Viðskiptaráð vill selja Hóladómkirkju

Viðskiptaráð vill að ríkissjóður selji 22 kirkjur þar á meðal Hóladómkirkju.

"Ekkja stendur aldin kirkja, ein í túni fornra virkja, hver vill syngja, hver vill yrkja,  Hóladýrð, þinn erfisöng?"

kvað Matthías Jochumsson í kvæði sínu Skín við sólu Skagafjörður. Hóladómkirkja stendur nú ekki lengur ein á veluppbyggðum Hólastað.

Hömlulaus einkavæðing

Hömlulaus einkvæðing virðist nú tröllríða húsum stjórnaráðsins. Fyrrverandi talsmenn  og stjórnendur í Viðskiptaráði sitja nú á ráðherrastólum í mestu hægri ríkisstjórn Íslands frá Lýðveldisstofnun 1944. (Viðskiptaráð telur rétt að ríkissjóður selji 22 kirkjur - mbl.is)

 Hóladómkirkja er þjóðargersemi sem á sig sjálf

Staðreyndin hinsvegar er sú  sú að ríkissjóður getur hvorki gefið né selt Hóladómkirkju því hún á sig sjálf.

Þegar biskupsstóll á Hólum var lagður niður 1801 og danski kóngurinn lét selja allar eignir Hólastóls var Hóladómkirkja undanskilin. Kóngur vildi ekki leggja það á neinn hvorki sóknina né aðra að taka að sér ábyrgð á rekstri og viðhaldi kirkjunnar.

Kirkjan mætti standa kóngi að meinalausu en hún væri engra eign. Hreppsbúum væri heimilt að rífa hana og nota efnið í aðra kirkju ef þeim sýndist svo.

Hugmyndir voru uppi um að reisa aðra minni kirkju, miðlægt í sókninni. Hólar lenda í mikilli niðurníðslu fyrstu áratugina eftir að stóllinn var lagður af og jörðin gekk á milli manna.

Hóladómkirkja í góðum höndum

Sem betur fór eignaðist séra Benedikt Vigfússon Hóla í Hjaltadal 1824 ,en hann var einn ríkasti maður landsins. Bendikt húsaði Hóla í Hjaltadal upp og þar með dómkirkjuna og gerði staðinn að einu mesta stórbýli landsins á ný.

Um 1860 sótti Benedikt um stuðning Alþingis til viðhalds Hóladómkirkju og að hún fengi fasta fjárveitingu því hún hefði verið svipt öllum eigum sínum bótalaust. Eyjan Drangey og tekjur af henni var t.d. bókfærð séreign Hóladómkirkju um 1800.

Tekist var á um eignarhald Hóladómkirkja á Alþingi.

 Eftir mikið málavafstur á Alþingi um miðja 19.öld og tvennar milliþinganefndir varð niðurstaðan sú að Alþingi hafnaði eigendaábyrgð á dómkirkjunni en gat ekki kveðið upp úr um hver ætti hana.

Til þess  að fá úr skorið með eignarhaldið  taldi Alþingi að reka yrði sérstakt dómsmál. Þangað til sú niðurstaða fengist bæri eigandi Hóla á hverjum tíma ábyrgð á viðhaldi og rekstri Hóladómkirkju.

Í bréfi  Benedikts til Alþingis segist hann reiðubúinn að bera ábyrgð á kirkjunni um sinn dag en vildi tryggja framtíð hennar, þessa eins  mesta menningarverðmætis þjóðarinnar.

Hóladómkirkja er þjóðarstolt

  Þegar Skagafjarðarsýsla keypti Hóla og stofnaði þar Bændaskóla 1882 tók hún jafnframt ábyrgð á dómkirkjunni með reisn og síðar allt Norðuramtið.

 Þegar ríkið eignaðist Hóla í Hjaltadal 1907 yfirtók það jafnframt ábyrgð á Hóladómkirkju í samræmi við álit Alþingis, en hefur aldrei haft heimild til að eignfæra sér hana.

Hóladómkirkja fékk hinsvegar sérstaka fjárveitingu á fjárlögum til reksturs og viðhalds sem sjálfstæð stofnun. Þannig var það meðan ég var á Hólum

Segja má að Hóladómkirkja eigi sig sjálf, en eigandi jarðarinnar Hóla sem er ríkissjóður beri ábyrgð á dómkirkjunni.

Hóladómkirkja, saga hennar og munir eru ein mestu gersemi þjóðarinnar sem ríkisjóður og Alþingi eiga að bera beina ábyrgð á.

Einkavæðingargræðgi Viðskiptaráðs

Áhugi Viðskiptaráðs á því að einkvæða og selja guðdóminn og helstu menningarverðmæti þjóðarinnar  hefur því sett græðgina í nýjar hæðir á þeim bæ.

Þótt Þjóðkirkjan  og vígslubiskup á Hólum fari eðlilega  með helgihald dómkirkjunar og formennsku Hólanefndar sem annast umsjá kirkjunnar, þá er dómkirkjan sem slík og munir hennar beint á fjárhagslegri ábyrgð ríkissóðs - þjóðarinnar allrar og mikilvægt að svo verði áfram. 

Hingað og ekki lengra

Jóni Arasyni myndi hafa blöskrað slíkur aumingjaskapur sjálfstæðra stjórnvalda ef þau teldu sig ekki geta borið beina ábyrgð á sjálfri Hóladómkirkju.  Viðskiptaráði myndi hann öruggalega hafa sent tilheyrandi kveðling og:

"og dreifði þeim um flæðar og flaustur - með bauki og bramli" eins og segir í einni vísu hans. Nú er komið nóg hjá einkvæðingarapparatinu.

 

 


Bloggfærslur 28. janúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband