Hin bognu hné ráðherranna

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar eru á fullu í aðlögun íslensks landbúnaðar og matvælavinnslu að kröfum ESB-aðildar og stórinnflutningsfyrirtækjanna.

Evrópusambandsumsóknin stendur, þótt henni sjálfri sé troðið tímabundið niður í skúffu 

 Eindregnar yfirlýsingar Framsóknarflokksins og heitstrengingar m.a.núverandi utanríkisráðherra og annarra þingmanna flokksins fyrir kosningar um afdráttarlausa afturköllun umsóknarinnar hafa í raun verið sviknar. Og utanríkisráðherrann hefur látið þvæla sér í fáránlegan stuðning við refsiaðgerðir ESB gegn Rússum sem fyrst og fremst bitna á okkur sjálfum, og áratuga góðum viðskiptum við þá.

Nýgerður tollasamningur við Evrópusambandið er af sama meiði og er eins konar innganga í Evrópusambandið um hliðardyr hvað landbúnað- og matvælavinnslu í landinu varðar.

Það er þeim mun furðulegara að þetta eru ráðherrar Framsóknarflokksins sem leiða þessa vegferð, flokksins sem hefur á stefnu sinni að standa með bændum og íslenskri matvælaframleiðslu og gegn aðlögun að ESB aðild.

Það sem tapast við svona aðgerðir verður ekki auðveldlega kallað til baka.

Og enn furðulegra er að forysta bænda og matvælavinnslunar í landinu stendur eins og lömuð hjá : Það má nefnilega ekki styggja "sína" menn í forystu ríkisstjórnarflokkanna.

Ég þekkti sem ráðherra viðlíka tillögur í tollaeftirgjöf í tengslum við  aðlögunarvinnuna að ESB og var þeim andvígur.

Ég veit líka að hefði ég staðið að slíkum tillögum sem ráðherra hefði bændaforystan og matvælavinnslufyrirtækin í landinu lagst á mig og mótmælt með miklum þunga, eðlilega.

Þessi tollasamningur er ekki orðinn að veruleika þótt svo sé látið. Það væri rothögg fyrir þróun fjölbreyttrar innlendrar matvælaframleiðslu ef hann næði óbreyttur fram að ganga. Heilbrigði íslensks búfjár væri stefnt í aukna hættu.

Það tókst að snúa til baka samningum um óheftan innflutning á hráum ófrosnum kjötvörum.

Ef vilji er til, þá er hægt að snúa þessum axarskaftasamningi við líka.

Kjósendur margir treystu Framsóknarflokknum við síðustu alþingiskosningar til að standa í lappirnar gagnvart Evrópusambandinu. Nú standa þeir ráðalausir frammi fyrir eftirgjöf og bognum hnjám ráðherranna sinna.

Þetta allt kemur mér því miður of kunnuglega fyrir sjónir

Flokksmenn Framsóknar verða að hafa þá döngun í sér og taka þessa ráðherra sína á beinið og krefjast þess að þeir standi við stefnu flokksins og kosningaloforð í þessum efnum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband