Loforð - efndir og virðing Alþingis

Evrópusambandsumsóknin er stopp og verður ekki framhaldið nema að fella brott fyrirvara alþingis og samþykkja kröfur ESB skilyrðislaust. Ríkisstjórn  og alþingi virðist hins vegar ekki ráða við þá stöðu sem málið er í og afturkalla refjalaust umsóknina eins og reyndar lofað var fyrir síðustu alþingiskosningar.   

Samfylking - Vinstri græn og ESB umsóknin

Skoðanakannanir sýna afar lítið traust á Alþingi. Það  bendir til að lýðræðinu sé þar ábótavant.

 Umsóknin að Evrópusambandinu er  einmitt dæmi um afar ólýðræðisleg vinnubrögð.

Fyrir kosningarnar 2009 lofuðu Vinstri græn að þau myndu aldrei  sækja um aðild að ESB. Stefna flokksins væri skýr hvað það varðar að standa utan Evrópusambandsins. Síðustu orð formannsins í sjónvarpi fyrir kosningar voru að til þess kæmi ekki af hans hálfu.  

 Samt beitti forysta flokksins sér fyrir því strax að kosningum loknum  að sækja um aðild að Evrópusambandinu vorið 2009 þvert á gefin loforð.

Núverandi formaður Samfylkingarinnar sagði á þeim tíma að ekki tæki nema nokkra  mánuði að fá úr því skorið hvort ESB samþykkti kröfur okkar um varanlegar undanþágur svo sem  í sjávarútvegi, landbúnaði ofl.

Nú er ljóst  að Evrópusambandið veitir Íslendingum  engar varanlegar undanþágur, en samt  er óskað eftir því að halda áfram samningum við Evrópusambandið á grundvelli þingsályktunartillögunnar sem samþykkt var 16. júlí 2009.

Loforð Framsóknar og Sjálfstæðisflokks

Framsóknarmenn og Sjálfstæðismenn samþykktu á landsfundum sínum og lofuðu í kosningabaráttunni síðustu að eitt fyrsta verk þeirra í ríkisstjórn væri að afturkalla umsóknina og loka Evrópustofu.

 Eftir mikið japl,jaml og fuður sendir utanríkisráðherra loks bréf til Brüssel um að það sé ekki á stefnuskrá þessarar ríkisstjórnar að ganga í Evrópusambandið. Gott mál og ég veit að ráðherra er einlægur í þeirri afstöðu sinni.

Endanleg afturköllum umsóknarinnar er  hinsvegar enn í lausu lofti og Evrópustofa er opin og dælir út peningum og áróðri.  Kommissarnir í Brüssel hugsa bara sem svo : "við bíðum þá bara eftir næstu ríkisstjórn".

 Kjósendur  Framsóknar og Sjálfstæðisflokks  héldu að með atkvæði  sínu væru þeir að tryggja afturköllun ESB umsóknar.

Andstæðingar inngöngu í ESB innan flokkanna  sitja eftir með bréf utanríkisráðherra  sem deilt er um hvað efnislega þýðir. Bent hefur verið á að það sé ekki einu sinni samhljóða í enskri og íslenskri útgáfu.

Ísland er enn umsóknarríki hjá ESB 

Á meðan  Ísland er enn á lista yfir umsóknarríki að ESB er innganga í Evrópusambandið áfram hin opinbera stefna íslenskra stjórnvalda útá við, þó svo núverandi ríkisstjórn telji Íslandi betur borgið utan ESB.

 Er nema von að Alþingi njóti ekki mikils trausts og  ákall sé hávært um orðheldni og beint lýðræði

 

 


Bloggfærslur 9. apríl 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband