Á sundlaugarbakkanum

Sundkennsla barna er njög mikilvæg og almenn skylda sem er gott. Sjálfur fer ég í nokkrar sundlaugar mér til heilsubótar. Þá sér maður oft blessuð börnin 7, 8, 9 ára vera að koma í sund á morgnana.

Eins heyri ég af reynslu barnabarnanna af sundkennslunni. Aðstæður til kennslu eru mjög misjafnar. Sumstaðar eru innilaugar en aðrar eru opnar og berangurslegar í miðjum strekkingnum og sjókomunni sem hefur verið ríkjandi undanfarið.

Ég viðurkenni alveg að ég vorkenni oft þessum litlu greyjum í hálfkaldri lauginni í nepjustormi snemma að morgni.  Það getur varla skilið eftir góðar minningar í því tíðarfari sem hefur verið undanfarið. Sumir segja að þau herðist við þetta sem má vel vera en mér fyndist nú samt að hafa ætti útisundkennsluna undir vorið.

Mér gekk sjálfum frekar illa að læra að synda og fannst ég vera eftirbátur jafnaldranna lengi vel.

Ég tek eftir að mjög er misjafnt hvernig sundkennarnir haga sér við þessar aðstæður.  Sumstaðar eru þeir í sundfötum og  sjálfir niðri í lauginni hjá börnunum og tala við þau á sama grunnfleti. 

Annarsstaðar  standa sundkennararnir dúðaðir í þykkum kuldagöllum á sundlaugarbakkanum og hrópa leiðbeiningar og skipanir niður í laugina til barnanna, hálfskjálfandi í nepjunni.

Ég velti fyrir mér hvort leiðbeinendurnir eigi ekki líka að vera niðri í vatninu með börnunum  og tala til þeirra á sama fleti.

Börn eru hvergi berskjaldaðri en í sundi eða í íþróttum. En þátttaka allra og vellíðan er afar félagslega mikilvæg 

Það hlýtur því að þurfa gæta sín vel á orðbragði og athugasemdum gagnvart litlum börnum í íþróttum og á hvern hátt leiðsögnin er framkvæmd.

Eitt ógætilegt orð eða vanhugsuð athugasemd getur skilið eftir djúp sár og haft félagslega afdrifaríkar afleiðingar. En hvatning og viðurkenning er jafnframt gott vegarnesti fyrir barnið inní framtíðina sem er jú hin viðtekna regla 

Ég velti fyrir mér hvaða símenntun, aðhald, stuðning og eftirlit það fólk fær sem vinnur með börnum á þessum margbreytilega íþrótta vettvangi.

Þar er mikil ábyrgð á ferðinni sem oftast er mjög vel unnin. En aðgát skal höfð í nærveru sálar. Vorið er framundan með hækkandi sól .


Börn í sorg eftir Ásgeir R. Helgason

» Börn syrgja gjarnan í lotum. Þess á milli leita þau huggunar og öryggis í leik og daglegu amstri. Þau þarfnast athygli og stuðnings yfir lengri tíma.

Nýjar lagagreinar tóku gildi í lok síðasta árs þar sem réttindi barna sem missa foreldri og ábyrgð samfélagsins gagnvart þessum börnum eru betur skilgreind. Í nýju lagagreinunum er heilsugæslan skilgreind sem lykilaðili í eftirfylgni barna sem missa foreldri. Læknir sem skrifar dánarvottorð einstaklings, sem er foreldri barns undir 18 ára, er samkvæmt lögunum skyldugur til að tilkynna þeirri heilsugæslu þar sem barnið er skráð að foreldri barns á þjónustusvæði hennar hafi nýlega látist. Heilsugæslustöðin er þar með skyldug til að athuga hagi barnsins og veita þann stuðning sem þörf er á.

Sorg barna

Börn syrgja gjarnan í lotum. Þess á milli leita þau huggunar og öryggis í leik og daglegu amstri. Þau þarfnast athygli og stuðnings yfir lengri tíma. Algengt er að sorgin taki sig upp, jafnvel löngu síðar, þá gjarnan í tengslum við ákveðna atburði eins og jól eða afmæli. Í samheldnum stórfjölskyldum er oft haldið vel utan um börn í þessum aðstæðum, ekki bara fyrstu tvö árin, heldur til lengri tíma. Það er börnum mikilvægt að þau séu elskuð skilyrðislaust. Börnum sem búa við slíkar aðstæður vegnar betur en börnum sem gera það ekki. Þar verður samfélagið að koma að málinu og tryggja að öll börn fái viðunandi stuðning.

 Stuðningur við fjölskylduna

En fjölskylda barnsins þarf líka stuðning og handleiðslu á erfiðum stundum. Heilsugæslan mun vonandi fá svigrúm til að sinna þeim málum samhliða því að styðja barnið. En það mun taka tíma, þjálfun og fjármuni að þróa ferla til að sinna þessu verkefni vel. Þar getur faglegt ráðgjafarteymi eins og Ráðgjafarþjónusta Krabbameinsfélagsins gegnt mikilvægu hlutverki sem handleiðsluaðili, gjarna í samstarfi við önnur samtök eins og Sorgarsamtökin og samtökin Ljónshjarta.

Stuðningur við fagaðila

Krabbameinsfélagið vinnur nú að því, í samráði við heilbrigðisyfirvöld, Sorgarmiðstöðina, skólakerfið og fleiri, að koma á fót stuðnings- og handleiðsluteymi með það að meginmarkmiði að styðja við fagfólk í nærumhverfi barna sem misst hafa foreldri, ekki síst kennara og annað starfsfólk skólanna, en einnig starfsfólk heilsugæslunnar sem lögum samkvæmt á að sinna þessum börnum. Verkefnið er unnið í áföngum þar sem fyrsta skrefið er að kanna hvers konar stuðning fagfólkið telur sig helst þurfa.

Skólastjórnendur víðsvegar á landinu mega eiga von á að fulltrúar Krabbameinsfélagsins hafi samband í vor og falist eftir samstarfi við skólann varðandi þróun verkefnisins. Aðallega er um að ræða þarfagreiningu. Við viljum vita hvaða reynslu starfsfólk skólanna býr yfir og hvað það er helst sem sérþjálfað fagfólk Krabbameinsfélagsins getur aðstoðað við.

 

Höfundur er dósent í sálfræði við HR

og sérfræðingur hjá Krabbameinsfélagi Íslands.

asgeir@krabb.is (Morgunblaðið 12. febrúar 2020)

Ásgeir Helgason


Formaður Eflingar í Kastljósi

Sólveig Anna var skýr og skorinorð fyrir bættum kjörum láglaunafólksins, umbjóðenda sinna, kvennanna sem vinna á leikskólunum og hjúkrunarheimilum á lægstu launum samfélagsins í Kastljósi í gærkveldi.

"Til þessa var ég kosin formaður" sagði Sólveig Anna, og rökstuddi sitt mál á einfaldan hátt.

Saman í liði félagarnir í sjónvarpinu
Þeir voru svo sannarlega saman í liði þáttarstjórnandinn og framkvæmdastjóri samtaka félags atvinnurekanda og býsnuðust saman yfir tíuþúsundkalli til leikskóla kvenna og það myndi sliga "lífskjarasamninginn".
Ég hélt að þeir ættu börn á leikskólum og þekktu aðstæður.

Hækkun hæstu launa og Lífskjarasamningur

Þeir svöruðu ekki spurningum Sólveigar hvort hundruð þúsunda króna hækkun mánaðarlauna til efstu stiga samfélagsins rugguðu ekki Lífskjarasamningnum.

Borgin sparar sér stórfé á láglaunafólki
Fram kom að Reykjavíkurborg sparar stórfé á því að hafa leikskólana undirmannaða og láta fólk  sem haldið er á lægstu launum ganga í störf menntaðra leikskólakennara. En hlutfall þeirra er mun lægra hjá leikskólum Borgarinnar en á að vera samkvæmt lögum. Eru leikskólakennarar þó ekki oflaunaðir, síður en svo.

Það á að setja börnin og aðbúnað þeirra í forgang.

Um það snýst málið.

Góður leikskóli með ánægðu starfsfólki er forsenda raunverulegs lífskjarasamnings

Þetta var annars mjög fróðlegt samtal þeirra tveggja félaganna við formann Eflingar

 
 

Lífskjarasamningur og leikskólabörnin

Það að vita af börnunum sínum á góðum leikskóla með nægu starfsfólki, menntuðu og ánægðu með kjör sín og starfsskilyrði  eru grunnatriði lífskjara hvers samfélags.

Eigin réttur barna og skyldur samfélagsins eru mjög til umræðu sem er gott og tímabært.

Hugtökin "snemmtæk íhlutun", stuðningur og utanumhald fyrstu æviárin ráði miklu um velferð barna í uppvextinum og sem fullorðið fólk.

Við höfum fengið sérstakt Barnamálaráðuneyti og ráðherra sem hefur sýnt frumkvæði og beitt sér á fjölþættum sviðum til að styðja við börn og þá sem næst þeim standa.

Mikilvægi leikskólanna 

Rannsóknir sýna að einmitt leikskólaaldurinn er afar mikilvægur. Þar geti ráðist að stórum hluta velferð barna síðar meir á lífsleiðinni.

Í "Lífskjarasamningnum" átti einmitt að horfa til fleiri þátta í samfélaginu en prósentuhækkunar og hindra "höfrungahlaup" hæst launuðu stétta samfélagsins.

Þeir áttu líka að færa aukið réttlæti í kjörum, átak í húsnæðismálum, vaxtalækkun, nýjar áherslur og sérframlög til ýmissa velferðarmála, raunverulegur Lífskjarasamningur  með markmið sem þokkaleg sátt væri um.

Það að vita af börnunum sínum á góðum leikskóla með nægu starfsfólki, menntuðu og ánægðu með kjör sín og starfsskilyrði  eru grunnatriði lífskjara hvers samfélags.

Leikskólastarf er ekki bara "barnapössun" 

Mér finnst í umræðunni um kjaradeilu Eflingar og Reykjavíkurborgar vera  talað niður til starfsins á leikskólum og þá jafnframt litið framhjá mikilvægi þessara uppeldis og þroskastaða og þeirrar ábyrgðar sem lögð er á fólkið þar.

Það er eins og umræðan um menntun og þroska barna, snemmtæka íhlutun í stuðningi, áhrif þessa aldurskeiðs barna á síðari tíma velferð hafi algjörlega farið framhjá fólki þar á bæ og reyndar víðar í samfélaginu. Að hér sé aðeins um "barnapössun" að ræða.

Menntastofnun ungbarna í stað leikskóla.

Kannski þvælist nafngiftin "leikskóli", fyrir, að þar sé fólk bara að leika sér og starfið njóti þess vegna ekki þeirrar virðingar og ábyrgð ekki metin sem það verðskuldar og lög kveða á um.

Skiptum um nafn og köllum leikskólann  " Menntaskóli ungbarna"

Þetta á að mínu viti að vera grunnstef hjá þeim sem bera faglega og rekstralega ábyrgð á leikskólunum. Leikskólarnir þurfa að uppfylla væntingar samfélagsins til "Lífskjarasamningsins" svo sátt náist. Ef einn þáttur í því er að leiðrétta grunnlaun starfsfólks með ein lægstu laun á vinnumarkaði verður að gera það.

Góð menntun ungbarna eru forsenda "Lífskjarasamnings"  

Við skyldum nú ætla að áherslur Barnasáttmála, sjálfstæðan rétt barna og skyldur samfélagsins gagnvart börnum væri þá hugtök sem bæri mikið á í starfskjaramálum fólks á leikskólum.

En þar verða allir fyrir vonbrigðum. Engin minnist á aðbúnað  starfsfólks á forsendum barnanna. Leikskólarnir eru undirmannaðir, mikið álag á starfsfólk, veikindi og kulnun í starfi. Mér sýnist þurfa algjöra hugarfarsbreytingu í umræðunni um leikskóla og mikilvægi þeirra.

Öflugur Menntaskóli ungra barna með ánægðu starfsfólki er forsenda góðs Lífskjarasamnings


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband