Viðskiptaráð vill selja Hóladómkirkju

Viðskiptaráð vill að ríkissjóður selji 22 kirkjur þar á meðal Hóladómkirkju.

"Ekkja stendur aldin kirkja, ein í túni fornra virkja, hver vill syngja, hver vill yrkja,  Hóladýrð, þinn erfisöng?"

kvað Matthías Jochumsson í kvæði sínu Skín við sólu Skagafjörður. Hóladómkirkja stendur nú ekki lengur ein á veluppbyggðum Hólastað.

Hömlulaus einkavæðing

Hömlulaus einkvæðing virðist nú tröllríða húsum stjórnaráðsins. Fyrrverandi talsmenn  og stjórnendur í Viðskiptaráði sitja nú á ráðherrastólum í mestu hægri ríkisstjórn Íslands frá Lýðveldisstofnun 1944. (Viðskiptaráð telur rétt að ríkissjóður selji 22 kirkjur - mbl.is)

 Hóladómkirkja er þjóðargersemi sem á sig sjálf

Staðreyndin hinsvegar er sú  sú að ríkissjóður getur hvorki gefið né selt Hóladómkirkju því hún á sig sjálf.

Þegar biskupsstóll á Hólum var lagður niður 1801 og danski kóngurinn lét selja allar eignir Hólastóls var Hóladómkirkja undanskilin. Kóngur vildi ekki leggja það á neinn hvorki sóknina né aðra að taka að sér ábyrgð á rekstri og viðhaldi kirkjunnar.

Kirkjan mætti standa kóngi að meinalausu en hún væri engra eign. Hreppsbúum væri heimilt að rífa hana og nota efnið í aðra kirkju ef þeim sýndist svo.

Hugmyndir voru uppi um að reisa aðra minni kirkju, miðlægt í sókninni. Hólar lenda í mikilli niðurníðslu fyrstu áratugina eftir að stóllinn var lagður af og jörðin gekk á milli manna.

Hóladómkirkja í góðum höndum

Sem betur fór eignaðist séra Benedikt Vigfússon Hóla í Hjaltadal 1824 ,en hann var einn ríkasti maður landsins. Bendikt húsaði Hóla í Hjaltadal upp og þar með dómkirkjuna og gerði staðinn að einu mesta stórbýli landsins á ný.

Um 1860 sótti Benedikt um stuðning Alþingis til viðhalds Hóladómkirkju og að hún fengi fasta fjárveitingu því hún hefði verið svipt öllum eigum sínum bótalaust. Eyjan Drangey og tekjur af henni var t.d. bókfærð séreign Hóladómkirkju um 1800.

Tekist var á um eignarhald Hóladómkirkja á Alþingi.

 Eftir mikið málavafstur á Alþingi um miðja 19.öld og tvennar milliþinganefndir varð niðurstaðan sú að Alþingi hafnaði eigendaábyrgð á dómkirkjunni en gat ekki kveðið upp úr um hver ætti hana.

Til þess  að fá úr skorið með eignarhaldið  taldi Alþingi að reka yrði sérstakt dómsmál. Þangað til sú niðurstaða fengist bæri eigandi Hóla á hverjum tíma ábyrgð á viðhaldi og rekstri Hóladómkirkju.

Í bréfi  Benedikts til Alþingis segist hann reiðubúinn að bera ábyrgð á kirkjunni um sinn dag en vildi tryggja framtíð hennar, þessa eins  mesta menningarverðmætis þjóðarinnar.

Hóladómkirkja er þjóðarstolt

  Þegar Skagafjarðarsýsla keypti Hóla og stofnaði þar Bændaskóla 1882 tók hún jafnframt ábyrgð á dómkirkjunni með reisn og síðar allt Norðuramtið.

 Þegar ríkið eignaðist Hóla í Hjaltadal 1907 yfirtók það jafnframt ábyrgð á Hóladómkirkju í samræmi við álit Alþingis, en hefur aldrei haft heimild til að eignfæra sér hana.

Hóladómkirkja fékk hinsvegar sérstaka fjárveitingu á fjárlögum til reksturs og viðhalds sem sjálfstæð stofnun. Þannig var það meðan ég var á Hólum

Segja má að Hóladómkirkja eigi sig sjálf, en eigandi jarðarinnar Hóla sem er ríkissjóður beri ábyrgð á dómkirkjunni.

Hóladómkirkja, saga hennar og munir eru ein mestu gersemi þjóðarinnar sem ríkisjóður og Alþingi eiga að bera beina ábyrgð á.

Einkavæðingargræðgi Viðskiptaráðs

Áhugi Viðskiptaráðs á því að einkvæða og selja guðdóminn og helstu menningarverðmæti þjóðarinnar  hefur því sett græðgina í nýjar hæðir á þeim bæ.

Þótt Þjóðkirkjan  og vígslubiskup á Hólum fari eðlilega  með helgihald dómkirkjunar og formennsku Hólanefndar sem annast umsjá kirkjunnar, þá er dómkirkjan sem slík og munir hennar beint á fjárhagslegri ábyrgð ríkissóðs - þjóðarinnar allrar og mikilvægt að svo verði áfram. 

Hingað og ekki lengra

Jóni Arasyni myndi hafa blöskrað slíkur aumingjaskapur sjálfstæðra stjórnvalda ef þau teldu sig ekki geta borið beina ábyrgð á sjálfri Hóladómkirkju.  Viðskiptaráði myndi hann öruggalega hafa sent tilheyrandi kveðling og:

"og dreifði þeim um flæðar og flaustur - með bauki og bramli" eins og segir í einni vísu hans. Nú er komið nóg hjá einkvæðingarapparatinu.

 

 


Um ráðherrakapla

Það er svo skondið að heyra fyrrverandi og núverandi stjórnar og stjórnarandstöðu- þingmenn takast á um skipan ráðuneyta og fjölda ráðherra:( „Báknið byggt upp“ )

Svo lengi sem ég man eftir hefur ráðherrum verið fjölgað eða fækkað allt eftir því hvað þarf að koma mörgum fyrir eða koma í veg fyrir að einhverjir verði ráðherrar, sem forystumenn flokka töldu sér erfiða.

Allar uppstokkanir og breytingar á ráðuneytum hafa reynst miklu dýrari en menn þóttust gera ráð fyrir, enda markmið þeirra allt annað en sparnaður.

Umhverfisráðuneytið var stofnað á sínum tíma til að koma Júlíusi Sólnes í ráðherra stól og tryggja aðkomu Borgaraflokksins að ríkisstjórn. Það var svo sem farsæl ákvörðun.

 Þegar ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna var stofnuð 2009 voru teknir inn utanþingsráðherrar undir því falska flaggi að verið væri að breikka ásýnd ríkisstjórnarinnar.

Staðreyndin var hinsvegar sú að verið var að koma í veg fyrir að ákveðnir þingmenn stjórnarflokkanna tækju sæti í ríkisstjórn. Þar sem þeir voru ekki þingmenn jókst heildar launakostnaður stjórnsýslunnar sem nam launum þeirra.

 Utanþingsráðherrar eru án pólitískrar ábyrgðar, embættismenn sem formenn flokkanna öxluðu ábyrgð á og völdu sér til að geta sagt fyrir verkum.

Þeir urðu hinsvegar að fara þegar  "ráðherra Kúbu norðursins" stóð frammi fyrir vantrausti og  hinn ráðherrann  var óþægur og vildi ekki fækka sýslumönnum og lögreglumönnum á landsbyggðinni og skera niður löggæsluna eins mikið og krafist var. Um þetta var tekist á um í ríkisstjórn.

Það var engin kostnaðargreining sem sýndi sparnað við að leggja niður sjávarútvegs og landbúnarráðuneytið eða efnahags og viðskiptaráðuneytið, heldur var það pólitísk aðgerð til að þóknast ESB umsókninni. Hin meginástæðan var sú að losna þurfti við ákveðna menn úr ríkisstjórn og þess vegna þurfti að leggja ráðuneytin niður.

 Enda var þeirri breytingu á ráðherraskipan sérstaklega fagnað af Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins í skýrslu tengdri framvindu aðlögunarferlis Íslands að Evrópusambandinu á sínum tíma.

En sjálfstætt sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti var ESB sinnum hér á landi og hjá ESB mikill þyrnir í augum og þess vegna þurfti að leggja það niður. Hinsvegar var það strax endurreist af næstu ríkisstjórn.

Fjölgun ráðherra  nú er til að leysa vanda þriggja flokka ríkisstjórnar og koma sem flestum einstaklingum í ráðherrastóla af ýmsum skiljanlegum ástæðum og halda öðrum utanvið. 

Reyndar er ég hlynntur fjölgun ráðherra og tel að þeir eigi jafnframt að vera þingmenn og bera ábyrgð gangvart þinginu.

Embættismannaveldi stjórnsýslunnar er þegar orðið alltof mikið og veikir ráðherrar sem sjá ekki útyfir málflokkinn verða kerfinu auðveld bráð.

Hugmyndin um að forsætisráðherra skipaði aðra ráðherra í ríkisstjórn og þeir störfuðu í umboði forsætisráðherra en ekki þingsins fannst mér alveg fráleit.

En slíkri skipan var reynt að koma á í þeirri ríkisstjórn sem ég sat í.

Ég og fleiri lögðumst hart gegn slíku auknu forsætisráðherraræði sem tröllreið húsum í ríkisstjórn á þeim tíma.

Menn geta svo sem tekist á um ráðherraskipan og fjölda ráðherra en þá er mikilvægt að það sé gert á sönnum forsendum, muna söguna og kalla hlutina réttum nöfnum


"Með tilheyrandi plotti"

Fyrrverandi forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson vísaði til orða formanns Viðreisnar, Bendikts Jóhannessonar um "viðeigandi plott" við myndun þessarar ríkisstjórnar.

En á fésbókarsíðu sinni segir Benedikt frá upplifun sinni á   fyrsta ríkisstjórnarfundi hins nýja fjármálaráðherra:

 "Mér varð hugsað til þess hvort maður væri ekki lentur í vitlausu leikriti. Nú sátum við þarna við endann, Guðni Th. og ég, rúmlega átta mánuðum eftir að ég spjallaði við hann og hvatti til forsetaframboðs með tilheyrandi plotti. Þá hafði hvorugur okkar nokkru sinni boðið sig fram til opinbers embættis. Svona er þetta líf skrítið".

Já svona er lífið skrýtið

Formaður nýs flokks, Viðreisnar sem stofnaður var til þess að framselja fullveldið, ganga í ESB og taka upp Evru er orðinn fjármálaráðherra Lýðveldisins Íslands.

Benedikt er þekktur fyrir að orða hlutina beint út og gamalreyndur í brögðum viðskiptalífsins. 

Plott ríkisstjórnin getur orðið nafngiftin.

 

 


Unnur Brá og forsetastóllinn á Alþingi

Sérstök ástæða er til að óska Unni Brá Konráðsdóttur til hamingju með að verða næsti forseti Alþingis.

Unnur brá hefur sýnt af sér skörungsskap og sjálfstæði í störfum  á  Alþingi og gengið þvert á ímynd  margra annarra  í pólitík sem fara eftir vindáttinni hverju sinni eða ruglast í "tímaplaninu" sínu eins og nýr forsætisráðherra orðar það.

 Í ýmsum grundvallarmálum hefur hún fylgt sannfæringu sinni í afgreiðslu mála sem ekki var endilega í takt við það sem þingflokkur hennar lagði upp með og  hún jafnvel goldið þess.

Unnur Brá er einörð andstæðingur umsóknar og inngöngu Íslands í ESB og hefur ávalt verið hægt að treysta á hana í fullveldis og sjálfsstæðismálum þjóðarinnar.  

Við eldgosið í Eyjafjallajökli stóð Unnur Brá þétt með íbúunum á vettvangi. Því kynntist ég vel sem landbúnaðarráðherra á þeim tíma.

Þótt ég sé síður en svo  sammála Unni Brá pólitískt er mjög vel hægt að bera virðingu fyrir þingmönnum sem hafa einurð til þess  að standa með sjálfum sér.  


Árnaðaróskir til nýrrar ríkisstjórnar

Nýjum ráðherrum og ríkisstjórn Íslands er óskað farsældar í starfi.

Þess er jafnframt vænst að ráðherrarnir verði trúir landi sínu og þjóð og standi vörð um grunngildi lýðveldisins, sjálfstæði og sjálfforræði íslensku þjóðarinnar yfir auðlindum sínum  til lands og sjávar, sem og  menningu hennar og fjölþættum þjóðarauð.

Þess er vænst að þegar til ábyrgðarinnar kemur munu ráðherrarnir allir átta sig á hvað er þýðingarmest í lífi og starfi sjálfstæðar þjóðar og leikur að eldi í þeim efnum getur leitt til stórbruna.

Mikilvægt er að landsmenn verði ávalt á varðbergi, styðji og hvetji ríkisstjórn og einstaka ráðherra til góðra verka en og haldi þeim þétt við efnið um að efla og standa vörð um velferð þjóðarinnar og fullveldi.

Sjálfsstæði þjóðar er hennar dýrasta auðlind 


Landbúnaðar og sjávarútvegsráðuneytið í hendur Evrópustofu

Viðreisn hefur sem sitt meginmarkmið að koma Íslandi í Evrópusambandið. Það var tilgangurinn með stofnun Viðreisnar. Klauf það lið sig út úr Sjálfstæðisflokknum vegna þess að þeim fannst sum þar i forystunni  of lin í að ganga erinda ESB hér á landi. Sjávarútvegs- og landbúnaðrráðuneytið hefur verið í raun útvörður stjórnsýslunnar gegn aðlögunar og innlimunarferlinu í ESB.Utanríkisráðuneytið var löngu fallið í hendur ESB sinna.

Evrópustofa með ráðherrastólana

Flestir þingmenn Viðreisnar eru fyrrerandi forstöðumenn eða starfsmenn Evrópustofu og samtaka ESB hér á landa. Evrópustofa hafði það að markmiði að stýra Íslandi inn í ESB, kortleggja hvaða stofnanir, einstaklinga og félagasamtök þyrfti að ná á sitt band. Að því hefur skipulega verið unnið  með glæstum árangri því miður:   Kannski verður formaður Já Ísland  samtakanna fyrir inngöngu í ESB nýr Sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra.

Ég held að mörg þau sem kusu Sjálfstæðisflokkinn síðast myndu hafa hugsað sig tvisvar um ef þau vissu að þar með væri verið að kjósa yfir sig hreina ESB ríkisstjórn.

ESB sinnar hefna sín á Haraldi Ben

Fyrrverandi formaður Bændasamtaka Íslands og nú fyrsti þingmaður Norðvesturkjördæmis myndi ekki hafa riðið til þings með þrjá þingmenn ef kjósendur hans hefðu vitað af því að þessi staða væri í vændum.

Haraldur Benediktsson var einn öflugasti baráttumaður gegn aðlögunar og innlimunarferlinu í ESB og átti stóran þátt í að sú umsókn var stöðvuð. Það þekki ég vel sem ráðherra málaflokksins á þeim tíma.

Fyrrverandi formanni Bændasamtakanna og einum stærsta sigurvegara Sjálfstæðisflokksins í síðustu kosningum er hafnað sem ráðherra landbúnaðarmála.

Það eru skýr skilaboð um það sem í vændum er af hálfu þessarar ESB stjórnar


Þegar ráðherra segir ósatt

Tímalínan í svörum mínum voru ónákvæm og ég biðst afsökunar á því. Þetta sagði verðandi forsætisráðherra þegar hann afsakaði bein ósannindi í meðferð á skýrslu fjármálaráðherra um aflandseignir Íslendinga í skattaskjólum.

Skýrslan hafði verið á borði ráðherra síðan í september. Sitjandi þing er að störfum allt til þess er nýtt hefur verið kosið og hægt að bera mál fram og kynna fyrir þingnefndum.

Uphafleg dagsetning skýrslunar var afmáð fyrir "mistök"  af einhverjum starfsmanni ráðneytisinsDagsetning skýrslunnar afmáð fyrir mistök. ruv.is

Að kenna starfsmönnum sínum um eigin mistök eru aumlegustu afsakanir nokkurs manns. Kannski hefur ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins hringt til að fylgja boðum eftir eins og hann er þekktur fyrir.

Annir í framboðsmálum leysa ráðherra ekki undan starfskyldum sínum sem formaður Sjálfstæðisflokksins þó reyndi að bera við.

Fór ekki Sigmundur Davíð fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins  líka eitthvað "ónákvæmt með tímalínu" í  frásögnum um aflandsfélög sín?.

Sú "ónákvæmni" var þá  kölluð ósannindi forsætisráðherra og hann knúinn til afsagnar.

 Samstarfsmenn hans í ríkisstjórn boðuðu til kosninga fyrr en ella til að bæta fyrir þau meintu ósannindi félaga síns. 

 Hvað svo sem manni finnst um gjörðir ráðherra á hverjum tíma má hann undir engum kringumstæðum segja opinberlega ósatt.

Né heldur má hann liggja undir grun um að  víkja sér undan sannleikanum eða hagræða og það gegn betri vitund.

Hanna Birna varð að axla ábyrgð í þeim efnum og segja af sér sem ráðherra. Það passaði flokknum vel að fórna henni.

Sömu voru örlög Sigmundar Davíðs forsætisráðherra. Félagar hans í ríkisstjórn voru sammála um að honum yrði að fórna til að ná sjálfir gloríunni af árangri ríkisstjórnarinnar. 

Það er nefnilega ekki sama Jón og séra Jón í þessum efnum.

- Í Sigmundi Davíð væri mikið blóð sem gæti jafnvel runnið fyrir marga aðra. Fórn Sigmundar gat dregið athyglina frá mörgum öðrum sem siglt gætu lygnan sjó m.a. í kosningabaráttunni.

  Þetta er þekkt aðferð í viðskiptalífi og pólitík.

   Forystumenn í þeirri  ríkisstjórn  sem ég sat í á sínum tíma lágu undir ámæli um  ósannindi og fara "ónákvæmlega" með sannleikann og "tímalínuna" í sínum embættisgjörðum og komust upp með það.

Sumum passar að fórna en aðrir vilja eiga inneign á syndakvittunarlistanum. Það gæti komið að þeim síðar. Samtryggingin ver sig i pólitík eins og annarsstaðar.

Siðferðislegar skyldur og að axla ábyrgð á orðum sínum og gjörðum hér á landi virðast með allt öðrum hætti en í mörgum nágrannaríkjum okkar.

 Og einstaka þingmenn snúa við blaðinu í eigin samvisku eftir því hvernig vindurinn blæs að morgni. Þess munu sjást merki á næstu dögum

Formaður Bjartar framtíðar krafðist  t.d. afsagnar ríkisstjórnar og nýrra kosninga vegna spillingamála og meintra ósanninda ráðhera ríkisstjórnarinnar sl. vor.

 Nú eru víst breyttir tímar og Óttar Proppe þarf ekki að fylgja sömu siðferðiskröfum  nú og þá, enda hann sjálfur kominn að kötlunum

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband