Katrín Jakobsdóttir og ESB-umsóknin

Formaður VG er tvíátta og virðist skorta stefnu í Evrópusambandsmálum. Katrín Jakobsdóttir var í löngu viðtali á Eyjunni nýverið. Margt er gott í því viðtali sem vænta mátti. Formanninum vefst hinsvegar tunga um tönn er talið berst að stefnu VG og hennar eigin í Evrópusambandsmálum. Þar er eins og  formaðurinn viti ekki í hvorn fótinn hún eigi að stíga. Katrín: Ríkisstjórnin er enn í tráma eftir síðasta kjörtímabil

Stefnuskrá Vinstri grænna var skýr

Hollt væri fyrir formanninn að lesa nokkrum sinnum grundvallarstefnuskrá Vinstri grænna og rifja upp þau gildi sem flokkurinn var stofnaður um en þar segir sjálfstæð utanríkisstefna og andstaða við umsókn að Evrópusambandinu séu hornsteinar: 

"Áróður um að Ísland geti gengið í ESB en fengið undanþágur frá grundvallarsáttmálum þess er varasamur. Undanþágur eru jafnan hugsaðar til skamms tíma á meðan aðlögun á sér stað …     Samskipti við Evrópusambandið (ESB) ber að þróa í átt til samninga um viðskipti og samvinnu, m.a. á sviði menntamála, vinnumarkaðsmála og umhverfismála. Hugsanlegur ávinningur af aðild Íslands að Evrópusambandinu réttlætir ekki frekara framsal á ákvörðunarrétti um málefni íslensku þjóðarinnar og er aðild að Evrópusambandinu því hafnað. Hagsmunir fjármagns og heimsfyrirtækja eru í alltof ríkum mæli drifkraftar Evrópusamrunans, miðstýring, skrifræði og skortur á lýðræði einkennir stofnanir þess um of". (Úr stefnu VG)

Enda segir Evrópusambandið sjálft í stækkunarhandbók sinni: "Aðildarviðræður snúast um skilyrði fyrir og tímasetningar á upptöku umsóknarlands á reglum ESB, framkvæmd þeirra og beitingu – sem fylla 100 þúsund blaðsíður. Um þessar reglur ... verður ekki samið.“

Þjóðaratkvæðagreiðslu var þá hafnað

Það er hinsvegar útúrsnúningur og rangt hjá formanninum að samþykkt hafi verið á landsfundi VG 2009 heimild fyrir flokkinn til að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Þar er hinsvegar  áréttað að það væri þjóðarinnar að úrskurða um aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu þó svo að flokkurinn væri aðildinni andvígur. Þar voru menn minnugir EES-samningsins, sem ekki fékkst borinn undir þjóðina í sérstakri atkvæðagreiðslu og það þótt stór hluti hennar hafi óskað þess með undirskriftum.

Það voru því hrein svik við stefnu flokksins og kosningaloforð að Vinstrihreyfingin grænt framboð stæði  að umsókn um aðild að Evrópusambandinu enda áréttaði formaður flokksins kvöldið fyrir kosningar að slíkt yrði ekki gert.

Tvískinnungur í pólitík gengur ekki upp til lengdar

Þegar ljóst var að til stóð að keyra á Evrópusambandsumsókn sem hluta af stjórnarmyndun vorið 2009 fórum við nokkrir þingmenn flokksins fram á  að haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðsla fyrst um það hvort þjóðin vildi að sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu því að umsókn væri í raun beiðni um inngöngu í sambandið.  Því hafnaði  forysta flokksins alfarið og hluti þingflokks VG. Var mér m.a. hótað brottvikningu úr ríkisstjórn ef ég styddi slíka tillögu um lýðræði. Þessu þorði forysta Vg ekki þá því óttast var að hvorki flokkurinn né ríkisstjórnarsamstarfið þyldi þá þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta var nú öll lýðræðisástin á þeim tíma.

Katrín velur því að snúa málinu á haus þegar hún segir:Það er alveg rétt að það hefur fólk yfirgefið hreyfinguna af því að þeir hafa bara metið þetta mál svo mikið grundvallarmál að þeir hafa ekki verið reiðubúnir að opna á þessa lýðræðisleið í málinu.

Sannleikurinn er hinsvegar sá að forysta Vg hafnaði þá hinni lýðræðislegu leið í málinu.

Ég held reyndar að formaðurinn og ýmsir aðrir í forystunni Vg hafi aldrei skilið í hverju umsóknin fólst. Þar halda menn því enn fram að hægt sé að "kíkja" í pakkann.  Þess vegna er formaðurinn áfram tvístígandi eins og kemur fram í viðtalinu á Eyjunni. ESB hefur hinsvegar alltaf hafnað þessari "kíkjupakka" leið.

 Stuðningur forystu VG  nú við þingsályktunatillögu um framhald viðræðna við ESB á grundvelli þingsályktunarinnar frá 2009  felur það beinlínis í sér að fallið sé frá öllum fyrirvörum Alþingis og sótt um skilyrðislaust.

Er þá ekki hreinlegast að spyrja þjóðina beint:  Vilt þú að Ísland gangi í Evrópusambandið, já eða nei?

Stjórnmál snúast um traust

Ég er þeirrar skoðunar að Vinstrihreyfingin grænt framboð verði að gera upp svikin við ESB-umsóknina  og það sem úrskeiðis fór hjá flokknum  í síðustu ríkisstjórn.

Það gæti flokkurinn gert með skipan einhverskonar sannleiksnefndar. Vinstri græn geta  ekki kallað eftir trausti frá kjósendum fyrr en það hefur verið gert.

 Í viðtalinu velur formaðurinn að drepa staðreyndum á dreif um ESB-umsóknina og strá efasemdum um stefnu VG í þeim málum.

Katrín  Jakobsdóttir sem nýtur persónulegra vinsælda ætti  að beita sér fyrir því að slíkt uppgjör innan flokksins fari fram, frekar en að vera í afneitun og  sópa fortíðinni og því sem úrskeiðis fór undir teppið. 

Það er alveg ljóst að formaður Vinstri grænna mun ekki komast upp með að vera stefnulaus eða tvíátta í afstöðu sinni til inngöngu í Evrópusambandið.


Bloggfærslur 24. maí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband