Að safna auð með augun rauð

80 milljarða hagnaður bankanna þriggja á sl. ári endurspeglar einokun þeirra og sjálftökurétt á fjármunum eintaklinga, heimila og atvinnulífs í landinu. Allt er það í  skjóli ríkisábyrgða.

Hvergi örlar á samkeppni í þjónustu eða kjörum heldur virðast þeir hafa skipt landinu og einstaka atvinnugreinum á milli sín, svipað eins og olíufélögin forðum.

 Enda eru einstaklingar, heimili og fyrirtæki bundin sama bankanum fyrir lífstíð, hvort sem þeim líkar betur eða ver. 

Í krafti "vistarbandsins" geta bankarnir sett viðskiftavinum afarkosti að vild.

Vextir útlána eru ótrúlega háir. Vaxtamunur innlána og útlána er með því hæsta sem þekkist í heiminum. Það líður varla sú vika að ekki sé boðuð hækkun á þjónustugjöldum bankanna, nú síðast fyrir að eiga orð við gjaldkera í afgreiðslu.

Uppsögn tveggja kvenna á Hólmavík bjargaði arði Arionbanka! 

Fyrir nokkrum vikum var Arionbanki svo mjög á horrenglunum að segja varð upp tveim störfum á Hólmavík til að bjarga erfiðum rekstri aðalbankans. Sömu rök fyrir þjónustuskerðingi heyrast frá öðrum bönkum sem nú skila miljarðatuga arði.

Ríkið veitti beinan fjárstuðning til að stofnsetja og styrkja eigið fé nýju bankanna eftir hrunið. Þeir urðu í raun allir ríkisbankar með ríkisábyrgð á öllum innlánum og annarri meginstarfsemi.

Gömlu bankarnir höfðu siglt öllu í strand og uppgjör þrotabúanna eru enn óleyst. Þeir hefðu betur farið strax í gjaldþrot eins og ég og fleiri vildum. Gjaldþrota reglur eru skýrar og kröfuhafar fá þar allir sama rétt.

Hin nýja einkavæðing

Skyndileg einkavæðing fyrrverandi ríkisstjórnar bæði á Arionbanka og Íslandsbanka og að afhenda þá svokölluðum "kröfuhöfum" var afar hroðvirknisleg og óskynsamleg. Bönkunum var jafnframt veitt ríksábyrgð á innstæðum og víkjandi lán á vildarkjörum. 

Ekki hafði heldur verið sett ný löggjöf um bankana og fjármálastarfsemi í landinu, t.d um aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingasjóða sem var ein forsenda fyrir að setja þá á markaðstorg að nýju.

Afleiðingin er sú að nú sækir allt í sama horfið í starfsemi fjármálastofnana og áður var fyrir hrun. Og enginn ber ábyrgð!

Ég studdi ekki þessa óvæntu nýju einkavæðingu bankanna í ríkisstjórn á sínum tíma. Bæði gekk hún þvert á þau fyrirheit sem gefin voru við stofnun nýju bankanna í hruninu og svo einnig gegn stefnu Vinstri grænna í bankamálum. Enda var ´það ekki borið undir þingflokk Vg.

Bankarnir hlíti samfélagskröfum

Í því uppgjöri sem framundan er við kröfuhafana, aðaleigendur nýju bankanna ætti að sjá til þess að gjörningurinn verði tekinn til baka og bæði Arionbanki og Íslandsbanki komi aftur til ríkisins, enda er ábygðin á starfsemi þeirra  öll þar.

Það er ekkert lögmál að fjármálastofnanir séu undanþegnar samfélagsskyldum og að þjónustukvöðum við viðskiptavini.

Arður fjármálastofnana á fyrst og fremst að renna til viðskiptamanna og samfélagsins í formi bættrar þjónustu og betri kjara.

Seðlabankinn tekur þátt í dansinum í kringum gullkálfinn. Hann borgar bönkunum mun hærri vexti á innstæðum sínum þar en sem viðskiptavinir bannkanna fá á sinum innstæðum. Munar þar tugum milljarða króna. Nær væri að setja bindiskyldu á bankana til að hemja þá.

Kapphlaup í stóryrðum - en ekkert gert?

En nú virðist sama leikritið endurtaka sig: stjórnmálamenn reyna að trompa hvern annan í stóryrðum og hneykslan en ekkert verður svo úr athöfnum: "Þetta er ekki mitt mál að leysa" mun verða viðkvæðið.

Málið er að nánast öll fjármálastarfsemi hér er með opinbera ábyrgð, samkeppni er lítil sem engin í þjónustu eða kjörum.    Ríkið lætur kúga sig og dregur lappirnar í enduruppbyggingu svæðisbundinna sparisjóða eins og lofað var.

Bankarnir geta stundað ríkisvarða sjálftöku á almenningi, heimilum og fyrirtækjum. Væri þá ekki nær að  slá þeim saman og  hafa hér sterkan þjóðbanka sem lyti kjörnu boðvaldi. Þá gætu stjórnmálamenn ekki komist upp með að blása í lúðra en yppta svo öxlum og né heldur bankastjórar reigt sig yfir almúgann eins og hanar á hól með bæði ríkisbelti og axlabönd.

Vonandi verða stóryrðin ekki aðeins stormur í vatnsglasi?

Sigmundur Davíð hjólar í bankana: „Algerlega ótækt“


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband