Fyrir hverja talar Þorsteinn Víglundsson

 Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins tjáir sig á visir.is í dag fyrir hönd samtakanna um ESB aðild. Hann telur að ljúka eigi samningum sem reyndar þegar voru komnir í strand m.a. vegna kröfu ESB um yfirráð yfir sjávarauðlind Íslendinga og fullt forræði í samningum við önnur ríki um deilistofna.

Nú er það eitt að vilja persónulega ganga í ESB, en menn eins og framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins  verða samt að kynna sér staðreyndir mála og umboðið sem þeir hafa til slíkra yfirlýsinga.

ESB býður engar varanlegar undanþágur

Það er grundvallaratriði að gera sér grein fyrir  hvers eðlis Evrópusambandið er og þau skilyrði sem það setur umsóknarríkinu. Samningum við ESB lýkur ekki fyrr en umsóknarríki hefur innleitt allt laga og regluverk sambandsins eða tímasett hvenær það verði gert:

Úr stækkunarhandbók ESB:

([1] “First, it is important to underline that the term "negotiation" can be misleading. Accession negotiations focus on the conditions and timing of the candidate's adoption, implementation and application of EU rules - some 90,000 pages of them. And these rules ... are not negotiable.” (Sjá: http://ec.europa.eu/enlargement/pdf/publication/enl-understand_en.pdf)

 Er ekki LÍÚ í Samtökum atvinnulífsins?

Víst er um,að það vafðist ekki fyrir stjórn og framkvæmdastjóra Landssambands íslenskra útvegsmanna hver krafa ESB væri og hver væri afstaða þeirra samtaka gangnvart þingsályktunartillögunni um afturköllun umsóknarinnar á sl. vetri: 

"Utanríkismálanefnd Alþingis hefur óskað eftir umsögn Landssambands íslenskra útvegsmanna um tillögu til þingsályktunar um að umsókn íslands um aðild að Evrópusambandinu verði afturkölluð, 471. mál.

Samtökin hafa lagst eindregið gegn aðild að Evrópusambandinu, sbr. umsögn okkar frá 6. júlí 2009. Sú afstaða hefur mótast af því að það er grundvallaratriði og ófrávíkjanlegt skilyrði að íslendingar fari sjálfir með forræði yfír fiskimiðunum og hafínu, að við höfum samningsforræði við skiptingu veiðiréttar úr deilistofnum og tölum eigin máli á vettvangi alþjóðastofnana sem og að fjárfestingar erlendra aðila í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum verði áfram takmarkaðar, enda um að ræða einn af grundvallaratvinnuvegum þjóðarínnar.

Við teljum að það sem fram hefur komið síðan að umsóknarferlið hófst, staðfesti það að ekki verði samið um þessi atríði við Evrópusambandið þannig að hagsmunir Íslands verði tryggðir.

Það er því mat samtakanna að afturkalla eigi umsókn Íslands að Evrópusambandinu.

Fríðrík Friðriksson, hdl"

 Krafa ESB í sjávarútvegsmálum var skýr

Það er mikilvægt að framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífisins kynni sér vel stöðu samningamálanna og hversvegna ESB neitaði að opna á viðræður um sjávarútvegsmál. En krafa ESB var þar skýr.

Ef Samtök atvinnulífsins vilja þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald samninga væri réttast að spyrja beint : Viltu framselja til ESB  forræði fiskimiðanna við Ísland og rétt þjóðarinnar til samninga við önnur ríki um deilistofna?

Það verður að orða hlutina tæpitungulaust

Menn skulu líka átta sig þegar talað er um mynt og öflun gjaldeyris að það er sjávarútvegurinn ekki hvað síst sem hefur lagt þjóðinni til erlendan gjaldeyri. Fyrir það börðumst við fyrir í útfærslu landhelginnar, sem hluta af okkar sjálfstæði og fullveldi og erum stolt af.

Samtök atvinnulífsins: Skynsamlegast og farsælast að ljúka aðildarviðræðum

 Hvað ætli að ýmsum einstaklingum í Samtökum atvinnulífsins finnist um frjálslegar yfirlýsingar framkvæmdastjórans.

Viðræðunum er í raun lokið. Samninganefnd Íslands hafði hvorki heimild til né gat samþykkt einhliða kröfur ESB. Eftir er aðeins að afturkalla umsóknina

 1)Úr stækkunarhandbók ESB 

„Í fyrsta lagi er mikilvægt að undirstrika það að hugtakið samningaviðræður getur verið misvísandi. Aðildarviðræður snúast um skilyrði fyrir og tímasetningar á upptöku umsóknarlands á reglum ESB, framkvæmd þeirra og beitingu – sem fylla 90 þúsund blaðsíður. Um þessar reglur ... verður ekki samið.“

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband