Framsókn og ESB umsóknin

Framsókn barðist gegn umsókn og aðild að Evrópusambandinu allt síðasta kjörtímabil. Fyrir síðustu alþingiskosningar lofuðu frambjóðendur flokksins því, að umsóknin yrði refjalaust dregin til baka kæmust þeir til valda.

 Framsókn fékk utanríkisráðuneytið til þess að geta stýrt málinu og borið ábyrgð á því að staðið yrði við kosningaloforðin.

Okkur sem stóðum í eldlínunni í stjórnmálum síðasta kjörtímabili er ljóst að barátta Framsóknarflokksins gegn umsókn og aðild að Evrópusambandinu skóp þeim kosningasigurinn vorið 2013. Loforð um skuldaleiðréttingar skiptu máli á lokaspretti kosningabaráttunnar.

Með einarðri andstöðu sinni við umsókna að ESB náði Framsókn til baka meginhluta þess fylgis sem hún hafði áður tapað til Vinstri Grænna  á meðan forysta  þess flokks var trú stefnunni og andstöðunni við inngöngu í ESB. 

Framsókn hafði áður stutt mjög eindregið inngöngu í Evrópusambandið undir forystu Halldórs Ásgrímssonar og var við það að deyja út á þeim tíma.

Vinstri Græn sópuðu til sín fylgi á sama tíma, enda stóðu talsmenn flokksins hvarvetna sem klettur í stjórnmálalitrófinu, heiðarlegir og fastir á grunnstefnunni - flokkur og þingmenn sem hægt var að treysta.

Aðildarumsóknin og Icesave málið bjargaði Framsókn.

Í síðustu kosningum fékk Framsókn til baka fylgið frá Vinstri Grænum og einnig ESB andstæðinga frá Sjálfstæðisflokknum. En þar á bæ treystu ekki allir flokk sínum fullkomlega til að standa við landsfundarsamþykktir um tafarlausa afturköllun umsóknarinnar að ESB. 

Þögn forystumanna beggja ríkisstjórnarflokkanna í áramóta ávörpum um ESB umsóknina kom á óvart.

Vonandi þýðir þögnin það eitt að formennirnir telji svo sjálfssagt  að  ESB  málið verði afgreitt nú á vorþingi.

Varla vill Framsókn upplifa sömu kviðristu("harakíri") á ný og þeir máttu þola undir lok stjórnar Halldórs Ásgrímsonar.

Eins og ESB umsóknin stendur nú er áfram á bak við tjöldin unnið að inngöngu. Ísland er umsóknarríki og lýtur sem slíkt skuldbindingum sínum við ESB.

Óprúttin ESB sinnuð ríkisstjórn getur hvenær sem er sett aðildarferið á fullt á ný. Það getur hún gert án atbeina þjóðarinnar eins og raunin var í ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri Grænna vorið 2009.

Þess vegna verður að afturkalla núverandi umsókn. Þar með verði tryggt  að nýr  aðildarferill verði ekki hafinn nema að fengnum skýrum vilja þjóðarinnar til inngöngu í ESB, sem vonandi verður aldrei.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband