Að duga eða drepast

Talsmenn ESB eru hálir sem álar, en vita hvað þeir vilja þó sjaldan sé það sagt beint út. Þetta mun utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson reyna er hann fundar nú með starfsbræðrum sínum í Evrópusambandslöndum. Þar mun hann væntanlega greina frá aðgerðum ríkisstjórnarinnar við afturköllun umsóknarinnar að ESB.  ( Morgunblaðið: Lítil eindálka frétt á bls. 4 boðberi meiri tíðinda?)

 Þeir eru vísir til þess að klappa utanríkisráðherra, Gunnari Braga á öxlina og segjast skilja vandamál hans, en jafnframt segja að það erum við í Brüssel sem ráðum. 

Við sjáum meðhöndlun Brüsselvaldsins á Grikkjum þessa dagana.

Hve oft kom ekki fyrrverandi utanríkisráðherra heim af slíkum fundum með starfsbræðrum sínum í ESB, brosandi og kampakátur.

Þeir höfðu oftsinnis klappað honum á öxlina, fullir vorkunnsemi  og sagst skilja vandamál hans heima á Íslandi. 

En það er Ísland sem er að ganga í Evrópusambandið en ekki öfugt og það verður að uppfylla öll lög og reglur sem Evrópusambandið starfar eftir.

Hversu langan tíma það tekur að hala Ísland inn  er ekki aðalmálið. Þeir munu því leggja megináherslu á að af þeirra hálfu sé umsóknin áfram virk, aðeins lögð til hliðar.

Við skulum hjálpa ykkur með IPA styrkjum og Evrópustofu. Evrópustofa er opin enn. 

"Þeir eru svo góðir og skilningsríkir, borguðu flugfar og vasapeninga og gáfu mér meir að segja vindil" sagði einn viðmælandi minn eitt sinn.

Þegar Ísland bað um inngöngu í Evrópusambandið varð það að undirgangast ýmis skilyrði og skuldbindingar sem umsóknarríki verður að uppfylla og standa við.

Þó ekki sé  það  eins og evruklúbburinn er alveg ljóst að öll samskipti í afturköllun umsóknarinnar verða að vera skýr og afdráttarlaus. Evrópusambandið mun vilja hafa það loðið. Þarna mun velta á styrk ráðherrans

Ísland verður að fara formlega af listanum sem umsóknarríki og það þarf að staðfestast af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Það verður að vera fullkomlega ljóst og staðfest af báðum aðilum að þessi umsókn sé fallin úr gildi.

Formaður aðalsamninganefndarinnar af Íslands hálfu um inngöngu í Evrópusambandið er nú ráðuneytisstjóri og aðalráðgjafi utanríkisráðherrans. Það getur  verið bót í máli að kunna klækina þótt með öðrum formerkjum sé?

Fyrrverandi formaður samninganefndarinnar hefur nú það hlutverk að leiðbeina nýjum ráðherra gegnum hina prúðbúnu úlfahjörð framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. 

Af minni reynslu sem ráðherra myndi ég vera á verði gagnvart slíkri ráðgjöf. Hinsvegar er það ráðherra sem á að ráða og ber að sjálfsögðu alla ábyrgð. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hefur verið mjög mjög afdráttarlaus í afturköllun umsóknarinnar og mun vonandi ekki láta tungulipra ESB menn slá sig út af laginu.

Aðlögunarviðræðurnar að ESB voru í raun stöðvaðar síðari hluta árs 2011 þegar ég neitaði að láta undan kröfum Evrópusambandsins og sumra kollega minna í ríkisstjórn, svo sem í sjávarútvegsmálum, landbúnaðarmálum og dýraheilbrigðismálum.

Þá vannst sigur.

 Einhliða ákvörðun í makrílkvóta Íslendinga gegn vilja ESB gerði svo út um málin á þeim tímapúnkti. Ákvörðun núverandi ríkisstjórnar hefur í raun enn aðeins verið að staðfesta það sem þá var orðið.

Núverandi ríkisstjórnarflokkar  voru kosnir út á landsfundarsamþykktir sínar og kosningaloforð um formlega og afdráttarlausa afturköllun umsóknarinnar um inngöngu í Evrópusambandið.

Utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson og ríkisstjórnin öll stendur frammi fyrir því að efna þau loforð refjalaust.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband