Sjávarútvegsráðherra og makríllinn

Fráleit eru áform núverandi sjávarútvegsráðherra að kvótasetja allar veiðiheimildir í makríl til þess eins að einstaka útgerðir geti eignfært þær og veðsett og ríkið síðan innheimt himinhá veiðigjöld.

Græðgi ríkiskassans í veiðigjöld ganga þvert gegn hagsmunum minni útgerða og sjávarbyggðanna vítt og breitt um landið. Hinsvegar hvetur slík gjaldtaka til samþjöppunar í greininni og hagsmunir minni byggða verða fyrir borð bornir, sem getur varla verið markmið ráðherrans.

Hagsmunir smábátaútgerðar og minni sjávarbyggða í húfi

Með kvótasetningunni er einnig ætlað að hindra nýja aðila í að koma í veiðarnar nema greiða himinhá gjöld til svokallaðra veiðiréttar hafa.

Árleg verðmæti útfluttra makrílafurða hafa verið 20- 30 milljarðar og nú 2014 nam það 22 milljörðum.  Makríll fyrir 22 milljarða og skipti sköpum í endurreisn efnahagslífs þjóðarinnar og atvinnusköpun árin eftir hrun

Umræða fjölmiðla á villigötum.

Alveg er það lýsandi fyrir grunna dægurumræðu að veist er að einstaka þingmanni fyrir að fjölskylda hans rekur trilluútgerð og þar með makrílveiðar. Nær væri að sömu umræðustjórar beittu sér fyrir rannsókn og umfjöllun á hvað þessi áform ráðherra eru alvarleg nái þau fram að ganga. Þar eru í húfi veiðar og vinnsla á makríl í landinu og möguleikar fyrir minni útgerðir og atvinnulíf í sjávarbyggðum landsins. En þar hefur makríllinn skipt gríðarlegu máli síðustu árin.

 Makrílveiðar smábáta á grunnslóð.

Ég tek undir með framkvæmdastjóra Landssambands smábátaeigenda að þessi áform ráðherra ganga þvert gegn heildarhagsmunum landsmanna, ekki síst veiðum minni báta á grunnslóð og landvinnslunni á makríl vítt og breytt um landið:

" ( Landsamband smábátaeiganda  mun berjast af fullu afli gegn frumvarpinu og leita allra leiða til að stöðva það. Makríllinn og smábátarnir.pdf)"

Þótt sett hafi verið viðmiðunarmagn á makríl fyrir smábátaflotann sem var reyndar þá langt fyrir ofan það magn, sem flotinn þá gat veitt, sagði ég jafnframt að færaveiðar smábátaflotans á makríl á grunnslóðinni kringum landið, þeirra eigin veiðislóð yrðu ekki takmarkaðar nema einhverjar sérstakar aðrar ástæður kæmu til.

 Makríllinn er hér ekki í neinni kurteisisheimsókn heldur gengur hann inn á nýjar beitilendur eins og ryksuga. Kvótasetning á flökkufisk sem  ekki einu sinni hefur verið samið um hlutdeild í er fráleit.

Sá floti sem stundar handfæraveiðar á makríl á grunnslóð og veitir atvinnu og verðmætasköpun vitt og breitt um landið á að njóta forgangs.

200 - 220 þúsund tonn af makríl á þessu ári ?

Heildarveiði þjóðanna á makríl á síðstliðnu ári nam um 1.4 milljónum tonna. Miðað við magnið af makríl í íslenskri fiskveiðilögsögu undanfarin ár og magn fæðu sem hann gleypir í sig á Íslandsmiðum var ákveðið í minni ráðherratíð að eðlileg hlutdeild Íslendinga væri um 16,5% af heildarveiði þjóðanna á makríl.

Eðlilegur hlutur okkar í veiði á næsta ári ætti því að vera um 16,5 % af 1.4 milljónum tonna eða 200 til 220 þús tonn.

Það munar um minna fyrir atvinnulífið vítt og breitt um landið og íslenskan efnahag. Græðgin í veiðigjöld og þrýstingur til samþjöppunar má ekki afvegaleiða makrílveiðarnar.

 


Bloggfærslur 26. apríl 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband