Helga Vala og Þingvallafundurinn

 Helga Vala Helgadóttir alþingismaður hefur síðustu daga markað sér ákveðin spor sem framtíðarleiðtogi í íslenskum  stjórnmálum.

Með þeirri persónulegu ákvörðun að standa upp og víkja af hátíðarfundi Alþingis undir einum dagskrárlið var hún að fylgja sannfæringu sinni og kalli eigin hjarta.

Ég er enginn aðdáandi Samfylkingarinnar og finnst margt af því sem hún stendur fyrir til óþurftar í íslensku samfélagi. En ég ber virðingu fyrir því þegar þingmenn láta einlægan hug og hjarta ráða för. Til þess þarf líka kjark sem ekki öllum er gefinn eins og dæmin sanna.

Hvort tilefni Helgu Völu var viðeigandi eða ekki þá var þetta hennar persónulega ákvörðun.

Mér finnst sjálfum að ekki eigi að láta utanaðkomandi aðila taka til máls á formlegum þingfundi. Slíkt er ákveðið brot á þingvenjum og þinghelgi Alþingis og kemur málstaðnum ekkert við. Ræðustóll Alþingis á þingfundi er fyrir kjörna fulltrúa og ráðherra

Þá má einnig velta fyrir sér í hvers  umboði forseti Alþingis sendir eitthvert afsökunarbréf til Piu Kjærsgaard.

Væri það vilji þingsins að láta Piu eða einhverja aðra utanaðkomandi taka til máls á Þingvöllum  var hægt að gera það að loknum formlegum þingfundi. Hefði þá verið hægt bjóða til sérstaks hátíðarfundar með sjálfstæðri dagskrá.

Þessi hátíðarfundur á Þingvöllum fannst mér hinsvegar snúast miklu frekar um einstakar persónur en málefnið sjálft sem er endurheimt fullveldisins. Slíkt er mikið áhyggjuefni.

Fullveldisbaráttan er eilíf.

Hátíðarfundur Alþingis á Þingvöllum á að endurspegla baráttugleði og heitstrengingar um að gefa hvergi eftir, en sækja stöðugt fram undir fána frelsis sjálfstæðrar þjóðar til velsældar og mannréttinda hvarvetna í heiminum.


Íslenski fjárhundurinn á Þingvöllum

Það fór vel á að íslenski fjárhundurinn væri í aðalhlutverki á Þingvöllum í dag þegar fagnað var 100 ára fullveldi þjóðarinnar.

Þessi ljúfa, fallega og skynsama skepna hefur lifað með þjóðinni og þolað með henni bæði súrt og sætt í gegnum aldirnar.

Hve margar eru ekki sögurnar af því þegar tryggur hundur fann fjárhópinn fenntan eða smalaði honum saman í hríðarbyl. Hve oft fann ekki þetta trausta og gáfaða dýr leiðina heim í gegnum dimmviðri og vetrarmyrkur.  Heima á bænum var íslenski hundurinn hinn ljúfasti leikfélagi barna.

Í dag er einmitt dagur íslenska fjárhundsins.  Og Dorrit Moussaief er kannski orðin með íslenskra hjarta en mörg þeirra sem á eftir henni gengu í skrúðgöngunni á Þingvöll. Hún kann sitt fag.

Íslenski hundurinn er miklu skynsamari en svo að hann myndi nokkurntíma greiða atkvæði með beiðni um inngöngu í Evrópusambandið. Og ég er nær viss um að Dorrit myndi aldrei leggja ESB umsókn eða öðru framsali á fullveldi íslensku þjóðarinnar lið eins og því miður ýmsir gerðu vorið 2009.

Auðvitað er margur hugsi yfir, þegar hægt er að mæra fullveldið í öðru orðinu og greiða atkvæði gegn því í hinu. Sú framganga stjórnmálamanna er í raun enn  óuppgerð

Framundan er baráttan fyrir því  að viðhalda banni við innflutningi á hráu ófrosnu kjöti, verndun lýðheilsu og hollustu íslenskra matvæla. Hvernig mun þingið bregðast  við því?  

Orkutilskipun Evrópusambandsins bíður Alþingis en hún myndi þýða framsal á fullveldi okkar í stjórnun eigin orkuöflunar og orkudreifingar. Hvert ná fullveldisyfirlýsingar frá deginum í dag þá á Alþingi?  

Umsókn um aðild að Evrópusambandinu hefur enn ekki verið dregin formlega til baka.

Við fögnum fullveldinu og erum full þakklætis og virðingar gagnvart þeim sem unnu og báru þá kröfu fram til sigurs 1918. 

Við getum svo sem velt því fyrir okkur hversu mörgum af núverandi stjórnmálamönnum við myndum treysta til þess að bera þá fullveldiskröfu fram í dag af fullum heilindum. 

Það getur verið  mörgum heilladrjúgt í gegnum þann myrkvið  að fá leiðsögn íslenska fjárhundsins eins og í vetrarhríðunum forðum

En lengi má manninn reyna.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband