Hérna var ég skorin upp

Hann Páll Kolka langafi virðist hafa skorið upp aðra hverja manneskju hér á Blönduósi, sagði dóttir mín Katrín Kolka þegar hún kom heim eftir fyrsta daginn í vinnu á Héraðshæli Húnvetninga á Blönduósi fyrir nokkrum árum.

Starfsþjálfunin þar var hluti af hjúkrunarnámi Katrínar. „Það þyrptist að mér allt eldra fólkið til að sýna mér stolt örin þar sem Páll skar,“ sagði Katrín með aðdáun.

Páll V. G. Kolka var héraðslæknir Húnvetninga frá 1934 til 1959 en hafði áður verið héraðslæknir í Vestmannaeyjum. Hann var einn sá fyrsti sem fór í sérnám erlendis í skurðlækningum . Sú þekking nýttist honum vel, bæði sem héraðs - og sjúkrahússlæknir í áratugi

Já, vissulega eru breyttir tímar og tækni og krafan um sérþekkingu er önnur en þá. Hins vegar breytast ekki væntingarnar um félagslegt öryggi, trúnað og traust, hlýju og nærgætni heilbrigðisþjónustunnar.

Þeir tímar koma að vísu ekki aftur þar sem læknirinn bjó  sjálfur í sjúkrahúsinu og eiginkonan bauð sjúklingunum inn til sín í kaffi meðan þeir biðu. Sjúklingarnir fundu að þeir voru í öruggum höndum og tekið yrði heildstætt á því sem hrjáði þá. Þörfin fyrir öryggið og það að finna að allt sé gert til að sjúklingnum líði sem best og hann leiddur í gegnum það sem þarf er þó áfram fyrir hendi. Ekkert er verra sjúklingi en finna til óöryggis og fálms eða vera skilinn eftir eftir á miðjum gangi og vita ekki hvert á að fara næst.

Það hafa ekki allar heilbrigðisstofnanir stóra „mömmu“ eins og frú Guðbjörg Kolka var Páli eigimanni sínum í þjónustunni við Húnvetninga. Eitt er víst að sjúklingur vissi oft ekki hvort hafði borið meiri árangur, kaffið og hughreystingarorð frú Guðbjargar Kolka eða færar læknishendur Páls. En saman veittu þau sjúklingnum bæði öryggi og þá meinabót sem mögulegt var að veita.

 Ósjaldan dvaldi fólk um tíma á heimili þerra hjóna og fékk aðhlynningu og í hjónarúminu fæddi kona barn er þröngt var á spítalanum.

Oft var komið með litla stúlku eða lítinn dreng til lengri eða skemmri dvalar á heimili þeirra, ef ástæður voru erfiðar heimafyrir.

Læknirinn gerði sér grein fyrir að þau gátu verið mörg meinin þótt aðeins eitt væri sýnilegt í það skiptið. Engu að síður er það þessi heildstæða yfirsýn, nærgætni og læknisfræðileg færni sem sjúklingar eru að leita eftir þegar hjálpar er leitað. Spor sjúklings til læknis,  í rannsókn eða á sjúkrahús eru oft þung og hlaðin óvissu um hvað tekur við.

Páll Kolka læknir signdi sig og fór með bæn áður en ráðist var í stóraðgerð. Ekki veitti af öllum styrk og krafti og honum farnaðist afar vel í læknisverkum sínum: „Sjáðu hérna var það, sem Páll Kolka héraðslæknir Húnvetninga skar mig.“

Páll Kolka hannaði  og stýrði byggingu Héraðshælisins á Blönduósi, stolti Húnvetninga. Nú stendur hún nánast ónotuð en  fullbúin skurðstofan á Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi .

Mér kemur þetta í hug eftir umræðuna um heilbrigðismálin síðustu daga og vikur, stöðu þeirra og skipulag. Áfram hriktir alvarlega í grunnstoðum heilbrigðisþjónustunnar og innviðum hennar. Áratuga uppbygging og þróun þessar þjónustu hefur í ýmsu  molnað og holast um of að innan á síðastliðnum tuttugu árum. Þar bera stjórnvöld höfuðábyrgð. Hinsvegar hafa tækniframfarirnar orðið miklar og möguleikarnir til lækningar orðnir fleiri. Þeim möguleikum þarf að finna sem bestan farveg okkur öllum til velfarnaðar.

Ég held þó að löggjafinn hafi gert alvarleg mistök við samþykkt laganna frá 2003 um heilbrigðisþjónustu þar sem hugtakinu þjónustu var skipt út fyrir heilbrigðisrekstur. Þótt rekstrarhugtakið í heilbrigðisþjónustu sé mikilvægt missir það  inntak sitt ef metnaðurinn, þjónustuhugtakið og auðmýktin er ekki í fyrirrúmi. Nærþjónustan, heilsugæslulæknirinn,  „gamli héraðslæknirinn“  sem þekkti sjúklinginn og hemilishagi hans, gegnir áfram lykilhlutverki í að halda utan um einstaklinginn í heilbrigðisþjónustu landsmanna

Sem betur fer er áfram við lýði sama kærleikshugsjón heilbrigðisþjónustunnar og ríkti á stofu og í eldhúsi læknishjónanna á Blönduósi, Páls og Guðbjargar Kolka þótt í öðru formi sé.

En þá hugsjón  þarf að rækta og hlúa að. Í því felst ákall svo margra í dag.  Þar í liggur forgangsröðunin fyrir hugsjónirnar sem leggja grunninn að farsælli heilbrigðisþjónustu landsmanna.

( Skrifað á afmælisdegi Katrínar Kolka hjúkrunarfræðings)

  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband