Matthías Eggertsson fæddist í Hafnarfirði 19. júlí árið 1936. Hann lést á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund 24. apríl 2017.

Foreldrar hans voru Eggert, starfsmaður Flugfélags Íslands og kvæðamaður í Reykjavík, og Jóhanna, garðyrkjufræðingur og húsmóðir. Eggert var sonur Lofts Guðmundssonar, bónda og oddvita á Strönd í Meðallandi, og Guðfinnu Björnsdóttur, húsfreyju og ljósmóður. Jóhanna var dóttir Arnfinns Kristjáns M. Jónssonar, bónda í Lambadal og á Dröngum í Dýrafirði, og Ingibjargar Sigurlínadóttur húsfreyju. Systir Matthíasar er Guðbjörg, fyrrverandi ritari og húsmóðir, fædd 1939.

Þann 26. maí árið 1962 kvæntist Matthías Margréti Guðmundsdóttur kennara frá Sámsstöðum í Hvítársíðu. Börn þeirra eru: 1) Sigríður, f. 1965, sagnfræðingur, maki Jón Pálsson þýðandi, f. 1955. 2) Jóhann Eggert f. 1968, málarameistari, maki Þórhildur Halla Jónsdóttir, f. 1972, tónlistarkennari. Þau eiga þrjú börn: a) Ólafur, f. 2000, b) Kristín Gréta, f. 2003, c) Matthías Hallur, f. 2010. Jóhann á einnig soninn Alexander Örn, f. 1992. 3) Pétur Ólafur, f. 1970, hagfræðingur og bankastarfsmaður, maki Anna Eleonora Hansson, f. 1970, innanhússarkitekt. Þau eiga tvö börn: a) Hanna Margrét, f. 2004, b) Eva Sigríður, f. 2005.

Matthías ólst upp í Reykjavík en var í sveit á sumrin í Meðallandinu. Hann gekk í Austurbæjarskólann, Gagnfræðaskóla Austurbæjar og Menntaskólann í Reykjavík og útskrifaðist þaðan með stúdentspróf árið 1956. Hann stundaði nám í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands veturinn 1956-57. Árið 1958 lauk hann búfræðiprófi frá Bændaskólanum á Hólum í Hjaltadal. Árin 1958-61 stundaði hann nám við Landbúnaðarháskólann á Ási í Noregi og útskrifaðist þaðan sem búfræðikandídat. Var sérgrein hans á sviði jarðræktar.

Hann hóf störf árið 1962 sem tilraunastjóri við Tilraunastöðina á Skriðuklaustri í Fljótsdal og starfaði þar til 1971. Árin 1971-80 var hann kennari við Bændaskólann á Hólum í Hjaltadal. Þá var hann ritstjóri Búnaðarblaðsins Freys frá 1980-2007 eða þar til Freyr hætti að koma út. Eftir það ritaði hann greinar í Bændablaðið meðan heilsan leyfði. Hann var virkur í félagsmálum, var oddviti Fljótsdalshrepps og sýslunefndarmaður 1966-71 og formaður Búnaðarfélags Fljótsdalshrepps 1962-71. Hann sat í hreppsnefnd Hólahrepps 1974-80, var formaður skólanefndar grunnskólans á Hólum 1974-80 og formaður byggingarnefndar barnaskóla Hóla- og Viðvíkurhrepps er tekinn var í notkun 1977. Hann átti sæti í tilraunaráði landbúnaðarins 1965-69.

Matthías var afar ritfær og mikill áhugamaður um íslenska tungu. Auk ritstjórnarstarfa og greina í blöð og tímarit skrifaði hann kennslubækur í jarðrækt og búnaðarhagfræði og kennslubókina Áburðarfræði ásamt Magnúsi Óskarssyni 1978. Hann sá um og ritstýrði ýmsum sérritum landbúnaðarins. Þá var hann formaður ritnefndar að ritinu „Íslenskir búfræðikandídatar“ 1985. Ritstjóri Handbókar bænda var hann með hléum.