Hvað er að gerast í tollamálum við ESB

Formaður Sjálfstæðisflokksins neitaði að skrifa upp á búvörusamninginn við bændur nema að tryggt væri að tollasamningurinn við ESB færi óbreyttur í gegnum þingið. Þessu hefði hann lofað stóru matvælainnflutningskeðjunum og ESB sinnunum í þingliði Sjálfstæðisflokksins.  Þetta sagði kunningi minn við mig í vikunni, bóndi sem ég veit að fylgist vel með málum. Mér krossbrá  við þessi orð hans  því tollasamningurinn  við ESB ef af verður jafngildir inngöngu í Evrópusambandið á skömmum  tíma hvað varðar stóran hluta landbúnaðar og  matvælavinnslu í landinu. 

Tollasamningurinn mun ekki aðeins verða rothögg á svína- og alifuglaframleiðslu í landinu og þá jafnframt á kjötvinnslu og margháttaða matvælavinnslu sem byggir á þessum kjöttegundum heldur einnig á verulegan  hluta mjólkuriðnaðarins, osta , súkkulaðiframleiðslu,  ísgerð ofl.  Þessi iðnaður og hráframleiðsla hans myndi  að  stórum hluta flytjast úr landi.

Innflutningsaðilarnir, verslunarkeðjurnar myndu að vísu mata krókinn en íslenskt atvinnulíf , landbúnaður og matvælaframleiðsla standa fátækari eftir.

Ég fann það að vísu á mér sem ráðherra að þau öfl sem vildu keyra okkur inn í Evrópusambandið myndu finna sér aðrar leiðir til að ná markmiðum sínum þótt umsóknin sjálf væri formlega stöðvuð. En mér kom á óvart hvað þetta gekk  fljótt með  landbúnaðinn og matvælaiðnaðinn. 

Og að þetta gerðist  hjá ráðherrum og  stjórnmálaflokkum sem börðust hvað harðast gegn ESB umsókninni, aðlögun og inngönguferlinu í tíð síðustu ríkisstjórnar er alveg ótrúlegt .

Hvernig ætli að því hefði verið tekið, ef ég sem landbúnaðarráðherra eða einhver krati hefði komið fram með slíkan uppgjafasamning fyrir íslenska matvælaframleiðslu eins og þessi ESB-tollasamningur er?

Þá hefði formaður Sjálfstæðisflokksins og forystumenn Framsóknar eðlilega ráðist að ríkisstjórninni af fullri hörku og brigslað mér sem ráðherra um svik við íslenska hagsmuni og undirlægjuhátt við ESB og taglhnýtinga þeirra.

Sem ráðherra hafnaði ég því alfarið  að undirgangast þessar kröfur ESB í landbúnaði og matvælavinnslu, en þess var krafist í aðlögunarferlinu að Evrópusambandinu.

Það er hinsvegar þekkt í gegnum tíðina að forystumenn félagasamtaka, sem eru nánir pólitískum flokkum vilja ógjarnan ganga gegn „sínum“ ráðherrum en veita hinsvegar pólitískum andstæðingum þeim mun meira aðhald ef þeir gerast ráðherrar.  Þessu fékk ég einmitt að kynnast sem ráðherra landbúnaðarmála í ESB viðræðunum og er þakklátur fyrir það samstarf sem átti stóran þátt í að stöðva ESB umsóknina.

Tollasamningurinn sem nú liggur á borðinu hefði þá aldrei komið til greina enda gengur hann í ýmsu lengra en ESB hefði nokkurn tíma dottið í hug að fara fram á.

Samkvæmt lögum ber að gera nákvæma kostnaðarúttekt og meta efnahagsleg og samfélagsáhrif af veigamiklum stjórnvaldsaðgerðum  áður en skrifað er undir þær.

 Þrátt fyrir margítrekaðar kröfur samtaka bænda og stéttarfélaga í matvælaiðnaði um slíka úttekt hefur það ekki verið gert varðandi umræddan tollasamning.

„Vífill Karlsson, hagfræðingur og lektor við Háskólann á Akureyri, hefur gert mat á áhrifum nýgerðra tollasamninga Íslands við Evrópusambandið á afkomu íslenskra bænda. Samkvæmt úttektinni mun þetta að meðaltali geta valdið allt að 16% tekjulækkun hjá íslenskum bændum.

Skrifað var undir samningsdrögin 17. september 2015. Samningurinn eykur innflutningskvóta á kjöti, unnum kjötvörum og ostum verulega frá því sem verið hefur. Kvótarnir eru að aukast um 180–400% og fer það eftir kjöttegundum. Er þessi aukning reyndar meiri ef unnar kjötvörur væru reiknaðar niður á kjöttegund. Þar verður langmesta aukningin á kvóta. Var kvótinn 150 tonn en verð- ur samkvæmt tollasamningnum 750 tonn. Er það 400% aukning.“ (Bændablaðið jan. 2016)

Búnaðarþing 2016 hefur formlega mótmælt harðlega tollasamningi við Evrópusambandið frá í haust. Segir Búnaðarþing að samningurinn sé ekki í samhengi við fyrirætlanir stjórnvalda um eflingu innlendrar matvælaframleiðslu“

Þennan tollasamning við ESB á að stöðva. Hann er í raun hluti af inngönguferlinu í ESB sem hefur verið hafnað. Brýnt er áður en lengra er haldið að gera ítarlega úttekt á áhrifum hans til lengri tíma á íslenskan landbúnað, matvælavinnslu, störf og þróunarmöguleika þessa iðnaðar hér á landi.

Eins og þessi samningur er núna gengur hann í berhögg við stefnu stjórnvalda í landbúnaðar- og matvælaframleiðslu þjóðarinnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband