Guðmundur Páll Ólafsson

 Í gær var kvaddur eitt af stórmennum Íslands.

 Guðmundur Páll Ólafsson birtist á örlagastundu íslenskra náttúru perla.  Hann hóf á loft stríðsfánann fyrir liði einlægs náttúruverndarfólks, fána sem jafnframt var boðberi friðar á orustuvelli virkjanagræðginnar sem var í þann veginn að breyta hálendi Íslands í einn allsherjar blóðvöll. - Allt var gefið falt, nánast öllum perlum Íslands mátti fórna.

Hálendið, fossarnir, hverirnir sem eru lungu, hjarta og æðakerfi íslenskrar náttúru var allt undir, enginn staður var óhultur.

„ Ég sé nú ekkert fallegt við þennan stað“, er fræg setning úr liði andstæðinganna frá þessum tíma.

Vaknið! hrópaði Guðmundur Páll í Eldmessu sinni 1998 á baráttufundinum „ Með hálendinu- gegn náttúruspjöllunum“.

Hjartalaga fánaborgin sem Guðmundur Páll reisti við Hágöngur, þegar Fögruhverum var drekkt, var sem heróp til íslensku þjóðarinnar. 

Að sjá Hágöngulónið fyllast og fána Íslands sökkva einn af öðrum inn á miðju hálendi landsins er mynd sem aldrei hverfur.

 Ungir landverðir, hvattir af herópi Guðmundar Páls, drógu íslenska fánann í hálfa stöng á nokkrum dýrustu náttúruperlum landsins til að minnast ósigursins við Kárahnjúka. Þáverandi stjórnvöld hótuðu þessu unga hugsjóna- og baráttu fólki málsókn og atvinnumissi.

Guðmundur Páll lét verkin tala. Og svo er sem betur fer  einnig um fjölmarga einlæga náttúruverndarsinna. En  því miður eru  alltof margir sem tala fjálglega og hafa uppi stór orð um náttúruvernd og ást sína á landinu en þora svo ekki að standa með sjálfum sér, stefnu sinni og loforðum og  breyta orðum í athafnir þegar á reynir og tækifæri gefst.

Margur spyr, unnust engir sigrar?.   Jú,  það tókst til dæmis að stöðva virkjunaráformin í Jökulsánum í Skagafirði. Samstillt átak heimamanna í Skagafirði og á Alþingi undir gunnfána Guðmundar Páls Ólafssonar og ákalli íslenska fánans við Hágöngulón bar árangur.

"Fræðum þjóðina, fræðum um gildi hinnar síkviku náttúru". Íslenskar náttúruvættir höfðu eignast talsmann.

Bækur Guðmundar Páls um náttúru Íslands:  FUGLAR,  PERLUR,  STRÖNDIN,  HÁLENDIÐ og VATNIÐ eru stórvirki,  sem verða ekki aðeins ævarandi minnisvarðar um líf og starf þessa hógværa mikilmennis heldur og eggbeitt vopn í fræðslu og baráttu náttúrverndarfólks. Sú barátta verður eilíf.

„Vinur landsins, vinur vatnsins, lindanna og jökulánna, vinur hálendis og stranda, jökultinda og fugla himinsins, vinur alls sem lifir á jörðu.  Og ekki síst vinur vina sinna.“ Segir Vigdís Finnbogadóttir fyrrv. forseti Íslands í minningarorðun sínum um Guðmund Pál í Mbl.

Minning Guðmundar Páls Ólafssonar lifir í verkum hans og hugsjónum og baráttu þeirra sem nú taka við  fánanum.

 Blessuð sé minning Guðmundar Páls Ólafssonar. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband