Verður Makríllinn til að hrinda ESB umsókninni endanlega út af borðinu eða bogna íslensk stjórnvöld fyrir kröfum ESB.

Formaður utanríkismálnefndar,  Árni Þór Sigurðsson lýsir í mbl. í síðustu viku miklum áhyggjum  yfir að ESB  tengi saman makríldeiluna og framgang aðildarviðræðna. Aðalsamningamaður Íslands  í makríl hefur þó verið rekinn úr því starfi að kröfu ESB sinna í stjórnsýslunni hérlendis sem og  í Brussel. -  Hann þótti rökstyðja of vel kröfur Íslendinga!!. –Tómas H Heiðar  starfaði sem formaður samninganefndar á ábyrgð sjávarútvegsráðherra og ég,  sem ráðherra treysti honum mjög vel.  Ég vissi hins vegar hvaða hug ESB sinnar báru til hans í þessum efnum. 

  - Færður til annarra mikilvægari starfa  sagði utanríkisráðherra!  Að ósk hvers ? Hvað er mikilvægara en góðir samningar fyrir Íslendinga í makríl?

ESB sýnir klærnar

Staðreyndin er réttilega sú að Evrópusambandið hefur hert á samþykktum og  yfirlýsingum í makríldeilunni við Íslendinga og Færeyinga.

Í ályktun ESB- þingsins frá 14. mars sl.  um stöðu aðildarviðræðanna  við Íslendinga er áréttuð enn frekar en áður  þau  skilyrði sem ESB hefur sett fyrir  framhaldi aðildarviðræðna og  lausn makríldeilunnar. Þar eru þessi mál tengd mjög náið saman.

Og   ESB slær tóninn: lausn makríldeilunnar verður að byggja á „raunhæfum tillögum um hlutfallslega skiptingu veiðanna,  byggða á sögulegum rétti strandríkjanna til veiða. ( „ based on realistic proposals consistent  with historical rights  and the advise of ICES“) .

Að sjálfsögðu getum við ekki fallist á þessa einhliða túlkun ESB á rétti okkar til veiðanna.

Þótt makríllinn komi nú og í gríðarlegu magni  inn í íslenska fiskveiðilögsögu og éti býsn á það að þeirra mati ekki að skapa neinn sérstakan rétt.

Mat ESB á hver hinn sögulegi réttur Íslendinga sé hefur komið fram í samningaviðræðum:  7% gangi   til Íslendinga  um 8% til Færeyinga og 5% til Rússa. Það þýddi um  50 – 60 þús. tonn  af makríl til Íslendinga. Við erum nú að veiða um 145 þús. tonn í fullum rétti sem strandríki.  Ef ESB væru sjálfum sér samkvæmt hefðu þeir skammtað sér 80% af veiðinni.

 Raunin er hinsvegar sú að  ESB og Noregur hafa tekið sér einhliða um 90% af ráðlagðri veiði í makríl og ætla 10 % til skipta fyrir  Íslendinga Færeyinga og Rússa.

 Makrílkvóti Íslendinga fyrir árið í ár var blessunarlega ákveðinn fyrir síðustu áramót.  

 Alþingi grípi í taumana

Ljóst er af óbilgjörnum kröfum ESB   ekki verður  samið á þessu ári um framtíðarskiptingu makrílveiðanna nema að Íslendingar gefi mjög verulega eftir. Er þá ESB umsóknin stopp?

Þótt hörðustu  ESB sinnarnir í ríkisstjórn og á Alþingi séu jafnvel reiðubúnir að gefa eftir  og  ganga langt á hagsmuni Íslendinga til að þóknast kröfum ESB í makrílnum er óvíst hvort þeir hafi til þess meirihluta á Alþingi.

Þjóðinni var lofað því að ESB umsóknin yrði útkljáð innan þessa kjörtímabils.

Nú þegar er ljóst að ófrávíkjanlegar kröfur ESB á mörgum sviðum, ekki aðeins í makríl ganga mun lengra en samninganefndin hefur umboð til að semja um.  Það er ESB sem ræður för en ekki Íslendingar.    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband