Árni Steinar Jóhannsson

Árni SteinarHinn einlægi baráttumaður og góður félagi,  Árni Steinar Jóhannsson fyrrverandi alþingismaður, er látinn 62 ára að aldri.

Okkur vini hans slær hljóða, þó að við höfum vitað að barátta hans við illvígt krabbamein gæti endað á þann veg.

Í pólitísku samstarfi eignast maður fáa vini, en góða. Árni Steinar var einn slíkur. Glaðværðin, frásagnargáfan og einlægnin einkenndi þennan mikla höfðingja.

Betri ferðafélaga var vart hægt að hugsa sér. Ég minnist áranna sem við áttum saman á þingi 1999-2003. Hve oft tókum við ekki saman sennurnar á löngum þingfundum við andstæðingana á Alþingi og höfðum gaman af?! 

Árni var einstakur baráttumaður með mikinn sannfæringakraft, naut alþýðuhylli og það vissu allir að honum mátti treysta.

Hann naut  mikillar virðingar hvar sem hann fór, glæsilegur í fasi, flugmælskur og leiftrandi af kímni.

Vinsældir, stefnufesta og málafylgja geta líka kallað fram önnur viðbrögð og fór Árni Steinar ekki varhluta af því á pólitískum ferli sínum.

Eftirminnilegt er þegar honum var meinað að halda hátíðarræðu á Sjómannadaginn af  því að skoðanir hans í sjávarútvegsmálum féllu ekki að geði ráðandi manna á þeim tíma.

Árni Steinar gekk til liðs við Vinstrihreyfinguna grænt framboð 1999 og bauð sig fram í Norðurlandskjördæmi eystra og náði þar kjöri.

Hinar miklu vinsældir hans og málafylgja áttu verulegan þátt í að VG fékk kjörna menn á þing það ár og í upphafi ferils síns. Árni varð einn af forsetum Alþingis og átti stóran þátt í að móta stefnu og ásýnd Vinstri grænna fyrstu árin og vildi gjarna sjá mörg sín brýnustu mál ná sem best fram og verða að veruleika.

Hugur Árna Steinars stóð til áframhaldandi pólitísks starfs, sem hann hafði brennandi áhuga á.

Árni Steinar hafði áður staðið að stofnun Þjóðarflokksins 1987 og skorti örfá atkvæði til þess að hann næði kosningu 1991 fyrir þann flokk í Norðurlandskjördæmi eystra.

Árni Steinar var einlægur andstæðingur inngöngu  Íslands í Evrópusambandið.

Hann tók mjög nærri sér þegar ýmsir félagar hans og samherjar brugðust málstaðnum og forysta og hluti flokksins sem hann hafði barist með studdi umsóknina um inngöngu í Evrópusambandið vorið 2009.

Þjóðaratkvæði er okkar vopn

Í Morgunblaðinu 6. apríl 1991 birtist stutt viðtal við Árna Steinar Jóhannsson þá efsta manns á lista Þjóðarflokksins í Norðausturkjördæmi. Þar lýsir hann pólískri stefnu sinni og lífssýn sem hann var trúr til hins síðasta:

"Við teljum að sérstaða Íslands sé það mikil að aðild að Evrópusambandinu samrýmist ekki hagsmunum okkar. Við eigum að stunda verslun og viðskipti við aðrar þjóðir á eins hagstæðan hátt og unnt er.

Ég tel að þessi bandalög leiði alltaf til miðstýringar og að árið 2010 til 2030 muni menn slíta sig undan miðstýringarvaldinu í Brussel um alla Evrópu.

Hagræðingin við sameiningu gengur kannski í einn til tvo áratugi en síðan koma stöðnunareinkenni og hnignun sem leiða til þess að bandalög af þessu tagi leysast upp.

Sagði hann það stefnu Þjóðarflokksins að skapa mannlegra samfélag á grundvelli smæðarinnar. "Það er í litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem framsæknustu hugmyndirnar í framleiðslu og hugviti verða til," sagði Árni.

Með græna fingur

Árni Steinar var menntaður í garðyrkju frá Garðyrkjuskólanum að Reykjum og Landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn.

Hann var garðyrkjustjóri og síðar umhverfisstjóri Akureyrar frá 1979-1999 og mótaði hið græna, gróskumikla og hlýja yfirbragð sem bærinn nú ber. Síðar vann Árni þrekvirki sem umhverfisstjóri Fjarðarbyggðar 2008-2014 og hlaut sérstaka viðurkenningu fyrir árangur sinn þar.

Hugsjónir, einlægni og baráttugleði Árna Steinars Jóhannssonar verða okkur hvatning og vegvísir um ókomin ár.

Ég þakka Árna Steinari samferðina og geymi hlýjar og góðar minningar frá mörgum alvarlegum en einnig glaðværum stundum sem við áttum saman og nutum.

Ég sendi Valrós, móður Árna Steinars, og fjölskyldunni allri einlægar samúðarkveðjur. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband