Sjálfstæðisflokkur í úlfakreppu

Bjarni Benediktsson hefur í hótunum við Framsóknarflokkinn en er sjálfur í mjög veikri stöðu og getur með tali sínu einangrað Sjálfstæðisflokkinn í íslenskri pólitík næstu árin.

Alþingi er kosið til fjögra ára í senn. Einungis brýnar breytingar á stjórnarskrá, langvarandi stjórnarkreppa eða pólitískt neyðarástand geta heimilað forseta Íslands, forsætisráðherra og Alþingi að rjúfa þing og boða til kosninga innan kjörtímabilsins.

Forsætisráðherra fer alls ekki einn með þingrofsheimildina heldur verður forseti lýðveldisins að samþykkja hana.

En áður en forseti getur samþykkt tillögu um þingrof verður hann að ganga úr skugga um að réttar forsendur samkvæmt stjórnarskrá séu fyrir hendi:

1. Að pólitískt ástand sé með þeim hætti innan þingsins að ekki sé hægt að mynda starfhæfa ríkisstjórn sem njóti stuðnings eða hlutleysis meirihluta alþingismanna.

2. Þá þarf forseti einnig að kanna möguleika á myndun utanþingsstjórnar til að fara með stjórnun landsins fram að næstu kosningum.

Samhljóða vilji aþingismanna um þingrof skiptir einnig máli við ákvörðun forsetans.

Þingrofsheimildin er ekkert leikfang

Stjórnarskráin og þingrofsheimildin er því ekkert leikfang eða "jójó" sem hægt er að spila á eftir geðþótta nokkurra mannna. Þingmenn eru kosnir til fjögra ára og það loforð gáfu þeir kjósendum sínum fyrir síðustu alþingiskosningar.

Hvað sem öðrum finnst nýtur núverandi ríkisstjórn  meirihlutastuðnings Alþingis. Hún stóð af sér vantrausttillögu seint sl. vor.

Unnið er samkvæmt stefnuskrá og stjórnarsáttmála sem Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur gerðu með sér og samþykktu eftir kosningarnar 2013. 

Framsóknarflokkurinn leggur nú áherslu á að ljúka þeim meginverkefnum sem hann telur sig hafa lofað fyrir síðustu alþingiskosningar og sátt var um við myndun ríkisstjórnarinnar. Formaður flokksins Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur undirstrikað að ríkisstjórnin beri ábyrgð á að þau loforð verði efnd áður en boðað er til kosninga og kjörtímabilið er útrunnið.

Úlfakreppa Sjálfstæðisflokksins

Formaður Sjálfstæðisflokksins Bjarni Benediktsson telur sig hinsvegar þurfa að efna óskýra yfirlýsingu sem hann persónulega gaf í fljótfærni í tröppum Alþingishússins í vor um haustkosningar frekar en að standa við málefnasamning ríkisstjórnarinnar.

En formaður Sjálfstæðisflokksins er í mikilli kreppu.  Forseti Íslands getur ekki samþykkt þingrofsheimild nema til þess sé a.m.k. meirihluti Alþingis og helst samstaða allra þingmanna.

Framsókn með öll tromp á hendi

Neiti Framsókn þingrofinu mun forsætisráðherra þeirra ekki bera upp slíka tillögu. Þá verður Sjáfstæðisflokkurinn að slíta stjórnarsamstarfinu og leita á náðir stjórnarandstöðunnar með myndun nýrrar stjórnar og nýs forsætisráðherra sem styðji þingrof.

Að slíta ríkistjórnarsamstarfi án málefnaágreinings er ekki stórmannlegt fyrir stærsta stjórnmálaflokk landsins.

Sjálfstæðisflokkurinn gæti einangrast 

Formenn stjórnarandstöðuflokkanna hafa með yfirlýsingu hafnað öllu samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. 

Ólíklegt er því að þeir leysi formann Sjálfstæðisflokksins úr þeirri snöru sem hann er kominn í enda mikil niðurlæging fyrir formann Sjálfstæðisflokksins að fara fram á slíkt.

Með því að slíta stjórnarsamstarfinu nú væri Sjálfstæðisflokkurinn að mála sig út í horn stjórnun landsmála næstu árin. Hálft ár til eða frá með kosningar skipta ekki miklu máli fyrir núverandi stjórnarandstöðuflokka og Framsóknarflokkurinn stendur þeim hvort eð nær t.d. í velferðarmálunum, bankamálum og gegn einkavæðingu almannaþjónustunnar.

Segja má því að Framsókn hafi öll tromp á hendi í þinginu þegar það kemur saman.

Fyrir alla flokka aðra en Pírata er auk þess vænlegra að bíða vorsins með kosningar eins og kjörtímabilið segir til um.

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband