Ríkissjóður er "Fullveldissjóður" þjóðarinnar

Fjármálaráðherra varpaði fram hugmynd að nýju sjálfala bákni – Auðlindasjóði- sem hann vildi kalla „Fullveldissjóð" á aðalfundi Landsvirkjunar í gær. Þar í skyldi greiða inn auðlindagjöld sem innheimt væru af aðgangi að náttúruauðlindum landsins.

Nýtt bákn fjármálaráðherra?

 Eitt sinn var flokkur með á stefnuskrá sinni „ báknið burt“.

Það er því alger þversögn sú  árátta að vilja veita nýjum hugsanlegum skattstofnum inn í sjálfala sjóði sem ekki lúta ákvörðunum og eftirliti kjörinna fulltrúa þjóðarinnar á alþingi. Er verið að forðast lýðræðið.

Nú þegar er komið nóg af slíkum sjóðum sem höndla sjálfala með almannafé. Hvað með lífeyrissjóðina t.d. sem innheimta til sín stóran hlut af sköttum og tekjum þegna landsins?

Lífeyrissjóðirnar eru  sjálfala bákn

Þeir eru nú orðnir stærstu fyrirtækja- og fjárfestingar aðilar landsins. Lífeyrissjóðirnir  eru  einskonar ríki í ríkinu þar sem menn semja við sjálfan sig um kaup og kjör, sporslur og stjórnarlaun. Eru ekki lífeyrissjóðir launafólks nú orðnir einir af stærstu eigendum atvinnufyrirtækja og vinnuveitendur t.d.verslunarfólks  í landinu? Þar stendur nú launafólk  í kjaradeila við fulltrúa sjálfs sín beggja vegna borðs.

 Ég var hlynntur  hugmyndinni um einn lífeyrissjóð  fyrir alla landsmenn? Hvar er hún nú?

Sterkur ríkissjóður er bakhjarl fyrir jöfnuð og alla velferð landsmanna

Staðreyndin er hinsvegar sú að ríkissjóður er og verður í raun  lífeyrissjóður allra landsmanna, ríkissjóður er og verður auðlindasjóður allar landsmanna, ríkissjóður er og verður  „Fullveldissjóður“ landsmanna.

Er kannski meiningin hjá fjármálaráðherra að  leggja ríkissjóð inn í þennan nýja  „Fullveldissjóð“  landsmanna til þess að þurfa ekki að svara fyrir hann á þingi kjörinna fulltrúa þjóðarinnar?

Við erum með skattalög sem hægt er að útvíkka til að ná yfir alla skattheimtu á einstaklingum og fyritækjum, við erum með ríkissjóð allra landsmanna, við erum með þjóðkjörið Alþingi sem ber ábyrð á fjárhag og  fjárlögum ríkisins og ráðstöfun fjár til stofnkostnaðar og rekstur velferðarsamfélagsins .  

Ég man þegar Landssíminn  var seldur og andvirðið átti að renna  í sjóð til þess að byggja nýjan landspítala. Aldrei fór króna af söluandvirði  Landssímans til Landspítalans. Fyrir sölu  skilaði Landssíminn þó umtalsverðum tekjum í ríkissjóð.

Bygging nýs landspítala er verkefni ríkissjóðs  

Það var því ekkert sérlega frumlegt hjá fjármálaráðherranum að ætla að stofna nýjan sjóð af skatttekjum landsmanna til að annast byggingu landsspítala , enda er það beint verkefni  ríkissjóðs.

Var ekki einhver flokkur  með á stefnuskrá sinni „báknið burt“?

 Með endalausum sjóðauppbyggingu sem ganga sjálfala í kerfinu er verið að byggja upp eftirlitslaust bákn sem verður ríki í ríkinu. Við erum með ríki og sveitarfélög sem stjórnsýslueiningar samfélagsins. Þangað eiga innheimtar tekjur af einstaklingum, auðlindum og atvinnulífi að renna.

Sterkur ríkissjóður- sterkar opinberar þjónustustofnanir -og báknið burt

Megum við greiða niður ríkisskuldir og eiga öflugan og sterkan ríkissjóð, „fullveldissjóð“ sem byggir á traustum tekjugrunni og lýtur valdi og ákvörðunum þjóðkjörinna fulltrúa, sem reglulega þurfa að bera umboð sitt undir þjóðina í alþingiskosningum. Þannig verður lýðræðið einnig best tryggt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband