Nordal reiðubúin að beita sér af heilum hug og fullum þunga.

Við söknum sárt vinar og baráttukonu, en erum jafnframt afar þakklát Ólöfu  fyrir alla hvatninguna og einlægan stuðning í mikilvægu baráttumáli sem heldur áfram. Sá stuðningur skipti þar öllu máli.

Eiginmanni, börnum, systkinum og foreldrum Ólafar sendum við Ingibjörg hugheilar samúðarkveðjur.

 Blessuð sé minning Ólafar Nordal


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband