Brexit- tíðindi ársins

Þjóðaratkvæðagreiðsla og úrsögn Breta úr ESB eru vafalaust ein stærstu tíðindi ársins í okkar heimshluta. Það gerði breska þjóðin þvert á hótanir embættismannavaldsins og stofnankerfisins innan ESB.  

Áform Evrópusambandsins um stofnun sambandsríkis Evrópu hefur því riðlast varanlega á árinu.

Mér verður hugsað til vorsins 2009 þegar forystumenn ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur lögðu ofurkapp á að koma Íslandi inn í Evrópusambandið.

Þar voru um að ræða ein stærstu svik og  ógæfu spor sem íslensk stjórnvöld hafa stigið á fullveldistíma þjóðarinnar.  

Umsókn um inngöngu var send án raunverulegs meirihluta stuðnings alþingis og þvert á gefin fyrirheit við þá nýafstaðnar kosningar.

Ekki var talið óhætt að spyrja þjóðina fyrirfram hvort hún yfir höfuð vildi ganga í sambandið, það gæti komið vitlaus niðurstaða.

Sem betur fór tókst að stöðva umsóknina að ESB áður en verulegt tjón hlaust af. Harkan af hálfu ESB aðildarsinna var hinsvegar gífurleg.

Við sem vorum þá í þeirri eldlínu vitum hversu tæpt baráttan um það stóð. 

Það kom aldrei til greina af minni hálfu sem sjávarútvegsráðherra að gefa forræði fiskimiðanna við Ísland eftir til Brüssel. En það var ófrávíkjanlega krafa ESB frá fyrsta degi enda hluti af markmiðum þess að ná Íslandi þar inn.

Furðulegt er að enn skuli vera til þeir flokkar og stjórnmálamenn á Íslandi sem vilja taka upp að nýju vegferðina inn í Evrópusambandið. 

Sjálfstæðið er sívirk auðlind var er titill á bók Ragnars Arnalds fyrir fullveldi þjóðarinnar gegn aðild að ESB 

"Þú mátt aldrei selja það úr hendi þér" sagði þjóðskáldið Guðmundur Böðvarsson í kvæðinu Fylgd:

..."En þú átt að muna 

alla tilveruna,
að þetta land á þig".

"Ef að illar vættir
inn um myrkragættir
bjóða svikasættir
svo sem löngum ber
við í heimi hér,
þá er ei þörf að velja,
þú mátt aldrei selja
það úr hendi þér".

Megi íslenska þjóðin verja og njóta sjálfstæðis síns og fullveldis um ókomin ár. Gleðilegt nýtt ár


Hæstiréttur á skilorði til áramóta

Hæstiréttur ætlar að birta opinberlega upplýsingar um hagsmunatengsl dómara frá og með 1. jan 2017.

Upplýsingarnar miðast við hagsmunatengslin á þeim degi. Hversvegna í ósköpunum er ekki hægt að birta þessar upplýsingar strax í dag ef þykir nauðsynlegt að bregðast við kröfu um gegnsæi.

Hvers vegna þarf að gefa frest í svona máli sem lýtur að hæfi og upplýsingagjöf um hæstraréttardómara?

Hæstaréttardómarar eru hluti af æðstu stjórn Lýðveldisins en eru hinsvegar ekki kosnir af þjóðinni eins og þingmenn og forseti.

Hversvegna þarf nokkurra vikna  biðtíma á opinberun þessara sjálfsögðu upplýsinga?

Þarf að fá svigrúm til að koma eignum fyrir?

 Eru einhverjir dómarar að hætta um áramót?

Það er lofsvert og sjálfsagt að gefa upp hugsanleg  hagsmunatengsl hæstaréttardómara refjalaust, en að þurfa að draga það í nokkrar vikur vekur óneitanlega tortryggni sem óþarfi er að bjóða upp á. Hæstiréttur birtir hagsmunatengsl

Hér er birt kafli úr frétt mbl í gær um málið

"Hæstirétt­ur ætl­ar að gera upp­lýs­ing­ar um hags­muna­tengsl hæsta­rétt­ar­dóm­ara aðgengi­leg á heimasíðu dóm­stóls­ins frá árs­byrj­un 2017. Þær upp­lýs­ing­ar sem verða birt­ar eru auka­störf dóm­ara, fast­eign­ir í eigu dóm­ara sem ætlaðar eru til ann­ars en eig­in nota, eign­ar­hlut­ar í hvers kyns fé­lög­um, all­ar skuld­ir dóm­ara sem ekki tengj­ast öfl­un fast­eigna til eig­in nota og aðild að fé­lög­um sem ekki starfa með fjár­hags­legu mark­miði. Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu frá Hæsta­rétti.

Upp­lýs­ing­ar þess­ar munu miðast við stöðu í árs­byrj­un 2017 og verða þær fram­veg­is upp­færðar jafnskjótt og til­efni er til. Telji aðilar að ein­stök­um dóms­mál­um sig þurfa að fá til­greind­ar upp­lýs­ing­ar um eitt­hvert áður­greindra atriða á til­teknu fyrra tíma­marki varðandi dóm­ara í mál­um þeirra geta þeir beint fyr­ir­spurn um það til Hæsta­rétt­ar, seg­ir jafn­framt í til­kynn­ing­unni".

Hvers vegna í ósköpunum er ekki hægt að gefa þessar upplýsingar strax í dag. Hæstiréttur birtir hagsmunatengsl


Pólitíkin bítur í skottið á sér

Hversvegna var boðað til kosninga í haust rúmu hálfu ári áður en ganga átti til reglulegra alþingiskosninga samkvæmt stjórnarskrá? Hvað rak menn til þá. Hvergi sést á það minnst í núverandi stjórnarmyndunarviðræðum. 

Hverjir stóðu eins og illa gerðir hlutir í tröppum Alþingishússins í vor og lofuðu kosningum bara ef þeir fengju að vera í friði í þrjá mánuði í viðbót.

Og hverjir dauðsáu strax eftir því að hafa heimtað kosningar, krafa sem þeir vonuðu að ekkert mark væri tekið á?

Ef kosningar voru brýnar í vor átti að ganga til þeirra strax en ekki eftir nokkra mánuði.

Hver er mest vanhæfur

Þáverandi formaður Framsóknarflokksins, sem allt veður var gert út af hafði þegar sagt af sér sem forsætisráðherra.

Vantraust á ríkisstjórnina hafði verið fellt á Alþingi.

Til hvers átti þá að grípa til neyðarákvæða stjórnarskrárinnar og ganga til kosninga áður en kjörtímabilið væri útrunnið.

Í landinu sat lýðræðiskjörin meirihlutastjórn, hvorki eldgos né drepsóttir kölluðu á kosningar þótt margir hafi verið óánægðir með sitjandi ríkisstjórn og gjörðir hennar.

Var ekki heimtað kosningar út af spillingu, vanhæfni og hagsmunatengslum forystumanna í stjórnmálum: Að menn sætu beggja megin borðsins við að útkljá stór mál og ráðstafa eignum ríkisins og sjóðum almennings. Enginn hefur þó verið ákærður. 

Hver er mest hagsmunatengdur

Nú velta menn því fyrir sér hvort ýmsir aðrir í forystu ríkisapparatsins, t.d. dómstólanna, lífeyrissjóðanna og stjórnmálanna séu eitthvað meira eða minna hagsmunatengdir en Sigmundur Davíð var talinn vera og knúinn til að segja af sér.

Er forystulið annarra flokka hvítþvegið frá hagsmunatengslum? Hversvegna var gripið til neyðarúrræðis stjórnarskrárinnar og boðað til kosninga?

Þessu þurfa forystumenn á Alþingi nú að svara áður en lengra er haldið.

Hvers vegna var kosið í haust

 Mig minnir að fyrrverandi forseti Ólafur Ragnar Grímsson  hafi endurskoðað afstöðu sína til þess að hætta og ákveðið að bjóða sig fram aftur vegna óvissu í stjórnmálum og óróa í samfélaginu.

 Núverandi forseti lýsti leiknum í beinni útsendingu á Rúv í vor og getur í sjálfu sér gert enn.

Gott ef Ólafur Ragnar sagði ekki síðan að mótmælin á Austurvelli hefðu hætt þegar hann tilkynnti að hann byði sig aftur fram. Engin mótmæli voru hinsvegar þegar hann aftur ákvað að hætta og dró framboð sitt til baka.

Nú hafa fjölmiðlar helst fóður í að Sigmundur Davíð bjóði framsóknarfólki í kaffi á Akureyri í tilefni af 100 ára afmæli Framsóknarflokksins.

Að kenna öðrum um

Forystumenn flokkanna sem heimtuðu eða lofuðu kosningum í haust verða nú að svara hver fyrir sig  hvers vegna.

Hvers vegna var kosningum flýtt um hálft ár þvert gegn  meginákvæði stjórnarskrárinnar um fjögra ára kjörtímabil?

 Það þýðir ekki stöðugt að benda á Sigmund Davíð sem orsök - hann sagði af sér sem forsætisráðherra.  

Gamalt máltæki segir :

"Þurrkaðu ekki á þér þegar annar stendur hjá þér".  

Var það kannski ástæða og tilefni kosninganna í haust?

 


Um fall og endurreisn

Hæstiréttur og Dómarafélagið hafa hvorki Árna Helgason né Ólaf Hauk Árnason, því miður.   

Mér er enn í fersku minni þegar endurreisa þurfti stóran hóp  félagsmanna í Barnastúkunni Björk nr. 94 í Stykkishólmi.

 Þetta mun hafa verið á árunum fyrir 1960.

Árni Helgason símstöðvarstjóri, húmoristi og stórstúkumaður stjórnaði öllu stúkustarfi af miklum krafti og skörungsskap. Barnastúkan Björk  er stofnuð 1927 og  var deildaskipt, við í unglingadeildum bárum ábyrgð á starfi stúkunnar fyrir eldri bekkina.

Stúkan og allur félagsskapur og fjölbreytt menningarstarf í kringum hana er einn sá besti skóli sem ég hef tekið þátt í. Hún hélt utan um einstaklingana og hópinn og ræktaði ábyrgð og  félagsanda ásamt samfélaginu öllu. 

Þá var skólastjóri í Stykkishólmi Ólafur Haukur Árnason, skagfirðingur og mikill skólamaður.

Ólafur Haukur varð síðar áfengisvarnarráðunautur ríkisins og stórstúkuleiðtogi

Að sjálfsögðu var bannað að reykja bæði í stúkunni og skólanum. Gilti það hvar sem til sást. Og ekkert fikt í þeim efnum leyfilegt. Siðareglur stúkunnar voru skýrar og öllum ljósar.

Allt í einu kvisaðist frá einhverjum „fjölmiðlamanni“ eða "rannsóknablaðamanni" á staðnum á þeim tíma að sést hefði til nokkurra krakka vera að fikta  með sígarettur í eyðiskúr á staðnum.

 Þessi orðrómur barst skólastjóranum sem ákvað að taka strax fast á hlutunum. 

Ólafur Haukur af sinni alkunnu stjórnsemi gekk inn í hverja kennslustofu í unglingadeildinni og sagði að sést hefði til nokkurra unglinga vera að reykja. Eins og allir vissu væri það alveg bannað.

Ólafur Haukur vildi ekki tilgreina hverjir það væru, en bauð þeim sem teldu sig seka í málinu að koma upp á skrifstofu til sín á eftir og biðjast afsökunar og lofa bót og betrun.

Þar með væri það mál búið. 

Og nú hófst atburðarrás sem enginn sá fyrir. 

Gangarnir og stiginn að skrifstofu skólastjóra fylltust af nemendum sem töldu þörf á að biðjast afsökunar og fá syndakvittun hjá skólastjóra.

 Þá varð einnig uppi fótur og fit því það var líka bannað að reykja í barnastúkunni.

Heit og reglur stúkunnar voru skýr og öllum ljós.

Og ef menn féllu á heitum stúkunnar þurfti að "endurreisa" þá.

  Árni Helgason stúkuforingi í Stykkishólmi  var miklu klókari en Skúli Magnússon formaður Dómarfélagsins.

Árni var örugglega með allt sitt á þurru í þessum efnum.

Árni Helgsson byrjaði ekki á að formæla uppljóstranum eins og formaður Dómarafélagsins gerði, heldur undirbjó strax endurreisnarstarfið.

Aðeins æðstu embættismenn stúkunnar gátu veitt syndakvittun og "endurreist" hina föllnu félaga. 

Við Cesil Haraldsson nú sóknarprestur á Seyðisfirði vorum þá í forystu fyrir Barnastúkuna.

Hversu sanngjarnt sem það var, töldum við Cesil okkur ekki þurfa á fund skólastjóra. 

Árni Helgason hafði strax samband við okkur Cesil og var ákveðið að boða til stúkufundur þegar í stað um kvöldið. 

Á þeim stúkufundi gekk stór hópur unglingadeildar og félaga í Barnastúkunni Björk fyrir okkur Cesil með Árna Helgason við hlið, játuðu brot sín og báðust afsökunar á yfirsjón sinni að hafa fiktað með sígarettur.  Var var hópurinn allur endurreistur og stúkustarfið gekk áfram af fullum krafti og samfélagið allt  mjög sátt við skjóta úrlausn mála.

Dómarafélagið er greinilega ekki með höfðingja og andans mann eins og hinn þjóðfræga Árna Helgason stúkuleiðtoga  í Stykkishólmi. Árni Helgason er nú látinn, blessuð sé minning þess ágæta manns.

Hæstiréttur hefur heldur engan Ólaf Hauk Árnason til að ganga í stofur og minna á reglur.  En Ólafur Haukur er enn á lífi og örugglega til í slaginn.

Við Cesil Haraldsson sóknarprestur á Seyðisfirði höfum reynslu af hópendurreisn og gætum verið reiðubúnir að aðstoða Dómarafélagið og Hæstarétt ef til þarf að taka og menn telja sig þurfa að játa yfirsjónir sínar og veita syndakvittun gegn loforði um bót og betrun.

 

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband