ASÍ - ESB umsóknin - hrunið- skattaskjólin

Fluttar voru  hástemmdar ræður á alþjóðlegum baráttudegi Verkalýðsins í gær 1.Maí.

Eins og hefðbundið er voru þar fyrst og fremst gerðar kröfur á aðra einkum sitjandi stjórnvöld. Hinsvegar var lítið minnst á að forysta verkalýðshreyfingarinnar sjálfrar þyrfti að líta í eigin barm og gera upp hlut sinn í efnahagshruninu og aðdraganda þess og eftirköstum.

Ég minnist ályktana og krafna einstakra forystumanna ASÍ um tafarlausa umsókn og aðild að Evrópusambandinu. Gerð  var krafa um að ríkisstjórn fylgdi þeim leiðangri eftir af fullum þunga sem hluta af kjaraviðræðum.  Enn hefur sú stefna og þær kröfur ekki verið afturkallaðar.

Hefur forysta verkalýðshreyfingarinnar hafið innri skoðun á því hvort einhver í þeirra röðum eða fulltrúum þeirra í stjórnum sjóða, fyrirtækja og samtaka tengjast fjármagnsflutningum í aflandsfélög eða skattaskjól?

Kannski þarf hreyfingin sjálf að endurskoða sínar eigin samþykktir og verklag?

Þótt sjálfssagt sé að hrópa á aðgerðir núverandi ríkisstjórnar í þeim efnum þarf samstillt þjóðarátak til að ná fram breyttri siðgæðisvitund og uppgjöri hvað þessi mál varðar.

Forysta verkalýðshreyfingarinnar getur ekki spilað sig frítt í þeim efnum undir lófaklappi stjórnarandstöðu á hverjum tíma.

Lífeyrissjóðirnir eru orðnir sjálfstæð bákn í efnahags- og atvinnulífi landsmanna. Þeir eru oft stærstu eigendur í mörgum fyrirtækjum og eignarhaldsfélögum í landinu.

Þeir eru í mörgum tilvikum stærstu samningsaðilar atvinnurekenda við launþega um kaup og kjör.

Fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar sitja þar gjarnan beggja megin borðs til að semja um kaup og kjör.  Þar ná þeir vel samkomulagi um að hækka bæði framlög launþega og atvinnurekanda í lífeyrissjóðina sína. 

Ég hefði gjarnan viljað hafa heyrt, þó ekki væri nema hjá einum ræðumanna  að verkalýðshreyfingin þyrfti að fara í eigin naflaskoðun og gera upp það tvöfalda siðgæði sem birtist mörgum í störfum forystu hennar.

Það þarf að byggja upp traust og heiðarleika í samfélaginu ekki aðeins hjá stjórnvöldum og alþingi heldur einnig hjá samtökum atvinnurekenda og launafólks.  Það þýðir ekki að hver hrópi bara á annan og bíði eftir næsta kastljósþætti sjónvarps um hvaða einstaklingar verða nú næst dregnir upp.

Forysta verkalýðshreyfingarinnar getur ekki litið undan. Það hefði aðeins mátt minnast á ábyrgð hennar sjálfrar í barátturæðum og hátíðarhöldum á 1. Maí í gær.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband