Landsbankinn bregst skyldum sínum á landsbyggðinni

Landsbankinn hyggst nú loka fjölda útibúa sinna á landsbyggðinni. Einkum eru það sjávarbyggðirnar á Snæfellsnesi Vestfjörðum og Austfjörðum sem verða fyrir högginu.

Sömu byggðir hafa margar  mátt sæta stórfelldum niðurskurði í heilbrigðisþjónustu og ýmissi annarri stoðþjónustu á síðustu árum. En þessar byggðir eiga það þó flestar sameiginlegt að liggja að  gullkistu þjóðarinnar, einum fengsælustu  fiskimiðum heims. 

Framganga Landsbankans eins og hún birtist almenningi í gær  er eins og í stríðsrekstri, skyndiárás -  tilkynning - lokað. Sveitarstjórnir, samfélög, fyrirtæki og  starfsfólk standa skyndilega  frammi fyrir stórfelldri skerðingu á grunn þjónustu sinni án nokkurs samráðs eða undangenginna viðræðna. Bankastarfsemi er ekki til sjálfs sín vegna heldur er hún mikilvæg grunnþjónustu sem þarf að vera nærri fólkinu og fyrirtækinum. Hún þarf að vera hluti af nærsamfélaginu og axla þar sína ábyrgð. Við viljum hafa landið allt í byggð, vernda og nýta auðlindir þess og samfélög. En það gerist ekki sjálfkrafa eins og dæmin sanna.

Að sjálfsögðu hefur tækni í fjarskiptum og samgöngum breytt hér miklu um. Landsbankinn hefur almannaskyldur og viðskiftavild og traust eru ekki hvað síst undir því komin hvernig þær skyldur eru ræktar.  Þjónustustig og þjónustuskylda ætti að vera skilgreind í starfsleyfi banka sem fá starfsleyfi á landsvísu og taka þar mið af stærð og hlutverki. Skipan og veiting grunnþjónustu í útibúaneti eins og bankaþjónustu er ekki ekki bara einkamál þeirra sjálfra. Landsbankinn er auk þess að miklum meirihluta í eigu ríkisins og ber þar með enn ríkari almannaþjónustuskyldur og stjórnvöld sem eigendur geta krafið hann um að sinna þeim.

Þótt hann sé almennur viðskiftabanki og á samkeppnismarkaði er það fjarstæða að hann verði ekki að lúta samráði og kröfum eigenda sinna í skyldum við almenning. Sparisjóðirnir gegndu og  mikilvægum svæðisbundnum hlutverki og þótt illa hafi farið fyrir mörgum þeirra í hruninu og  í aðdraganda  þess sýnir þessi aðgerð Landsbankans nú hversu mikilvægt það er að endurreisa og styrkja staðbundna fjármálaþjónustu.

Þessar minni sjávarbyggðir sem nú fá þetta högg frá ríkisbankanum fá á sama tíma kröfur frá sama ríkissjóði um sérstök gjöld á grunnatvinnugrein sína sjávarútveg, sem á að renna beint í ríkissjóð. Þetta eru sömu byggðir og búa við himinhátt raforkuverð úr orkulindum landsmanna. Þetta eru sömu byggðir og hafa fengið á sig miklar skerðingar í heilbrigðisþjónustu .   Þetta eru sömu byggðir og taka á sig verulega aukinn kostnað vegna álagningar á olíur og bensin  en hver íbúi  leggur jafnframt hvað stærstan hlut í sameiginlega sjóði landsmanna.

Ef Landsbankinn væri á hausnum  þá mætti sýna vorkunn. En hann skilar þvert á móti miklum hagnaði og er boðað að hann muni borga eigendum sínum milljarða í arð.  Hér skal jafnframt lögð áhersla á að stjórnendur bankans hafa komið í mörgu mjög vel fram í  lausn skuldavanda margra fyrirtækja og einstaklinga. Við fækkun og sameiningu bankastofnana vofir sú hætta yfir að boðvald í krafti fákeppni taki yfir á í þessari grunnþjónustu landsmanna.

Ég skora á bankastjóra og stjórn Landsbankans  að fresta þessum boðuðu lokunum og þjónustuskerðingu á landsbyggðinni og taka þess í stað upp samræður og samvinnu við stjórnvöld og heimamenn á þjónustusvæðunum um skipulag þjónustunnar

 Ég hef óskað eftir sérstakri umræðu á Alþingi um málið og vænti þess að hún fari fram áður en til þessara lokana kemur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband