Svartur sjór af makríl í íslenskri lögsögu

Hátt í 40% alls makrílstofnsins í Norðaustur- Atlantshafi er innan íslenskrar fiskveiðilögsögu eð um 3 milljónir tonna. Þetta sýndu sameiginlegar mælingar Íslendinga Norðmanna, Færeyinga og Grænlendinga í leiðangri sem farinn var 1. júlí til 10 ágúst s.l. (Rúm­lega þriðjung­ur mak­ríls­ins í ís­lenskri lög­sögu)

Makrílveiðarnar skiptu sköpum fyrir  atvinnu og gjaldeyrisöflun þjóðarinnar.

Ég minnist þess sem ráðherra að á árunum 2009 til 2011 neitaði Evrópsambandið því að makríll væri í íslenskri lögsögu og hafnaði því að viðurkenna rétt Íslendinga til makrílveiða. Sá réttur fullvalda strandríkis var þó skýlaus samkvæmt alþjóðalögum.

 Ég minnist þess einnig  þegar Evrópusambandið tók sér lögregluvald  og rak fulltrúa okkar á dyr af sameiginlegum fundi strandríkja sem veiddu makríl.

Í samræmi við rétt fullvalda strandríkis  gaf ég þá út tilkynningu og reglugerð um að Ísland tæki sér 130 þús tonna makrílkvóta næsta fiskveiðiár 2011 sem var um 17% af heildarveiði makríls í Norður Atlantshafi. Fyrir árið 2012 ákvað ég sem ráðherra 148 þús.tonn.

Aðrar makrílveiðiþjóðir yrðu að taka hliðsjón af því við sínar ákvarðanir.

Var sú ákvörðun mín í samræmi við það magn makríls og ætlaðs  fæðunáms hans í íslenskri lögsögu. Makrílveiðarnar árin 2009 til 2014 hafa á fimm ára tímabili skilað þjóðarbúinu um 100 milljörðum króna gjaldeyristekna og áttu einn stærstan hlut í endureisn hagkerfisins eftir hrun.

 Evrópusambandið var engin góðgerðastofnun í samskiptum á þeim árum né virtu sjálfsákvörðunarrétt smáþjóða þegar þeir hótuðu víðtækum refsiaðgerðum og innflutningsbanni á fiskafurðir frá Íslandi. Samningarnir um inngöngu í Evrópusambandið strönduðu af þess hálfu m.a.á makrílnum.

Litlar rannsóknir höfðu þá verið stundaðar á göngu makríls í Norðurhöfum.  Lagði ég því fyrir Hafrannsóknastofnun að gera sérstakt átak í að meta útbreiðslu og magn makríls. Óskaði ég jafnframt eftir samstarfi við önnur makríllönd um þær rannsóknir. Eftir fund með sjávarútvegsráðherrum Færeyja og Grænlendinga komu þeir með í þær rannsóknir.

 Evrópusambandið hafnaði öllu samstarfi í makríl

Norðmenn og Evrópuambandið höfnuðu rannsóknasamstarfinu á þeim forsendum að það ætti enginn makríll að vera í Norðurhöfum. Eftir fund með sjávarútvegsráðherra Noregs komu Norðmenn með í þessar rannsóknir en Evrópusambandslöndin hafa hafnað slíku samstarfi.

Eftir að rannsóknir og mælingarstarf varð víðtækara og nákvæmara kom í ljós að heildar makrílstofninn var mun stærri en áður hafði verið talið.  Makríllinn var m.a. í umtalsverðu magni við strendur Grænlands.

Krafa ESB landanna um að þau ásamt Noregi ættu allan makrílinn var þeim mun fáránlegri sem meiri vitneskju var aflað.

Jón Guðmundsson lærði skrifar um "svartan sjó af makríl" fyrir Hornströndum( 1574- 1658)

Mælingar sýna að um 40% alls makrílsins er nú innan lögsögu Íslands en einungis tæp 6% innan lögsögu Evrópusambandsríkjanna á sama tíma. Við ættum að réttu lagi að auka hlutdeild okkar í makrílveiðum  verulega í samræmi við þær mælingar

Það voru unnin kraftaverk í makríl

Það sýnir gríðarlegan styrk íslenskrar útgerðar,sjómanna og fiskvinnslu að á örfáum misserum getur hún sveigt sig að veiðum og vinnslu á nýrri fisktegund í miklu magni.

Ákvarðanir mínar í góðu samstarfi við þessa aðila í stýringu veiða og vinnslu voru líka algjör nýmæli í fiskveiðistjórn sem skiptu miklu máli og væri betur að væri fylgt nú. Þá var flotinn nýttur og hver og einn fékk ákveðið tækifæri til að spreyta sig.

Og á þrem árum tókst að koma á um 90% fullvinnslu á um 150 þús tonnum af makríl til manneldis og finna þeim markað.

Þau þúsundir starfa sem tengdust fullvinnslu makríls bæði á landi og á sjó voru mjög dýrmæt sjávarbyggðunum vítt og breitt um landið sem og þjóðarbúinu í heild.

Skólafólk gat komið heim í sumarfrínu sínu og aflað dýrmætra tekna fyrir næsta skólaár.

Ísland byggir fullveldi sitt á eigin forræði, verndun og nýtingu gjöfulla náttúruauðlinda.

Fiskimiðin, landhelgin og samningar um viðskipti við aðrar þjóðir á eigin forsendum eru hornsteinar sjálfstæðis hvers lands, sem við eigum að standa vörð um í samskiptum þjóða á alþjóðavettvangi. 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband