Milljón tonn af makríl á sjö árum

Íslenskar útgerðir hafa nú veitt milljón tonn af makríl á Íslandsmiðum á 7 árum. Frétt á vef smabatar.is greinir svo frá. Milljón tonn á sjö árum.

Það virðast fáir gera sér grein fyrir þeim átökum sem áttu sér stað bæði fyrir opnum og lokuðum tjöldum við ESB um makrílveiðarnar. Fyrst vildi ESB ekki viðurkenna að hér veiddist makríll. Síðan kom krafan um að þeir ættu þann makríl sem hér veiddist. Þegar loks var komist að samningaborði strandríkjanna um skiptingu makrílsins var tilboðið fyrst 5 til 6% hámark.

Hótanir um allsherjar viðskiptabann af hálfu ESB með sjávarafurðir fylgdu í kjölfarið.

Eftir nokkurra ára þref fór tilboðið um hlut Íslendinga upp undir 10% af heildarveiði. Ég sem ráðherra ákvað okkar hlutdeild af heildarafla makríls að lágmarki um 16,5% enda var það í góðu samræmi við magn stofnsins á Íslandsmiðum.

Marílveiðar okkar Íslendinga stöðvuðu endanlega samningana og inngönguferlið í ESB í árslok 2011.

En þá lét ég það verða mitt síðasta verk sem ráðherra að gefa út makrílkvótann fyrir árið 2012 147 þús tonn.

Þar með voru hendur eftirmanna minna bundnar og þrátt fyrir vilja til eftirgjafar til að halda áfram aðlögunarsamningunum við ESB komust þeir ekki áfram með það og samningum um inngöngu í ESB sjálfhætt.

 Veruleikafirring þeirra sem nú vilja halda áfram viðræðum um inngöngu í ESB er ótrúleg og sýnir bæði vanþekkingu  og vanmetakennd.

Menn geta nú velt því fyrir sér hversu mikla þýðingu makrílveiðarnar höfðu fyrir atvinnulíf og gjaldeyrisöflun þjóðarinnar ekki síst eftir efnahagshrunið.

En trúið mér ákvarðanir mínar um makrílveiðarnar  voru ekki velþokkaðar af ESB sinnunum og vægast sagt mjög illa þokkaðar af mörgum hér á landi sem sáu ESB drauminn sinn renna út í sandinn.

 Mín hugmynd var að smábátar mættu veiða nánast frjálst af makríl á grunnslóð en sjávarútvegsráðherra Framsóknar skerti hlut smábáta verulega um leið og hann kvótasetti makrílinn 2014. Það var bæði röng ákvörðun og ósanngjörn.

En bæði veiðar og vinnsla hafa þróast ótrúlega hratt á þessum 7 árum, nánast kraftaverki líkast og sýnir styrk íslenskrar útgerðar og fiskvinnslu. 

Ákvörðun mín um að koma með allan afla að landi til matvælavinnslu skipti líka sköpum fyrir þróun makrílveiðanna. Var sú ákvörðun tekin í góðri samvinnu við flesta í útgerðinni og fiskvinnslunni og hefur reynst farsæl.

 Ákvörðun utanríkisráðherra Gunnars Braga Sveinssonar um að styðja viðskiptahindranir ESB á Rússland og kalla yfir sig viðskiptabann á makríl sýndi ótrúlegan undirlægjughátt við ESB og  var galin aðgerð sem vonandi verður afturkölluð sem fyrst.

 


Bloggfærslur 4. október 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband