Hernaðarumsvif Bandaríkjanna á Íslandi

Nýundirrituð samstarfsyfirlýsing utanríkisráðherra Íslands og hermálayfirvalda í Bandríkjunum byggir á hinum umdeilda varnarsamningi við Bandaríkin frá 1951.

Að veita öðrum ríkjum rétt til hernaðarumsvifa gangvart öðrum þjóðum af landi sínu felur í sér ákveðið fullveldisframsal. 

Við sem börðumst gegn hersetu Bandaríkjanna hér á landi fögnuðum því þegar bandaríski herinn hljópst loks á brott að eigin frumkvæði. Við vonuðumst eftir því, að þar með væri Ísland laust við þennan smánarsamning um hernaðarumsvif Bandaríkjanna hér á landi frá 1951. 

Samstarfsyfirlýsing íslenska utanríkisráðherrans felur í sér víðtækari óskilgreindar heimildir til Bandaríkjahers en áður og veldur okkur herstöðvarandstæðingum miklum vonbrigðum.

Ísland er friðelskandi þjóð, boðberi sátta milli þjóða og á að standa utan hernaðarbandalaga og viðskiftastríða gangvart öðrum löndum. Gildir þar einu að mínum mati hvort um er að ræða  Bandaríkin, Nató eða Evrópusambandið.  Við eigum að halda okkar eigin sjálfstæði til ákvarðana í samskiptum við aðrar þjóðir á okkar forsendum.

 Aðdáendur "gamla kalda stríðsins" gleðjast yfir auknum hernaðarumsvifum Bandaríkjanna hér á landi.

Björn Bjarnason fyrrum þingmaður og ráðherra Sjálfstæðisflokksins víkur að því á heimasíðu sinni í dag  og þá jafnframt að viðtali við mig um þessi mál í ríkisútvarpinu í gær. 

Veltir Björn því fyrir sér, hvort ég hafi gangrýnt hernaðarumsvif Bandraíkjahers hér á landi í nafni Heimssýnar, sem ég er formaður fyrir.

Það er alveg rétt hjá Birni að Heimssýn eru  þverpólit ísk afmörkuð samtök sjálfstæðissinna í Evrópumálum. 

Ég var ekki að tala fyrir hönd Heimssýnar við ruv um þetta mál enda hafa samtökin  ekki tekið þennan samning fyrir á fundi sínum né heldur er það á sviði þeirra samtaka.

 Það er í sjálfu sér fjölmiðilsins að ákveða kynningu á viðmælendum sínum svo lengi sem farið er með rétt mál.

 Í sjónvarpsfréttum  í gær var ég kynntur sem sérstakur áhugamaður um fullveldi Íslands og fyrrverandi alþingismaður og ráðherra  en í útvarpsfréttum var þess getið að ég væri formaður Heimssýnar.

Hinsvegar var hvergi  á það minnst að ég talaði fyrir hönd samtökin Heimssýn um þennan varnarsamning við Bandaríkin enda var það ekki svo. 

Persónulegar skoðanir mínar og áherslur í sjálfstæðismálum Íslands eru hinsvegar öllum vel kunnar og fyrir þær tala ég.

Þar ræður engin hentistefna í fullveldismálum ferð. 

   


Bloggfærslur 7. júlí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband